Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 15:41:12 (5061)

1996-04-19 15:41:12# 120. lþ. 123.16 fundur 410. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum# frv., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:41]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur orðið um þetta mál þó að sumt sem þar var sagt hafi kannski ekki vakið mér neina sérstaka kátínu. Ég get að sjálfsögðu ekki annað en lýst þó nokkrum vonbrigðum út af orðum hæstv. utanrrh. sem voru um leið nokkur tíðindi og þau voru vonbrigði. Hæstv. ráðherra hóf að vísu mál sitt með því að taka í orði kveðnu undir það að hann vildi draga úr vígbúnaði og ógnarvopnum, fækka ógnarvopnum. Hann tók sömuleiðis undir það sem ég sagði í framsöguræðu minni um kjarnorkustöðina í Sellafield. En síðan komu en-in hjá hæstv. ráðherra og þau voru mörg og vógu þungt að hans mati.

Í fyrsta lagi lýsti hæstv. ráðherra því yfir að hann teldi leiðina til að fást við afvopnun almennt vera alþjóðlega samninga en ekki einhliða aðgerðir. Þessu sjónarmiði er ég algjörlega ósammála. Ég held að sagan hafi trekk í trekk einmitt sýnt að kjarkur einstakra leiðtoga eða ríkja hefur á umliðnum árum iðulega verið það sem hrint hefur af stað þróun í jákvæða átt í þessum efnum.

Í öðru lagi rakti hæstv. ráðherra ýmsan árangur sem orðið hefði í samningaviðræðum á undanförnum árum og nefndi þar að hluta til það sama og ég tiltók í framsöguræðu minni, t.d. NPT-samninginn og samning um allsherjarbann við tilraunum með kjarnorkuvopn. Einnig niðurskurð stórveldanna á sínum kjarnorkuvopnum, samningana frá 8. og 9. áratugnum um þau mál, efnavopnasamninginn og fleira sem til mætti taka og er þó að sjálfsögðu ekki þar um tæmandi upptalningu að ræða. Þar mætti til að mynda bæta við viðræðum sem reynt hefur verið að koma af stað um viðskipti, alþjóðaviðskipti eða milliríkjaviðskipti með vopn, takmörkun á notkun handsprengja of fleira mætti telja.

En þá var komið að þeim kaflanum í ræðu hæstv. ráðherra sem verður mér sennilega minnisstæðastur og fjallaði um kjarnorkuvígbúnaðarstefnu NATO og þá staðreynd sem hæstv. ráðherra taldi að menn yrðu að hafa í huga og heiðri að kjarnorkuvopn væru veigamikill hluti af vígbúnaði NATO og fælingarkenningin væri þar í fullu gildi. Ísland yrði sem aðili að NATO að sýna ábyrgð og samstöðu og ekki væri því um það að ræða að hægt væri að samþykkja þetta lagafrv. Hæstv. ráðherra hafði um það þau orð að við yrðum í kjölfar þess ekki gjaldgengir aðilar að sameinuðum vígbúnaðaráætlunum NATO og í kjölfarið væri eðlilegt næsta skref að Ísland segði sig úr NATO. Því væri hæstv. ráðherra andvígur og þar með væri hann andvígur þessu frv.

Herra forseti. Þetta þýðir ósköp einfaldlega að hæstv. ráðherra segir: NATO ræður. NATO hefur neitunarvald í því hvað Ísland getur gert og getur ekki gert á sínu landi. Það komu engar efasemdir fram í máli hæstv. ráðherra um það að á þetta mætti láta reyna. Það mætti til að mynda kanna hvort þetta væri endilega svo.

Sú spurning sem vaknar fyrst, herra foreti, er þessi: Hvers vegna mega Íslendingar ekki friðlýsa sitt land fyrir kjarnorkuvopnum ef hér eru í fyrsta lagi engin kjarnorkuvopn og það stendur í öðru lagi ekki til að þau verði hér? Fyrir liggur yfirlýst stefna Alþingis um að hér skuli ekki vera kjarnorkuvopn. Í orði kveðnu er jafnan sagt að Atlantshafsbandalagið virði þessa stefnu og hafi ekki áform uppi um né í huga að brjóta hana. Hvað er það þá sem hæstv. utanrrh. er að vísa til sem gerir það útilokað að kjarnorkufriðlýsing Íslands gangi gagnvart vígbúnaðarstefnu NATO og samrýmist aðild okkar að NATO sem er svo sjálfstætt mál og pólitískt hvort menn styðja það eða ekki? Ég held að hæstv. ráðherra hefði þurft að svara þessu betur.

Nú vill svo vel til að hér verða innan skamms umræður um utanríkismál þar sem kostur gefst á að leggja spurningar fyrir hæstv. ráðherra og þá er hægt að fara betur yfir þetta mál en aðstæður eru til nú þar sem hæstv. ráðherra hefur tjáð mér að hann sé upptekinn og horfinn til annarra skyldustarfa.

[15:45]

Það er einnig, herra forseti, óhjákvæmilegt að staldra hér aðeins við þau tímamót sem með þessu verða í afstöðu Framsfl. og hér var reyndar ágætlega farið yfir af hv. þm. Svavari Gestssyni. Það er afar sláandi og verður varla skýrara en það er í þessu máli, að fyrir fáeinum árum síðan voru meðflutningsmenn að nákvæmlega þessu sama frv. þáv. formaður Framsfl. og formaður þingflokksins. En nú bregður svo við að eftir margendurteknar umræður í þingflokki Framsfl. eru mér borin þau skilaboð að enginn, ekki einu sinni fyrrverandi meðflutningsmenn treysti sér til að skrifa upp á málið. Það var í sjálfu sér og er væntanlega ekki neitt leyndarmál að það var afstaða hæstv. utanrrh. og formanns flokksins sem hér kom fram, sem réði þar alveg úrslitum því að þannig var á síðasta kjörtímabili að ekki bara sumir hv. þm. Framsfl. flyttu málið, heldur kom fram að það naut víðtæks stuðnings þingflokksins eins og hann var saman settur á þeim tíma.

Niðurstaðan er sem sagt sú að hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl., Halldór Ásgrímsson, hefur í veigamiklum atriðum kúvent hvað varðar stefnu Framsfl. í friðar- og afvopnunarmálum og það eru auðvitað heilmikil tíðindi. Manni verður hugsað til þess hvort það sé nokkuð kveikt á sjónvarpinu uppi í Seðlabanka og ónefndir menn að fylgjast með útsendingum frá Alþingi og hvernig þeim líði þá.

Öðruvísi mér áður brá, væri líka hægt að segja um hæstv. félmrh. sem tók oft ötullega þátt í umræðum um utanríkismál á umliðnum árum og blandaði sér þá jafnan í hóp þeirra sem voru mjög gagnrýnir á vígbúnaðarstefnu herveldanna og hernaðarbandalaganna og var í þeim hópi sem vildi reyna að tryggja frið í heiminum öðruvísi en með því að hlaða hann fullan af vopnum. (Gripið fram í: Átti hann að skrifa upp á?) --- Hlaða hann fullan af vopnum. Hv. frammíkallandi. Nei, það var nú ekki ætlast til þess að ráðherrar yrðu í hópi meðflutningsmanna en auðvitað hefði það verið ánægjulegt þó ekki væri nema fá skilaboð um að hv. þm. hefði ekki skipt um skoðun og styddi áfram málið, þó hann gæti ekki af þessum ástæðum verið flutningsmaður.

Hæstv. ráðherra reyndi svo að afgreiða þetta mál með þeirri einföldu röksemdafærslu að menn yrðu að vera á móti málinu af því að það samrýmdist ekki veru okkar í NATO. Þetta er afar mikil einföldun í málflutningi svo ekki sé meira sagt. Ég tel að burt séð frá því hvort menn vilja eða vilja ekki vera í NATO, þá sé það aldeilis óútkljáð mál hvers vegna Íslendingar geti ekki friðlýst sitt eigið landsvæði og sína eigin lögsögu, hvað svo sem líði aftur aðild að NATO. Er það þá þannig þrátt fyrir allt, að í fyrsta lagi höfum við ekki sjálfræði í þeim efnum, höfum framselt það til NATO og verðum bara að lúta því ef þeir eru á móti því. Og er það þá í öðru lagi þannig að eitthvað það í vígbúnaðarstefnu NATO, skuldbindingum okkar gagnvart NATO, þýði að við getum ekki afdráttarlaust tekið af skarið um að hér verði ekki kjarnorkuvopn? Er það þá niðurstaðan? Ég spyr. Því þarf að svara. Eru þá samþykktir Alþingis um það út í loftið og marklausar? Til hvers er hæstv. utanrrh. að vísa þegar hann segir að þetta tvennt geti ekki farið saman, að íslenskt yfirráðasvæði sé kjarnorkufriðlýst og svo aftur að NATO haldi sinni óbreyttu stefnu sem sjálfsagt er ekkert á döfinni að breyta?

Það var líka rétt sem hér var bent á að þessi umræða er mjög upplýsandi fyrir ýmsa sem eru í umræðum dagsins í dag að tala með miklum fagurgala um hernaðarbandalagið NATO sem mestu friðarheyfingu heimsins. Og hæstv. utanrrh. gerist svo stórkostlega barnalegur að halda því fram að sá aðili sem mest hafi lagt af mörkum til afvopnunar í heiminum sé einmitt NATO, að það séu einmitt mestu herveldi sögunnar sem hafi verið langmikilvægust í því að afvopnast. Og úr því að NATO er svona gríðarlega mikilvægt á aðra hliðina, þá hefur væntanlega Varsjárbandalagið verið hin mikla friðarhreyfingin eða hvað? Hvers konar þvæla er þetta? Staðreyndin er auðvitað sú að sá árangur sem hefur orðið í þessum efnum hefur fyrst og fremst byggst á tvennu að mínu mati, þ.e. víðtækri andstöðu almennings og þá alveg sérstaklega þeim mikla þrýstingi sem hinar öflugu friðarhreyfingar níunda áratugarins í Evrópu sköpuðu. Við höfum líka fengið nýleg dæmi um hverju almenningsálitið getur áorkað í andstöðunni við kjarnorkutilraunar Frakka nú á síðustu missirum. Það er andstaða almennings sem hefur vit fyrir stjórnmálamönnum og setur á þá þrýsting sem aftur verður til þess að reynt er að halda eitthvað aftur af hernaðarhaukunum. Það eru hin örgustu öfugmæli auðvitað að þeir sem einmitt hafa á umliðnum árum í krafti vígbúnaðar- og fælingarkenninganna og í krafti þess að áskilja sér rétt til þess að varpa kjarnorkusprengjum á fólk, hafi verið afkastamestir við afvopnun. Ég held að argari öfugmæli verði varla flutt hér, herra forseti.

Hættan í málinu og það sem þeir sem eru að fjalla um afvopnunarmál og stöðuna núna hafa fyrst og fremst áhyggjur af, er eimitt að þrákelkni NATO og kjarnorkuveldanna, að Kína og Rússlandi meðtöldu, en ekki síst NATO og Frakka sem hafa verið langharðdrægastir í sinni kjarnorkuvígbúnaðarstefnu. Þessi þrákelkni að halda til streitu kjarnorkuvígbúnaðinum og áskilja sér réttinn til að nota hann, verði til þess að fjölmörg önnur ríki dragi lappirnar gagnvart því að fullgilda alþjóðlega sáttmála um takmörkun á kjarnorkuvígbúnaði og jafnvel noti þetta sem ástæðu til þess að réttlæta það að koma sér upp kjarnorkuvopnum.

Ísrael var nefnt og kannski ekki að ósekju og látið að því liggja að þar hefðu menn áhyggjur af því að menn væru með kjarnorkuvígbúnað. Staðreyndin er sú eins og ég þekki hana besta og hef séð um það nánast alveg óhrekjandi alþjóðleg gögn, að Ísraelsmenn munu eiga yfir 100 kjarnorkusprengjur. Það er mat helstu óháðra stofnana um vígbúnaðarmál í dag eins og SIPRI og fleiri að það sé ósköp einfaldlega orðin staðreynd sem þýði ekkert að horfa fram hjá að í Mið-Austurlöndum séu kjarnorkuvopn og a.m.k. þetta í höndum Ísraelsmanna. Þetta mega menn aðeins hugleiða eins og ástandið er í þeim heimshluta í augnablikinu. Pakistan og Indland, enginn veit fyrir víst hversu langt þau ríki eru komin í að koma sér upp kjarnorkuvopnum, en það er ljóst að þau eru á þröskuldinum. Menn þekkja deilurnar við Norður-Kóreu. Menn vita að bæði Íran og Írak hafa lagt á umliðnum árum heilmikið í það að koma sér upp kjarnorkuvígbúnaði og lönd eins og Brasilía og Indónesía eru tæknilega í stakk búin til þess að kjarnorkuvígbúast með stuttum fyrirvara ef þau eru það ekki að einhverju leyti nú þegar. Menn skulu því ekki láta eins og hér sé allt á beinni braut og það sé sjálfgefið að þróunin verði einhlítt jákvæð í þessum efnum.

Ég vona, herra forseti, að neikvæð viðbrögð hæstv. utanrrh. og ótrúleg hægri sveifla Framsfl. í utanríkismálum eins og hún birtist í orðum hans verði ekki til þess að þetta mál geti ekki eftir sem áður orðið hér til umræðu og skoðunar. Og það er alveg ljóst að ég sem fyrsti flutningsmaður þess mun ekki sætta mig við að það verði slegið af með þessum hætti. Fái það ekki frekari framgang á þessu þingi mun ég endurflytja það næsta haust og svo oft sem þurfa þykir þangað til það skilar viðhlítandi árangri.