Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 16:36:53 (4996)

1996-04-18 16:36:53# 120. lþ. 122.5 fundur 443. mál: #A fjáraukalög 1995# (greiðsluuppgjör) frv. 82/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[16:36]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. bar fram fyrirspurn til mín varðandi stofnanir sem æ ofan í æ fara fram úr áætlunum. Þetta er hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. og hún nefndi reyndar dæmi þess efnis. Þegar svona hlutir koma upp þá hringja auðvitað aðvörunarbjöllur, ekki bara í fjmrn. heldur líka í þeim ráðuneytum sem bera ábyrgð á því að farið sé að fjárlögum. Ríkisendurskoðun og yfirskoðunarmenn ríkisreiknings, sem reyndar er stofnun sem nú hefur verið lögð niður, hafa gert sínar athugasemdir þannig að upplýsingar berast til fjmrn. eftir ýmsum leiðum. Það er haft samband við viðkomandi ráðuneyti og reynt að taka á málinu og í sumum tilvikum er gefinn nokkur frestur til þess, t.d. með því að leggja fram áætlun til nokkurra ára þannig að stofnunin geti lagað sig að fjárlögum eða þá að taka tillit óska stofnunarinnar ef talið er að um sé að ræða eðlileg útgjöld. Og stundum getur það komið fyrir að t.d. séu tekjur ýmissa embætta eða stofnana vanáætlaðar. Þannig að þetta er misjafnt. Eins og kom fram í fyrirspurninni er reynt að taka á þessu og okkur ber að gera það en nokkur vandræðabörn hafa legið eftir í kerfinu og við höfum þurft að fást við frá ári til árs. Þetta vildi ég að kæmi hérna fram.

Hitt atriðið sem hv. þm. minntist á og ástæða til þess að svara er það hvers vegna fjárheimildir reynast svona rúmar eins og bent var á. Ástæðan fyrir því er sú að í nokkrum tilvikum er ekki verið að lækka fjárheimildir þótt augljóslega sjáist á þeim tíma að þær gætu verið rúmar eins og t.d. um vexti því það er ekki nokkur leið að átta sig nákvæmlega á hve mikil lækkunin á að vera. Á hún að vera 200 millj., 300 millj. eða 400 millj.? Því er betra að gera það í einni breytingu þegar síðara frv. kemur fram.

Virðulegi forseti. Ég tók ekki eftir að tímanum er lokið þannig að ég get ekki farið lengra út í þessar athugasemdir að sinni.