Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 14:25:53 (5037)

1996-04-19 14:25:53# 120. lþ. 123.16 fundur 410. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum# frv., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[14:25]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það liggi alveg ljóst fyrir að það er engin hætta á því að Atlantshafsbandalagið muni nokkurn tíma beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði. Ég hef enga trú á því. Hins vegar er það ljóst að Atlantshafsbandalagið gegnir langveigamesta hlutverkinu í friðarviðleitni í heiminum í dag.

Af hverju eru öll ríki Austur-Evrópu, öll baltnesku löndin, að sækja um aðild að þessu bandalagi? Það er vegna þess að þessar þjóðir eru að leita eftir friði. Þær eru að leita eftir öryggi sem þær höfðu því miður ekki áður og vilja komast inn í þessi samtök. Nánast hver einasti stjórnmálaflokkur í Vestur-Evrópu styður þessi samtök nema Alþb. eins og kemur berlega hér fram. Það er svo undarlegt að Alþb. er eini stjórnmálaflokkurinn sem ekki vill vera með í Þingmannasamtökum Atlantshafsbandalagsins. Enginn flokkur í Austur-Evrópu er með slíka stefnu, hann er ekki til, fyrrv. bræðraflokkar þessara samtaka. (Gripið fram í: Og ekki rúmenski bændaflokkurinn heldur?) Það er því náttúrlega alveg ljóst að við Íslendingar hljótum að standa að því að Atlantshafsbandalagið verði áfram öflugt og sterkt vegna þess að það er besta tryggingin fyrir friði í okkar heimshluta.