Samanburður á lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 11:18:17 (5012)

1996-04-19 11:18:17# 120. lþ. 123.10 fundur 309. mál: #A samanburður á lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum# þál., JBH
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[11:18]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég var fyrir ekki mjög löngu síðan staddur í landi sem er nú þessi árin að rísa úr rústum. Ég er að vitna til Eistlands. Eistland er dæmi um land sem á hálfri öld var lagt í rúst, bæði efnahagslega, atvinnulega og andlega. Upp úr 1990 fékk þjóðin nýtt tækifæri. Ég kom þar áður og svo eftir fjögurra ára breytingaskeið. Þetta er ein af þeim þjóðum sem gaman er að koma til af því að maður merkir svo sterklega breytinguna.

Forráðamenn í Eistlandi sendu unga menn vítt og breitt til þess að kynna sér það hvernig væri nú skynsamlegast að haga endurreisninni. Ég hafði ákaflega gaman af því þegar seðlabankastjóri þar var að lýsa fyrir mér einfaldleika kerfisins í landinu. Hann sagði: ,,Við höfum 29% einfalt tekjuskattskerfi.`` --- Það er nákvæmlega það tekuskattskerfi sem við komum á 1987 og síðan er búið að eyðileggja.

,,Annað: Við höfum 12% flatan virðisaukaskatt á alla neyslu nánast undantekningarlaust. Tvær undantekningar eru óhjákvæmilegar.

Þriðja: Við höfum enga tolla. Það er frjáls innflutningur inn í landið. Við höfum dvergsmátt hagkerfi og við bjóum almenningi í lífskjarahremmingunni upp á það að verðlag er hér lágt, ríkið íþyngir því ekki og það bjargar lífskjörum þjóðarinnar á umþóttunarskeiðinu.`` --- Þetta er nú eitthvað sem framsóknarmenn mættu gjarnan læra af .

,,Fjórða: Við erum að sjálfsögðu þannig staddir að við höfum enga ríkisstyrki og engar niðurgreiðslur af neinu tagi, þar á meðal ekki fyrir okkar landbúnað. Hann er nú bara fyrir heimamarkað en hann verður hvort eð er að vera það vegna þess að landbúnaðarstefna ríku þjóðanna í kringum okkur lokar okkur frá mörkuðunum.``

Ég nefni þetta sem dæmi vegna þess að þegar maður byrjar upp á nýtt og þarf ekki að taka tillit til þess að sögulega séð hafa verið byggðir upp varnarmúrar í kringum einhverja sérhagsmuni getur maður sagt: Mikil lifandis ósköp er gaman þegar heilbrigð skynsemi og vit fær að ráða. Þarna er með öðrum orðum sú grundvallarhugsun að gera ekkert til þess að hindra að dugnaður, framtak og sjálfsbjargarviðleitni þjóðarinnar nái að bjarga þeim eftir að landið var lagt í rúst. Þetta minnir mig á að þegar ég var mun yngri maður og áhugi minn á þjóðfélagsmálum vaknaði, snerist öll umræða í heiminum um það hvernig Þjóðverjar höfðu náð að byggja sig upp úr rústum, þ.e. þýska efnahagsundrið. Síðar meir snerist sú umræða um Japan og hún er núna um grundvallaratriðin í því hvað veldur því að efnahagstígrarnir í Asíu hafa náð jafnmiklum árangri og raun ber vitni.

Í öllum þessum þremur dæmum sem ég nefni má finna sameiginleg einkenni. Hver eru þau? Þau eru undir öllum kringumstæðum að menn gera það sem þeir geta til þess að virkja dugnað og framtak og það heitir: Samkeppni á markaði. Annað: Menn forðast eins og heitan eldinn verndarstefnu, verndartolla, innilokun og einangrun. Þriðja: Menn reyna að því er varðar hlutverk ríkisins að halda því í skefjum og hafa það undir einföldum almennum reglum. Að því er varðar fyrirtækin er eitt einkennandi fyrir öll þessi lönd og það varðar umræðuna við hv. þingmenn Gunnlaug Sigmundsson og Pétur Blöndal um arðsemina og meðhöndlun arðs. Ég hef vísað til þess áður og það er þetta: Þýska efnahagsundrið byggðist á því að skattalög sögðu við eigendur fyrirtækja: Svo lengi sem þið haldið fjármagninu inni í fyrirtækjunum þá munum við skattleggja það mjög lágt með mjög lágum tekjuskatti á hagnað fyrirtækjanna. Ef þið takið arðinn út úr fyrirtækjunum með arðgreiðslum til eigenda, lítum við það sem nánast refsivert athæfi og við skattleggjum það eins og launatekjur alveg upp í topp.

Þetta er lykilatriði, bæði að því er varðaði Þýskaland, þýska efnahagsundrið, Japan og fyrirmyndarríkið mikla, Singapore, því að svona eru fyrirtæki byggð upp. Þetta hét í marxismanum í gamla daga kapítalísk akkúmúlasjón. Marx hafði ýmislegt skynsamlegt fram að færa á sínum tíma. Það er eins og þessir nýfrjálshyggjumenn skilji þetta ekki og einn megingallinn á íslenskum fyrirtækjarekstri, fyrir utan þá bernskusjúkdóma að það var oft mikið af sjúskuðum og lélegum rekstri, liggur í því viðhorfi eigendanna að líta á þessi fyrirtæki, sem oft eru hvorki fugl né fiskur heldur svona smárassvasaheildsölur nánast, sem einhvers konar skattaskjól. Þeir halda að tilgangurinn sé að mergsjúga út úr fyrirtækjunum sem mestan arð og að skattlagningin eigi fyrst og fremst að hygla úborguðum arði sem síðan hverfur í einkaneyslu. Enda segja hinir landflótta Íslendingar sem bera saman hegðun og framgöngu atvinnurekenda í smáfyrirtækjum úti í Danmörku og víðar: Annars staðar er vinnuveitandinn í gallanum að vinna við hliðina á okkur. Á Íslandi er hann í súperjeppanum að leita fyrirgreiðslu hjá opinberum stofnunum.

Auðvitað er þetta ýkt mynd, ég viðurkenni það. Ég er ekki með þessu að segja að ég hafi lokað augunum fyrir því jákvæða sem er að gerast í íslenskum fyrirtækjum, það er margt. Einkum og sér í lagi gerist eitthvað þegar dregið er úr einokun, þegar dregið er úr forréttindaaðstöðu ríkisins, þegar létt er reglugerðaráþján og þegar ýtt er undir samkeppni.

Umræðan um þetta mál er ekkert á byrjunastigi. Fyrir skömmu síðan gerðist það að ungur prófessor, dr. Þorvaldur Gylfason, sendi frá sér fjórða ritgerðasafnið í röð á nokkrum árum sem heitir ,,Seinustu forvöð``. Þar segir: Ísland er að dragast aftur úr og framtíðarsýnin er ekki mjög björt. Rökin eru öll gamalkunn, fyrirtækjastrúktúrinn, lítil arðsemi fyrirtækja, takmarkað eigið fé fyrirtækja, einokun, leifar af einokun og verndarstefnu í utanríkisviðskiptapólitíkinni. Hvar værum við stödd ef við hefðum ekki náð fram EES-samningnum? Ég má ekki til þess hugsa. Hugsið ykkur hvernig núv. ríkisstjórn klúðraði útfærslunni á GATT-samningunum. Því miður. Það bar ekki vott um nokkurn einasta skilning á því sem hv. þm. er að lýsa.

Síðan er það skipulagsvandinn í íslensku atvinnulífi. Hvað er iðnaðurinn núna að tala um? Hvers vegna hefur okkur ekki tekist að byggja upp sómasamlegan, lífvænlegan iðnað til útflutnings? Við getum aldrei byggt upp iðnað fyrir heimamarkað vegna þess að hann er svo dvergsmár. Það getur ekkert fyrirtæki í iðnaði náð niður framleiðslukostnaði vegna þess að markaðurinn er svo lítill að við verðum að sérhæfa okkur til útflutnings. Þess vegna er heimamarkaður okkar Evrópa númer eitt og þess vegna jafnvel heimurinn allur. En það er meira að segja ekki skilningur á þessu. Hvað er iðnaðurinn að tala um núna? Hann talar um það að við erum nú þar stödd í hagsveiflunni að það er að byrja ný uppsveifla í sjávarútveginum. Við höfum svo ótal oft farið í gegnum þetta áður. Ef þetta byrjar núna, verður hér ný kollsteypa nema því aðeins að menn taki á skipulagsvandanum. Hugmyndir okkar um veiðileyfagjaldið eru prófsteinn á það hvort menn skilja þetta eða skilja þetta ekki. Ef ekki er hægt að taka á einokuninni í landbúnaðinum, taka upp veiðileyfagjald í sjávarútveginum, hrista upp í opinbera kerfinu og einkavæða bankana, heldur stöðunin áfram.