Brú yfir Grunnafjörð

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 10:46:21 (5002)

1996-04-19 10:46:21# 120. lþ. 123.9 fundur 56. mál: #A brú yfir Grunnafjörð# þál., Flm. GE
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[10:46]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir athugasemdir hans og ábendingar. Ég gerði mér algerlega ljóst að það eru margar og mikilsverðar framkvæmdir sem liggja fyrir á Vesturlandi. Spurningin er um forgangsröð og hvað við látum ráða forgangsröð, hvort hagkvæmnisrannsókn og efling atvinnustigs í byggðarlagi ræður. Ég veit að honum er mætavel ljóst sem varaformanni samgn. hvernig þessum málum er háttað hjá okkur þingmönnum Vesturl., en ég ítreka það aftur sem ég sagði í upphafi að um er að ræða hagkvæmnisrannsókn og umhverfismat og hvort yfir höfuð er mögulegt að fara í þessa framkvæmd. Ég tel að kannski væri ástæða til þess í miklu fleiri málum að menn tækju til við að skoða hvað er mögulegt og hvað er réttætanlegt að fara í. Þess vegna er málinu hreyft og svo enn fremur til að vekja máls á því að í upphaflegu tillögunni frá þingmönnum öllum á Vesturlandi um vegtengingu um Hvalfjörð átti þetta að fylgja með en hefur dottið upp fyrir.