Ríkisreikningur 1991

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 12:04:02 (5020)

1996-04-19 12:04:02# 120. lþ. 123.4 fundur 87. mál: #A ríkisreikningur 1991# frv. 35/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[12:04]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru bara skoðanaskipti sem hér eiga sér stað og ég vil líka taka undir það síðasta sem fram kom í máli hv. þm. Ég hef vakið athygli á því nokkrum sinnum á undanförnum vikum að ég tel að það sé komin einhver mikil skekkja í verkaskiptingu hér á Alþingi. Við vitum að það eru ýmis mál sem liggja óbætt hjá garði eins og hér hafa verið nefnd og einnig að vinnuálag í nefndum er alveg geysilega misjafnt. Það er ekki bara dugnaður ráðuneytanna sem veldur því heldur eðli málaflokkanna. Ég held einmitt að við eigum að nota tækifærið og skoða þessa verkaskiptingu og þá nefndaskipan sem við búum við og kanna hvort við eigum ekki að breyta henni á einhvern veg og hvort hún eigi að fylgja ráðuneytunum svona nákvæmlega eins og hún gerir. Það má velta upp þeirri spurningu og jafnframt hvort það megi skipta nefndum upp o.s.frv. Eins og ég segi, það er eitthvað sérkennilegt við þessa verkaskiptingu. Ég veit ekki hvort þetta er einhver breyting en ég hef haft á tilfinningunni að síðasta kjörtímabil og það sem af er þessu hafi einhver þróun átt sér stað í þá veru. Það tengist EES-samningnum að viðskiptamál, bankamál og það sem snýr að skipulagi á vinnumarkaði hafa orðið miklu viðameiri mál en áður. Það væri gott að heyra hvað eldri þingmenn hafa um þetta að segja. Er þetta einhver tilfinning sem ég hef eða hefur þetta bara verið svona í vetur og jafnvel undanfarin ár? Eða er þetta einhver nauðsynleg eðlisbreyting? Þá þarf Alþingi auðvitað að bregðast við því á einhvern hátt.