Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 14:30:17 (5039)

1996-04-19 14:30:17# 120. lþ. 123.16 fundur 410. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum# frv., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[14:30]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það liggi alveg ljóst fyrir að tilvist Atlantshafsbandalagsins hefur orðið til þess að kjarnorkuvopnum í heiminum hefur stórlega fækkað. Og það eru engin ein samtök í heiminum, jafnvel þótt þau búi yfir kjarnavopnum, það er rétt, sem hafa unnið eins ötullega að því að fækka kjarnavopnum. Og ég tók það fram að ég væri þeirrar skoðunar að það bæri að útrýma þeim.

Það er mitt mat að það sé ekki hætta á því að Atlantshafsbandalagið beiti kjarnavopnum að fyrra bragði. Það er mín skoðun. Hv. þm. kann að hafa aðra skoðun á því en ég lýsi hér mínum skoðunum og mínum viðhorfum sem eru væntanlega mjög skýr í þessu sambandi og ég tel það vera mjög nauðsynlegt að tala skýrt um þessi mál. Við erum í Atlantshafsbandalaginu. Ég tel að það hafi verið gæfuspor að við gengum í það og við eigum að halda áfram að vinna af heilindum innan þeirra samtaka.