Ríkisreikningur 1991

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 12:02:27 (5019)

1996-04-19 12:02:27# 120. lþ. 123.4 fundur 87. mál: #A ríkisreikningur 1991# frv. 35/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[12:02]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 14. þm. Reykv. fyrir þær undirtektir við mál mitt sem fram kom í andsvari hennar áðan og vildi kannski bæta því við að einhvern tíma þyrftum við hér í þessum sal að geta rætt um hluti af þessu tagi meira en við gerum. Við ræðum mikið um mál af þessu tagi í forsætisnefnd Alþingis og eins á vettvangi formanna þingflokkanna og við ræðum þetta líka okkar í milli með óformlegum hætti, en það er allt of lítið um það að Alþingi ræði um sig sjálft í þessum sal þannig að fleiri sjónarmið geti komist að.

Eitt af því sem mér finnst að þyrfti t.d. að ræða er náskylt þessu máli. Og af því að ég veit að formaður fjárln. er næstur á mælendaskrá nefni ég það, en það eru vinnubrögðin við fjárlögin, bæði í fjárln. og í fagnefndunum. Við sem höfum verið í fagnefndunum en ekki fjárln. erum ósátt við hvernig hefur verið farið með okkar vinnu. Þar er ég ekkert að kenna fjárln. um heldur er ég bara að undirstrika að ég held að það kerfi sem nú er sé ekki virkt, það er ekki nógu gott. Ég held að fjárln. beri enn of mikinn svip af fyrra nafni, fjárveitinganefnd, menn líta þannig á að þeir eigi þar áfram hauka í horni og vilja að þar sé stunduð veitingastarfsemi eins og fólst í nafni hinnar gömlu nefndar sem ég held að eigi að vera orðin liðin tíð, fjárln. á að fjalla um rammann fyrir ríkisfjármálin.