Samanburður á lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 11:01:21 (5005)

1996-04-19 11:01:21# 120. lþ. 123.10 fundur 309. mál: #A samanburður á lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum# þál., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[11:01]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnlaugi Sigmundssyni fyrir þessa athyglisverðu þáltill. Það er alveg nauðsynlegt að gera raunhæfan samanburð á lífskjörum okkar hér á landi og erlendis. Oft og tíðum er umfjöllunin ekki sanngjörn eða raunhæf. Menn bera í raun og veru ekki saman sömu dæmin, þeir taka ekki tillit til allra hluta. Við verðum að vita hvar við stöndum með tilliti til lífskjara hjá öðrum þjóðum.

Það var líka mjög athyglisvert að hlýða á hv. þm. þegar hann nefndi verðmyndun og hvað í raun og veru væri eðlilegt verðlag á þjónustu. Verðmyndun hér á landi er stundum gersamlega óskiljanleg og það á reyndar einnig við umfjöllun um ákveðnar afurðir, iðnað og þess háttar í fjölmiðlum. Þegar rætt er um verðmyndun vörunnar er það oft gert á mjög ósanngjarnan hátt.

Það kom einnig fram að það er mikið áhyggjuefni mjög margra hér á landi hve laun eru lág og við verðum að leita leiða til þess að hækka launin. Lág laun valda því að allt of margir eru ekki beinir þátttakendur í neyslunni í þessu þjóðfélagi, fólk hefur einfaldlega ekki efni á að kaupa ýmiss konar þjónustu sem hér er boðið upp á.

Ég endurtek þakkir mínar til hv. þm. og ég hlakka til að sjá þær niðurstöður sem verða í þessari könnun.