Málefni Landhelgisgæslunnar

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 15:35:46 (5058)

1996-04-19 15:35:46# 120. lþ. 123.91 fundur 257#B málefni Landhelgisgæslunnar# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:35]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegur forseti. Það er með ólíkindum hvernig sumir þingmenn hafa veist að Alþfl. í þessu máli fyrir að draga upp og vilja ræða það hvernig hæstv. ráðherrar brugðust við landhelgisbroti hins rússneska togara í byrjun þessa mánaðar. Það að telja það árásir, og ég veit ekki hvaða nöfnum því hefur verið gefið, er hreint með ólíkindum.

Hvað varðar fullyrðingu hv. þm. Gunnlaugs Sigmundssonar hér áðan þá segir Hafsteinn Hafsteinsson, forstjóri Gæslunnar í DV í gær, með leyfi forseta, að verið sé að kanna hvort afturvirk leyfi hafi verið gefin út oftar. Hafi verið gefin út oftar. Þannig að það er alveg klárt að það hefur einhvern tímann verið gert.

Ég vil aðeins svara fullyrðingum hæstv. sjútvrh. þess efnis að hv. 15. þm. Reykv. þurfi einhvern skjöld í þessu máli. Þetta mál er þess eðlis að hann þarf engan skjöld. En það er engum blöðum um það að fletta að brýnir þjóðarhagsmunir felast í því að Landhelgisgæslan sinni löggæslu af fullum þunga. Það er því með öllu óþolandi ef æðsti yfirmaður Gæslunnar dregur úr skilvirkni hennar vegna þess að hann áttar sig ekki á því að skyldur hans sem dómsmrh. eru ríkari heldur en hagsmunagæsla fyrir einstaka aðila í sjávarútvegi.

Í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram er ljóst að Alþingi verður að hugleiða hvort nauðsynlegt sé að koma á fót einhvers konar rannsóknarnefnd í því skyni að kanna hvort tilefni sem hér hefur verið gefið til þeirra ásakana eigi við rök að styðjast því ljóst er að það er enginn dómari í eigin sök og rannsóknir ráðuneytisins og stofnana sem undir það heyra verða aldrei hafnar yfir allan vafa. Því er nauðsynlegt að fram fari einhvers konar skoðun á því hvað raunverulega hefur átt sér stað og hvort fullyrðingar skipherra, einhverrar mestu sjóhetju Íslendinga til margra áratuga eigi við rök að styðjast.