Skaðleg íblöndunarefni í bensín

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 14:06:04 (4972)

1996-04-18 14:06:04# 120. lþ. 122.91 fundur 254#B skaðleg íblöndunarefni í bensín# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[14:06]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það má með sanni segja að allt er í heiminum hverfult því fyrir fáeinum árum var rekinn mjög sterkur áróður fyrir minnkandi notkun blýbensíns og ég verð að segja fyrir mig að ég varð fljót að sveifla mér yfir í notkun blýlauss bensíns. Ég trúði því og trúi því enn að það sé umhverfinu og okkur öllum til góða að draga sem allra mest úr blýi í andrúmsloftinu. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi mjög haldgóð rök fyrir því að vinna gegn því á einhvern hátt án þess að ég sé nú beinlínis að saka hv. málshefjanda um það. Staðreyndin er auðvitað sú sem menn hafa alltaf vitað að efnið bensen í bensíni er ekkert hollustuefni og að því er mér skilst er meira af því í því bensíni sem nú er á boðstólum. Hins vegar er ekkert endilega svo að meira af því efni þurfi að fara út í andrúmsloftið eftir en áður því það eru leiðir til þess að draga úr því eða hindra það, t.d. með notkun hvarfakúta. Ég tel því að hv. málshefjandi hafi tekið fullsterkt til orða þegar hann fullyrti að krabbameinsvaldandi efni muni aukast í andrúmslofti vegna þess að ákveðið var að hætta notkun 92 oktana bensíns. Ég vil hins vegar þakka honum fyrir það að vekja athygli á þessu máli og styð það að sjálfsögðu heils hugar að það verði kannað ítarlega frá öllum hliðum og vil ég nú hvetja hæstv. ráðherra í tilefni af þessu að gera það. Það væri t.d. fróðlegt að vita hversu margir bílar það eru hérlendis sem eru með vélar sem ganga ekki fyrir blýlausu bensíni. Mér skilst að þeim fari sífellt fækkandi. Hins vegar verður vonandi ekki allt of langt að bíða þess að unnt verði að draga verulega úr notkun bensíns yfirleitt þar sem á boðstólum verði umhverfishæfara eldsneyti, t.d. vetni, eða þá að fundin verði nothæf lausn á vandkvæðunum við það að nýta rafmagn til þess að knýja farartæki.