Skaðleg íblöndunarefni í bensín

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 14:03:38 (4971)

1996-04-18 14:03:38# 120. lþ. 122.91 fundur 254#B skaðleg íblöndunarefni í bensín# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[14:03]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Einarssyni fyrir að bera þetta mál inn á okkar borð. Hann hefur verið iðinn við að flytja mál og vekja eftirtekt á því sem gæti leitt til þess að mengun af völdum umferðar yrði minni en ella. Það má minna á að hann flutti þingmál á síðasta þingi sem varðaði notkun steypu til þess að klæða með vegi í stað asfalts og draga þannig úr mengandi efnum. Ég tek undir það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði að hæstv. ráðherra hefur að ýmsu leyti skýrt vel afstöðu sína og ráðuneytisins og svarað þeim spurningum sem hv. þm. kom með að ýmsu leyti. Auðvitað hljóta menn að fagna því að dregið sé úr notkun blýs í bensíni og ég veit að hv. þm. fagnar því líka. Óyggjandi niðurstöður liggja fyrir sem benda til þess að blý sem einmitt kemur úr bensíni á þéttbýlissvæðum gæti t.d. hamlað greindarþroska barna. Meira að segja á Íslandi hefur stundum mælst staðbundin blýmengun sem er yfir þeim mörkum sem menn hafa talið háskaleg ungum börnum og því vel að þessi þróun sé núna að ná fram að ganga hér á Íslandi.

Hins vegar kemur fram hjá hv. þm. að ýmsar gerðir bifreiða þurfa að nota íblöndunarefni til mótvægis við brotthvarf þessara efna úr bensíninu. Það kemur á móti fram hjá hæstv. ráðherra að þetta er minnkandi hluti bílaflotans sem mun, ef ég skil hann rétt, hverfa á næstu árum þannig að hættan er e.t.v. ekki eins mikil og menn töldu. En samt sem áður hlýtur sú spurning að vakna hvort ekki þurfi með einhverjum hætti að grafast fyrir um það hvor hefur rétt fyrir sér, hæstv. ráðherrann eða hv. þm. þegar þeir ræða um meinta skaðsemi þessara efna. Hv. þm. heldur því fram að þetta leiði til 40% aukningar á krabbameinsvaldandi efnum. Hins vegar segir hæstv. ráðherra og vísar til sérstakra aðstæðna þar sem þessar mælingar fóru fram í Ástralíu að svo sé sennilega ekki.

Að lokum tek ég undir með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni sem vekur eftirtekt á því að það er í gildi reglugerð sem mér virðist beinlínis mæla fyrir um að gefin séu út sérstök leyfi fyrir efnum af þessu tagi. Væntanlega þá til þess að girða fyrir að skaðsemi þeirra komi niður á borgurunum.