Fiskréttaverksmiðjur

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 12:33:09 (5025)

1996-04-19 12:33:09# 120. lþ. 123.11 fundur 310. mál: #A fiskréttaverksmiðjur# þál., DH
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[12:33]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm., Gunnlaugi M. Sigmundssyni, fyrir þá þáltill. sem hér er til umræðu. Eins og fram kom í máli hans hefur íslenskt atvinnulíf öðru fremur byggst á sjósókn og vinnslu sjávarafla. Eitt af því mikilvægasta í þjóðfélaginu er að hámarka þau verðmæti sem verða til í sjávarútvegi.

Á undanförnum árum hefur mikið verið um það rætt að mikið hafi verið flutt út af óunnum fiski frá Íslandi. Sem betur fer hefur orðið mikil framþróun í landinu og orðið töluverð breyting í úrvinnslu sjávarfangs og nýtingu þess. Það er hægt að margfalda verðgildi sjávarafla með fullvinnslu og það er athyglisvert að heyra í fréttum í vor á loðnuvertíðinni að hægt væri að þrefalda verðmæti loðnuaflans með því að þurrka og pakka loðnunni í neytendapakkningar. Mörg fyrirtæki eru reyndar byrjuð að vinna úr t.d. afskurði af fiski og veit ég um eitt fyrirtæki í Hafnarfirði sem kaupir allan afskurð frá frystiskipi og vinnur úr því vöru sem fer í neytendapakkningar.

Eitt atriði finnst mér þó umhugsunarefni, þ.e. tekjuskattsfrelsið í 25 ár sem flm. ræddi um. Er það ekki of fordæmisgefandi og mismunar það ekki of mikið fyrirtækjum? Er ekki hægt að fara einhverja aðra leið til að liðka til fyrir því að fyrirtæki komi hingað til lands? Ég tel að sveitarfélögin verði þá t.d. að ívilna í sínum álögum. Í sambandi við afslátt á gildandi orkuverði hefur það verið mikið til umræðu í iðnaði, ekki aðeins í fiskiðnaði heldur líka í landbúnaði, hvort ekki væri hægt að fá orkuna á lægra verði.

Hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson minntist á íslenskt vörumerki. Það hefur oft verið rætt um að nýta íslenska fánann eins og Danir gera. Þeir merkja alla sína vöru með danska fánanum og eru afskaplega stoltir af því. Ég vildi gjarnan sjá fallegt íslenskt vörumerki með íslenska fánanum þannig að allir vissu hvaðan þessi góða vara er komin. Ég tel að það yrði mikill fengur ef hægt væri að fá þessar verksmiðjur hingað til Íslands og ég vil að lokum þakka hv. flm. fyrir þáltill.