Skaðleg íblöndunarefni í bensín

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 14:08:33 (4973)

1996-04-18 14:08:33# 120. lþ. 122.91 fundur 254#B skaðleg íblöndunarefni í bensín# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[14:08]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þátttöku í umræðunni. Ég veit að hún er tæknileg og flókin og það er erfitt að gera sér grein fyrir því hvað er verið að fara en í gögnum sem ég sendi út til hv. umhvn. og hæstv. ráðherra eru meðfylgjandi gögn sem sýna fram á hvað er að gerast í nágrannalöndum okkar. Þar eru töflur sem sýna fram á innihald bensínsins sem við erum með. Það eru reiknaðar niðurstöður um útkomu sem ég vitna til og í langri grg., sem einnig fylgir með, er gerð lýsing á því hvað er að gerast. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég verð að segja að ég er ekki mjög sáttur við það að hann skuli fallast á haldlítil rök Hollustuverndar því ég tel að Hollustuvernd hafi ekki gert neina rannsókn. Mér finnst með ólíkindum að menn skuli taka þá ákvörðun að setja íblöndunarefni í bensín og hætta innflutningi á einhverjum efnum og breyta þannig til sem leiðir til þess að einstaklingar geta orðið fyrir skaða. Olíufélögin hafa ekki þurft að sækja sérstaklega um það.

Ég held því fram að það séu fjölmargar rannsóknir, sem hafa verið gerðar erlendis, sem hafa sýnt að með notkun blýminna bensíns eykst krabbameinsvaldandi efni í andrúmslofti verulega. Vísindamenn á Vesturlöndum, Ástralíu og Nýja-Sjálandi hafa mjög miklar áhyggjur af þessari þróun. Það er greint frá því í tímaritinu Nexus að aukning þessara efna leiði til fleiri krabbameinstilvika, t.d. hvítblæðis í Svíþjóð, og það sé mjög mikil ástæða til að fylgjast með heilsu þeirra aðila sem hafa með bensín að gera. Ég vek athygli á þessu máli og tel að við eigum að gá mjög vel að okkur. Ég ítreka þakkir mínar til þeirra þingmanna sem tóku þátt í umræðunni og vöktu máls á atriðum sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir. Málið þarf meiri skoðun, hæstv. umhvrh.