Málefni Landhelgisgæslunnar

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 15:22:12 (5051)

1996-04-19 15:22:12# 120. lþ. 123.91 fundur 257#B málefni Landhelgisgæslunnar# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:22]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur nú staðfest að Gæslan var þeirrar skoðunar að það væri hægt að taka skipið og það var hæstv. dómsmrh. sem tók þá ákvörðun að taka ekki skipið. Það er því hann sem er ábyrgur fyrir þeirri pólitísku linkind sem í þessu felst og mér er engin launung á því að ég tel að þetta hafi verið pólitískt dómgreindarleysi af ráðherranum. Ég spyr líka, herra forseti: Kann að vera að Íslendingar séu nú að súpa seyðið af þessum mistökum hæstv. ráðherra á Reykjaneshrygg þar sem rússneskir togarar ögra íslenskum skipum dag eftir dag? Ég spyr, herra forseti.

Hitt vil ég líka segja, herra forseti, að mér þykir það ódrengilegt af hæstv. dómsmrh. að reyna að snúa þessu upp í árás mína á hv. þm. Einar Odd Kristjánsson. Um það er ekki að ræða. Málið snýst um þetta: Er það svo að það sé eitthvert skömmtunarkerfi hjá gæðingum og vinum hæstv. dómsmrh. þegar kemur að því að þeir hafa brotið reglur eins og hér var í þessu dæmi? Það er líka ódrengilegt af hæstv. dómsmrh. að halda því fram að Alþfl. eða ég hafi teflt fram Höskuldi Skarphéðinssyni skipherra. Mér er ekki kunnugt um það að ég hafi nokkru sinni á ævinni hitt þann mann. En það hlýtur að vera alvarlegt mál og viðurhlutamikið þegar skipherra Landhelgisgæslunnar kemur fram, gömul hetja úr þorskastríðum, og ásakar hæstv. dómsmrh. fyrir að vera að brjóta móralinn niður hjá Gæslunni.

Hæstv. dómsmrh. kemur hingað og segir: Aldrei, aldrei hafa verið gefin út afturvirk leyfi. Herra forseti, það var hæstv. dómsmrh. sem um var sagt af skipherranum að hann hefði komið á náttfötunum og verið að gaufa við að gefa út leyfi niðri í ráðuneyti. Herra forseti. Hér hef ég úrklippu úr Dagblaðinu frá 15. sept. 1994 og þar segir, með leyfi forseta:

,,Snurvoðarbátur án veiðileyfis tekinn. Afturvirkt leyfi fékkst eftir að báturinn var tekinn. Skipherra Landhelgisgæslunnar undrast vinnubrögð Fiskistofu.``

Herra forseti. Mér sýnist af þessu að hæstv. ráðherra sé ekki bara á náttfötunum heldur sé hann með allt niður um sig í þessu máli. (Forseti hringir.) Ég sé það hins vegar á honum að hann skammast sín og það er honum til hróss. Menn eiga að iðrast eftir svona afglöp.