Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 14:27:56 (5038)

1996-04-19 14:27:56# 120. lþ. 123.16 fundur 410. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[14:27]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. utanrrh. er í alvarlegri mótsögn við sjálfan sig í þessu máli og náttúrlega við stefnu Atlantshafsbandalagsins eins og hún birtist, því að hann segir að það sé engin hætta á því að NATO muni beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði. Hann kveður upp úr um það, utanrrh. Íslands, að á því sé engin hætta. En hvers vegna vinnur ekki Atlantshafsbandalagið að því að það verði gengið frá alþjóðasamþykktum sem banni notkun kjarnorkuvopna í stað þess að áskilja sér rétt til beitingar þeirra að fyrra bragði? Það er ítrekað skilyrði af bandalagsins hálfu að halda í þetta ákvæði. Er það þá algerlega að ástæðulausu að það er gert? Auðvitað eru þeir að segja öðrum að þeir séu ekki reiðubúnir til þess að gera alþjóðasamning sem bindi enda á slíkt ógnarjafnvægi og kjarnorkuvopnin sem fælingartæki. Ja, hvílíkt öryggi er það sem menn eru að kjósa sér undir þessum skildi Atlantshafsbandalagsins.

Hæstv. utanrrh. ætti að minnast þess sem gerst hefur á vegum Atlantshafsbandalagsins og forusturíkis þess, Bandaríkjanna, í sambandi við meðferð kjarnorkuvopna. Hvað gerðist gagnvart Grænlendingum, nágrönnum okkar í þessum efnum þar sem gengið var á skítugum skónum yfir svardaga, opinbera svardaga forustumanna um að það væri ekki farið með kjarnorkuvopn yfir grænlenska grund? Síðan rennur upp 1968 og það ferst flugvél með þessum ógnarvopnum þar og menn eru enn ekki búnir að bíta úr nálinni með afleiðingar af því slysi, þar sem þverbrotnar voru yfirlýsingar og skuldbindingar gagnvart Atlantshafsbandalagsríkinu Danmörku. Og það er ekki búið að fara neitt nákvæmlega í saumana á því hvort haldnir hafa verið eiðdagar að því er varðar Ísland í þessum efnum.