Friðlýsing Hvítár/Ölfusár og Jökulsár á Fjöllum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 13:04:58 (5031)

1996-04-19 13:04:58# 120. lþ. 123.13 fundur 373. mál: #A friðlýsing Hvítár/Ölfusár og Jökulsár á Fjöllum# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[13:04]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur fyrir það frumkvæði sem hún hefur að því að þessi tillaga til þingsályktunar um friðlýsingu þessara tveggja áa er flutt. Ég er að vísu einn af meðflutningsmönnum hennar en tillagan er að öllu leyti að frumkvæði hennar og Kvennalistans. Það er að vonum því að Kvennalistinn hefur markað spor í þingsögunni að því leyti til að hann var, eins og ég hef áður vakið athygli á þessum sölum, sennilega fyrsti stjórnmálaflokkurinn sem beinlínis gerði það eitt af tveimur aðalmálum sínum að berjast fyrir aukinni náttúruvernd og umhverfisvernd á Alþingi Íslendinga.

Þessi tillaga sem hér er lögð fram er afskaplega merkileg. Hún felur það í sér að tvær af stórbrotnustu ám landsins, þ.e. Hvítá/Ölfusá annars vegar og hins vegar Jökulsá á Fjöllum verði verndaðar frá upptökum til ósa. Það er tímabært að tillagan komi fram, ekki síst vegna þess að eins og kom fram í máli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, þá vex ásóknin í orkuna sem liggur óbeisluð í þessum miklu fallvötnum.

Ég held að þegar að kemur að umræðum um til hvers á að nota landið, þá getum við lagt ýmsa mælikvarða á það. Einn mælikvarði er að við þurfum að halda hluta landsins í sem upprunalegustu horfi fyrir hinar ókomnu kynslóðir vegna þess að það er hluti af arfi sem við megum ekki spilla. Síðan kemur líka efnahagslegur mælikvarði sem menn leggja jafnvel á fegurð landsins. Hin ósnortnu víðerni eru farin að mala gull vegna þess að í öllum heiminum eru svo fá landflæmi eftir sem hægt er að flokka og skilgreina sem ósnortin víðerni, að menn fara jafnvel í fjarlægar álfur til þess að berja þau augum. Ísland er góðu heilli eitt þeirra fáu landa sem eru eftir og getur státað af miklum landflæmum sem eru ósnortin. Ísland er eitt af fáum löndum þar sem menn geta staðið á háu fjalli og horft allt um kring án þess að sjá nokkur merki um verk sem mannshöndin hefur unnið.

Þess vegna er þessi tillaga líka merkileg og mikilvæg vegna þess að hún varðveitir þær undirstöður sem búið er að leggja að nýrri atvinnugrein, atvinnugrein sem er að sönnu í hraðfluga þróun en það er ferðaþjónustan. Að því leyti til er þessi tillaga líka afskaplega þörf.

Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni um að menn þurfi að kanna það vel hvernig að þessu er farið. Hv. þm. bendir á að ef tvö jafnmikilúðleg og mikilfengleg vatnakerfi eru tekin frá, beinlínis til friðlýsingar eins og þau tvö sem hérna eru undir samkvæmt tillögunni, þá kynni þrýstingur að aukast um að beisluð yrði orka annarra fallvatna sem engu síður eiga skilið að njóta verndar til framtíðar. Þarna vegast á tvenn ólík sjónarmið. En ég held eigi að síður að það sé nauðsynlegt að menn fari þessa leið sem hér er lögð til með því að sett verði sérstök verndarlög. Það hefur gefist vel. Ég bendi t.d. á þau lög sem eru um Laxá/Mývatn. Þau hafa gefist ágætlega. Og einmitt sú staðreynd að þau eru lög sem er ekki hægt að breyta nema fyrir atbeina Alþingis, þá hefur tekist að standa fast á hinu upphaflega verndarmarkmiði. Ef farin er hin leiðin sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson benti á, þ.e. að nota lögin sem núna gilda um Náttúruverndarráð til þess að koma friðlýsingu á, þá held ég að það sé auðveldara að þrýsta á um breytingar t.d. á þeim reglugerðum sem tengdust slíkri friðlýsingu. Ég varð oft fyrir þeirri reynslu sjálfur sem umhvrh. á sinni tíð að það var fast sótt í það að breyta friðunarákvæðum sem voru í friðlýsingarsamningum um einstök landsvæði.

Þessi svæði sem hér eru undir eru afskaplega merkileg og ég tek undir með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að þegar kemur að Jökulsá á Fjöllum, þá eiga menn að sjálfsögðu að horfa líka til Kreppu. Hún er partur af því vatnakerfi. Því miður er ekki hægt að horfa að því er verndun varðar til armsins sem tengist líka Hvítá/Ölfusárkerfinu, þ.e. Sogsins. Það er búið að spilla Soginu. Síðan 1937 hafa verið reistar þar þrjár virkjanir. Það er ekki hægt að álasa neinum fyrir það nú. Þeir sem stóðu fyrir þeim voru börn síns tíma. En þær hafa valdið gríðarlegum spjöllum og eins og ég hef vakið máls á áður í þessum sölum, hafa þær m.a. svipt Íslendinga svo að segja einum merkilegasta urriðastofni sem nokkru sinni hefur svamlað um norðurálfu. En það er önnur saga sem ekki verður rakin hér.

Ég hegg eftir því að í þessari ágætu greinargerð sem 1. flm. á allan heiður af er talað um að þessar ár renni um héruð, eins og t.d. Hvítá/Ölfusá, um blómlegar byggðir þar sem áður voru biskupar. Örlög þeirra voru mismunandi. En einn biskup sat þar, Gísli Oddsson, frá 1632 til 1638. Hann gerði Hvítá að ekki ómerkara fljóti fyrir það að hann segir í annálum sem hann skrifaði og lauk í aprílmánuði 1638, að þar hefði hann sjálfur orðið fyrir þeirri reynslu að ríða hesti sínum yfir hyl í Hvítá og þar hefði hestur hann skriplað á vatnaskrímsli. Það er því margt sem þessar ár geyma. Gísli benti líka á að í Hvítá væri að finna hinn merkilega lax sem kemur upp úr botnleysunum og heitir berglaxinn. En hann hefur ekki veiðst frá því að Gísli hvarf yfir móðuna miklu.

Enn aðrir biskupar töpuðu jafnvel sjálfu lífinu í kvíslum sem tengjast þessu vatnakerfi. Og af því að við höfum skáld í salnum, þá laumaði hann að mér þessari ágætu vísu um Jón Gerreksson:

  • Á bökkum Hvítár bændaslekt
  • og biskupar sátu í næði.
  • Þó var einum þeirra drekkt
  • á þessu vatnasvæði.
  • Ég vona, herra forseti, að það verði ekki til þess að menn skirrist við að samþykkja þessa tillögu.