Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 15:58:43 (4989)

1996-04-18 15:58:43# 120. lþ. 122.9 fundur 464. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (flutningur grunnskólans) frv. 79/1996, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[15:58]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég brást þannig við bréfi Sambands ísl. sveitarfélaga að ég boðaði til viðræðna um fjármagnstekjuskattinn og áhrif hans, þríhliða viðræðna félmrn. og fjmrn. og Sambands ísl. sveitarfélaga. Ég vonast til að geta komið þeim á á næstu dögum, áður en þessi lög og lögin um fjármagnstekjuskatt verða afgreidd frá Alþingi. Sveitarstjórnir eru auðvitað mjög mikilvægar stjórnsýslueiningar, um það er enginn ágreiningur. Hv. síðasti ræðumaður nefndi að verkaskipting þyrfti að vera skýr á milli ríkis og sveitarfélaga. Hún hefur ekki verið skýr hvað grunnskólann varðar. Reksturinn er kominn til sveitarfélaganna að öðru leyti en því að laun kennaranna hafa verið á könnu ríkisins fram að þessu. Ég tel að verkefnin skýrist við það að grunnskólinn fari alfarið til sveitarfélaganna.

Nú er það út af fyrir sig rétt hjá hv. þm. að sum sveitarfélögin eru það lítil og vanbúin að þau geta ekki rekið grunnskólann ein. En það er ekkert sem hindrar þau í því og það er ráð fyrir því gert og af því góð reynsla, að mörg lítil sveitarfélög séu saman um skóla og svo verður auðvitað í framtíðinni.

Sveitarfélög með færri en 2.000 íbúa hafa fengið framlag úr jöfnunarsjóði til byggingar grunnskóla. Eftir að frv. verður að lögum sitja öll sveitarfélög, líka þau sem eru með yfir 2.000 íbúa, við sama borð varðandi byggingar grunnskólans. Það má líta á þetta einsetningarmál sem þjóðarátak til að koma á einsettum grunnskóla í landinu og mér finnst ekki ástæða til að blanda því saman við annað. Ríkið kemur þarna afar myndarlega inn í málið til þess að tryggja að einsetningin geti orðið með eðlilegum hætti.

Ég vil að endingu, herra forseti, mótmæla þeirri fullyrðingu sem hér kom fram hjá hv. þm. að sveitarfélögin geti ekki tekið við grunnskólanum. Ég efaðist um það fyrst þegar þessi umræða fór í gang og undraðist það að sveitarfélögin skyldu sækjast eftir því að yfirtaka grunnskólann af jafnmiklum krafti og þau gerðu. En ég hef sannfærst um það eftir því sem málið hefur þróast og eftir því sem tekjustofnarnir verða ljósari að þau hafa alla burði til að gera það.