Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 15:13:01 (4980)

1996-04-18 15:13:01# 120. lþ. 122.9 fundur 464. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (flutningur grunnskólans) frv. 79/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[15:13]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil koma þeirri spurningu á framfæri við hæstv. félmrh. hvort það er virkilega svo sem mér skilst á þessari umræðu hér og orðaskiptum að áhrif frv. á fjárhag sveitarfélaganna hafi ekki verið skoðuð á einn eða neinn hátt í félmrn. áður en málið var lagt fyrir. Er það virkilega þannig að félmrn. hafi ekki haft aðstöðu til að athuga afleiðingarnar af samþykkt þessa frv. um fjármagnstekjuskattinn áður en það var lagt fyrir þingið? En samkvæmt frv. og fskj. þess er í raun verið að taka til baka alla þá peninga sem eiga að borgast með flutningi grunnskólans aukalega. Er það virkilega þannig? Er ekki allt í lagi að leyfa hæstv. félmrh. að svara eins og einni spurningu? Hann hefur alltaf verið að leiðbeina frænda sínum í Húnavatnssýslu um alla hluti. Væri hugsanlegt, hæstv. forseti, að ég fengi smábónus á ræðutíma minn vegna þess að það var verið að trufla hæstv. félmrh. og mátti hann nú síst við því í þessu máli. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra ...

(Forseti (GÁ): Forseti skal verða við því að gefa smábónus.)

Ég þakka hæstv. forseta, hér talar forsetinn með gullhjartað eins og kunnugt er og ég vænti þess að þetta verði fordæmi framvegis í þingsköpum og þingstörfum, einkum þegar hæstv. fjmrh. á í hlut og horfir til vandræða hér á bekkjunum sem kemur stundum fyrir. En ég endurtek spurninguna: Hafði félmrn. virkilega ekki tök á að taka á þessu fjármagnstekjuskattsmáli í þágu sveitarfélaganna áður en það kom inn í þingið? Það frv. gerir í raun og veru þetta frv. að engu, eins og hér hefur komið fram hjá hv. þm.

(Forseti (GÁ): Forseti tekur fram að hv. þm. fór ekki fram úr tíma sínum.)