Ríkisreikningur 1991

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 12:06:26 (5021)

1996-04-19 12:06:26# 120. lþ. 123.4 fundur 87. mál: #A ríkisreikningur 1991# frv. 35/1996, Frsm. JónK
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[12:06]

Frsm. fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka athyglisverða og málefnalega umræðu um þetta mál. Hv. 8. þm. Reykv. spurði um það hvort það væri samkomulag í sérnefndinni um þær aðferðir sem samkomulag varð um í ríkisreikningsnefnd. Um það er það að segja að auðvitað er vinnan í sérnefnd í miðjum klíðum en hún hefur gengið mjög vel. Það hafa engar tillögur komið fram um að gera grundvallarbreytingar á því frv. sem fyrir liggur. Ég hlýt að svara því játandi að samkomulag sé um þessar aðferðir þótt vinnu sé að sjálfsögðu ekki lokið.

Ég vil einnig staðfesta það sem kom fram í máli hv. 8. þm. Reykv. þar sem hann rakti forsögu þessa máls og forustu þingmanna eins og Pálma Jónssonar í þessu máli. Mér er kunnugt um að hann ásamt öðrum fyrrv. formönnum fjárln. létu sig þessi mál varða og unnu gott starf í þessu ferli sem nú hefur endað í því frv. sem liggur fyrir þinginu og ber að þakka það.

Ég vil einnig geta þess svo öllu sé til skila haldið að í ríkisreikningsnefnd, sem Ríkisendurskoðun og fjmrn. á m.a. aðild að, er á mikill áhugi fyrir því að leiða þetta mál til lykta. Í rauninni hafa þegar verið hafin störf hjá ríkisbókhaldinu sem koma fram í uppsetningu ríkisreiknings fyrir árið 1994. Þar er henni breytt og þar eru mjög góðar og gegnsæjar sundurliðanir sem eru afar mikils virði fyrir þá sem þurfa að fylgjast með þessum málum. Það þurfa auðvitað sem allra flestir. Ég tek einnig undir að það er mjög áríðandi að ríkisreikningurinn sé gegnsær og samanburðarhæfur við fjárlög eftir því sem hægt er að koma því við og ég tel að þar hafi verið stigin stór skref til þess.

Hér hefur einnig verið rætt um vinnubrögð í þinginu og þann farveg sem ríkisreikningur og skýrslur Ríkisendurskoðunar hafa í meðförum. Við í fjárln. höfum töluvert hugleitt þessi mál þótt ekki hafi verið gerðar neinar stórvægilegar breytingar. Ég tek undir að þörf er á því að ræða um þetta skipulag og það er á vettvangi forsætisnefndar þingsins auðvitað sem sú umræða fer fram. Það er satt að segja ekki í nógu ákveðnum farvegi hvaða meðferð skýrslur Ríkisendurskoðunar og ríkisreikningur fá. Það er fjallað um það í fjárln. Ríkisendurskoðun hefur gert grein fyrir skýrslum sínum í fjárln. en síðan er óljóst um þann farveg sem Alþingi hefur til að fylgja þeim athugasemdum eftir sem þar koma fram og það er nauðsynlegt að skýra þann farveg.

Einnig hefur komið til umræðu verkaskiptingin milli fagnefnda og fjárln. varðandi fjárlagagerðina. Þar eru ýmis sjónarmið uppi. Sumir segja að fjárln. þurfi að hafa sem flesta þræði í sínum höndum. Aðrir vilja ganga lengra í skiptingu verka og láta fagnefndir hafa stærra hlutverk. Ég ætla ekki að stinga upp á neinum lausnum á því. Ég vil ræða þau mál og gangast fyrir því að um þau fari fram umræða. Þær hljóta óhjákvæmilega að fara fram á vettvangi forsætisnefndarinnar. Við höfum haft þann hátt á í fjárln. að senda þá kafla fjárlaga sem heyra undir fagnefndir til umsagnar þeirra og formenn nefndanna gera grein fyrir þeim umsögnum á fundi með fjárln. Við höfum með því viljað gefa þeim umsögnum heldur meira vægi. Hins vegar eru það ekki endanlegar lyktir þessa máls heldur þarf að skipa þessu í ákveðinn farveg að því tilskildu að það sé ljóst og fari ekki á milli mála hvar ákvörðunarvaldið er varðandi fjárveitingar. Það þarf að vera ljóst og skýrt hver ábyrgðina ber í þeim efnum.

Ég þakka þær undirtektir sem þetta mál hefur fengið. Einnig hafa komið fram hugmyndir um svokallaða kontrólnefnd eða sérstaka nefnd sem hefði til umfjöllunar ríkisreikning og skýrslur Ríkisendurskoðunar. Þetta er hugmynd sem þarfnast umræðu og ég vil alls ekki útiloka þessa lausn á málinu sem þátt í breytingu á þingsköpum. En auðvitað þarf að ræða þessi mál á vettvangi forustu þingsins og undirbúa þær breytingar mjög vel. Hér er um afar stórt mál að ræða og þáttur í því er að gera vinnubrögð þingsins og aðhald Alþingis virkara og skilvirkara varðandi það stórmál sem fjármál ríkisins og meðferð opinberra fjármuna eru.

Það væri hægt að halda áfram lengi dags að ræða þessi mál. Auðvitað þarfnast þau umræðu. En nú ætla ég að ljúka máli mínu og þakka aftur fyrir málefnalegar umræður um þetta mál.