Ríkisreikningur 1991

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 11:45:53 (5017)

1996-04-19 11:45:53# 120. lþ. 123.4 fundur 87. mál: #A ríkisreikningur 1991# frv. 35/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[11:45]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég stend upp til þess að þakka hv. fjárln. og formanni hennar fyrir það hvernig að málum er staðið núna varðandi frv. til laga um samþykki á ríkisreikningi fyrir árið 1991 sem er að verða sögulegur reikningur. Eins og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir benti á áðan, þá hefur þessi reikningur ekið á undan sér býsna þungu hlassi því að ég tel að ágreiningurinn um hann hafi að nokkru leyti orðið til þess að reka á eftir því að ríkisreikningsnefnd skilaði áliti og hefur líka orðið til þess að reka á eftir því að það næðist samkomulag í þinginu við fjmrn. og Ríkisendurskoðun um uppsetningu ríkisreikninga og um það frv. sem nú liggur fyrir um fjárreiður ríkisins. En það frv. er að stofni til álíka gamalt og þessi reikningur sem hér er verið að fjalla um. Þetta frv. er reyndar aðeins eldra.

Ég man ekki betur en það hafi verið í tíð fjárveitinganefndarforustu hv. þm. Pálma Jónssonar og Sighvats Björgvinssonar sem það mál kom fyrst til meðferðar. Það vakti þá litla hrifningu, aðallega þeirra sem stóðu þá fyrir ráðuneytum og átti við fjmrh. þáv. og fleiri þáv. ráðherra. Síðan hefur verið unnið mikið starf í því að reyna að ljúka þessu máli og reyna að ná sátt um hlutina. Það hefur sem sagt tekist með því áliti ríkisreikningsnefndar sem birt var og ríkisendurskoðandi stóð að og síðan með því frv. til laga um fjárreiður ríkissjóðs sem nú er til meðferðar í sérnefnd. Hv. þm. Jón Kristjánsson upplýsir okkur um að það sé ágætt samkomulag um það mál. Ég vona að svo sé og vil spyrja hann í framhaldi af orðum hans áðan hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að það sé ágætt samomulag um þær aðferðir sem samkomulag varð um í ríkisreikningsnefnd og þær aðferðir sem mælt er fyrir um og gerð er tillaga um af hálfu Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings þegar þeir skrifuðu á ríkisreikninginn fyrir árið 1991. Þar lögðum við megináherslu á það atriði að bókun skuldbindinga ætti að ráðast af því hvenær Alþingi afgreiðir málið formlega. Þar eru vatnaskilin í málinu. Að okkar mati sem gegndum störfum yfirskoðunarmanna ríkisreiknings í nokkur ár eru vatnaskilin þar sem Alþingi afgreiddi málið. Mér þætti vænt um ef hv. frsm. og formaður fjárln. gæti farið um þetta nokkrum orðum.

Ég tel mig vita að ég geti gengið út frá því að svarið við þessari spurningu sé jákvætt og vil af því tilefni geta þess í fyrsta lagi að ég lít þannig á að ríkisreikningurinn sé mikilvægt mál og það skipti miklu máli að hann sé gagnsær og nothæfur sem stjórntæki. Ríkisreikningurinn hefur ekki verið nothæft stjórntæki á undanförnum árum svo vel væri. Þannig hefur ekki verið hægt að bera saman annars vegar fjárlög og hins vegar ríkisreikning með augljósum gagnsæjum og aðgengilegum hætti. Þannig hafa fjárlögin ekki verið neitt stjórntæki vegna þess að þegar menn hafa verið að leita að uppruna talna í ríkisreikningi, reynast útgjöldin oft eiga uppruna sinn jafnvel í mörgum tugum fjárlagaliða. Ég man eftir dæmum um það að við röktum okkur í gegnum nokkrar svona tölur og komumst að raun um að tiltekin ein tala í ríkisreikningi átti sér kannski uppruna í einum 10--15 heimildum í fjárlögunum. Því varð vonlaust að bera saman talnadálka fjárlaganna annars vegar og ríkisreikningsins hins vegar.

Nú er þetta að breytast. Að vísu verður að segja að það kostaði miklar fórnir því að steininn tók úr í þessu efni á síðasta kjörtímabili. Þá gerðist það í fjárlögum ársins 1992 ef ég man rétt, að tekin var um það ákvörðun af ríkisstjórninni við 3. umr. fjárlaga að skera ríkissjóð niður flatt um tiltekna prósentu og fela síðan ráðherrunum hverjum fyrir sig að dreifa upphæðunum í sín ráðuneyti. Það varð til þess að Alþingi sagði um leið og það afgreiddi fjárlögin: Ja, fjárlögin eru að vísu svona, en í lokagrein fjárlaganna er tiltekin grein sem afnemur þau að talsverðu leyti og afhendir ráðherrunum fjárveitingavaldið. Þetta vakti mikla umræðu og mikla athygli og varð til þess að menn hafa sett sér það að vinna betur að þessum málum. Ég hygg að frv. um fjárreiður ríkissjóðs, sem ég leyfi mér að nefna hér, hæstv. forseti, enn á ný, taki á þessu máli þannig að þá verði mikið betra og auðveldara að sjá þessa hluti í gegn en hægt er núna og var, sérstaklega ekki síst á árinu 1992, að ég tali ekki um verðbólguárin sem voru þannig að þetta var alveg vonlaust verk. Staðreyndin var sú að á verðbólguárunum voru fjárlögin óbrúkleg sem stjórntæki vegna þess að menn þurftu að vera að færa til tölur svo að segja upp á hvern einasta dag. En eftir að tókst í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar á árunum 1988--1991 að ná verðbólgunni verulega niður, hefur þetta auðvitað smátt og smátt þróast í þá átt að vera nothæft sem stjórntæki og ég tel að það skipti miklu máli í þessu samhengi.

Frá sjónarmiði vinstri manna skiptir það sérstaklega miklu máli að ríkisreikningur og fjárlög, að mínu mati, séu góð stjórntæki. Það er vegna þess að við tölum gjarnan fyrir félagslegri neyslu og fyrir samneyslu. Til þess að samneyslan sé trúverðug, þá verður að vera hægt að rekja fjármunina sem þjóðin veitir til samneyslunnar. Þess vegna er meðferð reikninga og meðferð fjármuna ríkisins úrslitaatriði, mér liggur við að segja, í hugmyndafræði vinstri stefnu og jafnaðarstefnu vegna þess að það eru auðvitað ekki fjármunir einstaklinga heldur fjármunir þjóðarinnar sem menn eru að fara með, fjármunir einstaklinganna í landinu en ekki einstakra ráðherra eða þingmanna. Það er mikilvægt að Alþingi og ríkisstjórn vandi sig í meðferð þeirra fjármuna sem þjóðin treystir þeim fyrir. Það hefur oft skort á það og skortir reyndar á það enn þá. En þar þokast hlutirnir tæknilega í rétta átt þó að pólitískt sé oft ágreiningur um málin.

Varðandi málið að öðru leyti tel ég fulla ástæðu til þess að nefna það að hv. þm. Pálmi Jónsson, lengi þingmaður fyrir Sjálfstfl. og einn af forustumönnum fjárveitinganefndar um árabil, yfirskoðunarmaður ríkisreiknings sömuleiðis, eigi mikið í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram, bæði nú og fyrr um ríkisreikning og uppsetningu fjárlaga. Ég tel ástæðu til þess þó að hann sé fjarri þessum sölum nú um stundir hvað sem verður í næstu kosningum, að þakka honum fyrir þá elju og þrautseigju sem hann sýndi í þessum málum. Staðreyndin var sú að það var oft mjög flókið fyrir hann, m.a. vegna þess að hann átti þar oft í höggi við flokksbræður sína og systur í þessum málum. Það var þannig að með stjórnarmynduninni 1991 skipti Sjálfstfl. um skoðun í ríkisreikningsmálum. Hann hafði allt aðra skoðun eftir að hann var kominn í ráðuneytið en hann hafði haft í þinginu á tímum ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar á árunum 1988--1991. Þrátt fyrir það hélt hv. þm. Pálmi Jónsson sig við þessa línu sína og það verður auðvitað að játa það að minnsta kosti að ekki er hægt að halda því fram að hans afstaða og málflutningur hafi greitt fyrir því að ríkisreikningurinn fyrir árið 1991 yrði afgreiddur. Þvert á móti held ég að það hafi verið þannig að menn hafi borið nokkurn kvíðboga fyrir því að taka hann til umræðu miðað við það ósætti sem ríkti á þeim tíma um afgreiðslu reikningsins. Nú virðist það ósætti vera að leysast og ég tel að það sé fagnaðarefni.

Ég vil í þessu sambandi sérstaklega að lokum vísa til þess að þeim sjónarmiðum sem Ríkisendurskoðun og yfirskoðunarmenn ríkisreikninga höfðu í þessu máli hafa oft verið gerð mjög góð skil í þessum ræðustól. Í því sambandi þakka ég fyrir þær tilvitnanir sem koma fram í nefndaráliti fjárln. Samhengisins vegna vil ég sérstaklega vísa til ræðu sem hv. þm. Pálmi Jónsson flutti úr þessum ræðustól á Alþingi 14. apríl 1993, þar sem hann ræddi um þessi mál og gerði grein fyrir þeim sjónarmiðum sem við sem vorum þá yfirskoðunarmenn ríkisreikninga, höfðum í þessu máli. Ég tel sem sagt að þau sjónarmið sem hv. þm. Pálmi Jónsson barðist þá fyrir og við mörg tókum undir og beittum okkur líka fyrir, hafi fengið mjög farsæla lendingu.

Að lokum, hæstv. forseti. Þegar ríkisreikningurinn 1991 og 1992 og 1993 er afgreiddur hér, er kannski rétt að minnast á það að við tókum um það ákvörðun og ég hygg að ég hafi átt dálítið í þeirri ákvörðun, að Alþingi ákvað á síðasta ári, trúi ég það hafi verið, að leggja niður stjórnarskrárkjörna yfirskoðunarmenn ríkisreikninga. Það var þannig eins og menn þekkja alveg frá því í stjórnarskránni 1874 að það var gert ráð fyrir því að Alþingi kysi til eins árs í senn þrjá yfirskoðunarmenn ríkisreikninga. Þetta hentaði ágætlega til að byrja með en varð að sumu leyti þeim mun meiri fjarstæða sem lengra leið. Nú fengum við fyrir almörgum árum óháðari Ríkisendurskoðun sem heyrir undir Alþingi og þess vegna er eðlilegt að þessi stjórnarskrárskylda sé felld niður. Hins vegar verð ég að segja það hér að mér finnst að okkur gangi dálítið seint að taka um það ákvörðun hvað á að koma í staðinn því að það verður eitthvað að koma í staðinn. Með fullri virðingu fyrir fjárln., þá tel ég að hún sé ekki nægilega skýr valkostur í þessu efni því að hún kemur ekki í staðinn fyrir yfirskoðunarmenn ríkisreikninga. Það ættu að vera til einhver ríkisreikningsnefnd sem færi yfir ríkisreikninginn, færi yfir skýrslur Ríkisendurskoðunar og beindi þeim í farveg hér í stofnuninni. Segjum t.d. að skýrsla fjalli um eitthvert mál á sviði félmrn. Þá yrði fjallað um hana og hún afgreidd á einhvern hátt í félmn., eins á vegum menntmrn. o.s.frv. Ég tel sem sagt að það sé slæmt ef þessu þingi lýkur, hæstv. forseti, án þess að það sé til nein ákvörðun og neitt lagalegt ákeðið ferli um það hvernig á að fara með ríkisreikning. Og ég vil beina því til hæstv. forseta í mikilli alvöru að það verði reynt að halda þétt utan um það mál í forsætisnefndinni, að það verði mynduð samstaða um úrræði sem á að koma í staðinn fyrir yfirskoðunarmannakerfið því að það gengur ekki að láta þetta hanga í lausu lofti. Ég segi alveg eins og er að ef við afgreiðum þetta ekki núna á þessu þingi, óttast ég að þetta geti legið í láginni í mörg, mörg ár. Í þessum efnum eiga menn að vanda sig. Og í þessum efnum höfum við líka ágætt fordæmi eins og t.d. í breska þinginu þar sem er afar góð hefð fyrir því hvernig farið er með ríkisreikninga. Ég tel að í danska þinginu hafi verið tekið upp mjög gott og skynsamlegt kerfi sem geti hentað okkur líka. Í norska þinginu hefur verið tekið upp nýtt kerfi líka en það er lakara að mínu mati þar sem yfirskoðunarmaður eða yfirmaður ríkisendurskoðunar er pólitískur. (Gripið fram í: Hvernig er danska kerfið?) Ja, danska kerfið er þannig að þar er um að ræða sérstaka ríkisreikningsnefnd í þinginu og hún hefur með ríkisreikninginn að gera. Hún fjallar um hann í einstökum atriðum. Síðan tekur hún ákvörðun um það hvort hún telur að eitthvað sé þar athugavert. Ef svo er, þá beinir hún tilmælum til viðkomandi fagnefndar í þinginu eða til viðkomandi ríkisstofnunar og biður um skýringar. Stundum gerist það að nefndin, þessi ríkisreikningsnefnd í danska þinginu, fer fram á það við þingið sjálft að hún fjalli um málið en stundum afgreiðir hún málin endanlega sjálf. Þetta er algerlega óháð kerfi í þeim skilningi að það er þingið sem ræður.

Í breska þinginu hefur sú hefð verið mótuð og skýrist t.d. í því að núna undanfarin ár hefur Verkamannaflokkurinn verið með formann ríkisreikningsnefndarinnar til að undirstrika óhæði hennar andspænis stjórn Íhaldsflokksins. Við höfum í þessari virðulegu stofnun verið að taka upp vandaðri vinnubrögð bæði faglega og pólitískt. Þótt stutt sé eftir af þinginu ætti að vera hægt að ljúka málinu í vor. Ég held að það skipti mjög miklu máli að það verði gert.