Kosningar til Alþingis

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 15:55:34 (5062)

1996-04-19 15:55:34# 120. lþ. 123.17 fundur 420. mál: #A kosningar til Alþingis# (atkvæðagreiðsla erlendis) frv., Flm. GÁS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:55]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 80/1987, með síðari breytingum. Ásamt mér eru flutningsmenn aðrir hv. þm. Alþfl.

Um það þarf ekki að fara mörgum orðum að einn helgasti réttur einstaklinga í lýðræðisríki er kosningarrétturinn. Allir eru um það sammála að svo skuli búa um hnúta í kosningalögum að sem langflestir hafi til þess tök og möguleika að nýta sér þann helga rétt. Af þeim sökum er að finna ýmis ákvæði í kosningalögum sem eru til þess fallin að gefa fólki möguleika á því að nýta sér hann þótt veikindi steðji að eða tímabundin fjarvera frá venjubundnum kosningastað á kjördegi komi til. Það er á þessum grundvelli sem þetta litla frv. sem ég flyt er lagt fram, en þar er um það að ræða að rýmka nokkuð frá því sem nú er möguleika Íslendinga, kjósenda sem staddir eru eða búsettir eru til skemmri tíma í útlöndum.

Samkvæmt upplýsingum sem mér bárust og hv. þm. öðrum og fram komu í svari hæstv. dómsmrh. við fyrirspurn sem ég lagði fram og birtist í þingskjölum þann 13. mars sl., kemur fram að ekki færri en 6.224 hefðu sjálfkrafa kosningarrétt í síðustu venjubundnu alþingiskosningum og voru búsettir erlendis og aðrir 107 sem höfðu búið erlendis lengur en átta ár kærðu sig inn á kjörskrá og fengu þar með rétt til að taka þátt í þeim kosningum. Þetta segir með öðrum orðum, virðulegi forseti, án þess að fara of nákvæmlega ofan í saumana að þessi hópur Íslendinga erlendis sem hefur kosningarrétt hér í venjubundnum kosningum er nánast sá sami upp á tölu og kjósendur í öllu Vestfjarðakjördæmi þannig að hér er ekki um lítinn hóp að ræða sem ég er sérstaklega og einkum að fjalla um.

Það liggur hins vegar ekki fyrir, þótt ég hafi um það spurt og tölur virðast ekki liggja þar á lausu, um hversu mikla kosningaþátttöku er að ræða hjá þessum hópi Íslendinga erlendis. Það eru ýmsar ástæður sem koma í veg fyrir að þær upplýsingar liggi fyrir þótt það sé brýnt að hægt sé að glöggva sig á því. En ég held að flestir sem nærri hafa komið og til þekkja séu um það sammála að kosningaþátttaka þessara rúmlega 6.000 kjósenda sem búa erlendis til skemmri tíma vegna atvinnu sinnar eða náms er miklum mun minni en gengur og gerist meðal þeirra Íslendinga sem aðsetur hafa hér á landi þegar kjördagur rennur upp. Við eigum því að venjast í þessu lýðræðisríki að kosningaþátttaka sé á bilinu 80--90% og ég held að það sé ekki óvarlegt að fullyrða að kosningaþátttaka Íslendinga erlendis sé a.m.k. helmingi minni en þeirra sem hér búa.

Það er af þeim sökum sem ég spurði um það líka í áður tilvitnaðri fyrirspurn hvaða aðferðir utanrrn. þá einkanlega og aðrir aðilar sem að málinu koma, greip til til þess að gefa þessum kjósendum betri möguleika á því að nýta sér þennan rétt. Það er gert þannig að haldið er úti 45 kjörstöðum erlendis í íslenskum sendiráðum og hjá sendifulltrúum og ræðismönnum. En á hinn bóginn liggur það fyrir að Íslendingar, þessir 6.000 eða svo, dreifa sér á eigi færri en 74--75 ríki þannig að bara það eitt segir okkur, þótt séu þeir ekki fjölmennir í ýmsum þessara ríkja, að sumir þessara kjósenda eiga þess engan kost að nýta sér þennan rétt af þeim ástæðum einum saman.

Í þessari fyrirspurn sem ég hef hér staldrað við spurði ég líka að því sérstaklega hvort ráðuneytið hefði uppi einhver áform um það að auka og bæta aðgengi þessa kjósendahóps á kjördag eða í utankjörstaðaatkvæðagreiðslu. Það kemur hins vegar fram í svarinu að ekki er gert ráð fyrir því sérstaklega að fjölga kjörstöðum. Ég spurði hvort til greina kæmi af hálfu ráðuneytisins að fara þá leið sem er þekkt m.a. að hluta til í Noregi og Svíþjóð og raunar í Bandaríkjunum, að gefa kjósendum sem búsettir eru erlendis að kjósa utan kjörfundar þannig að þeir fá sendan kjörseðil í ábyrgðarpósti samkvæmt beiðni þar um og endursenda síðan seðilinn í lokuðu umslagi til viðkomandi kjörstjórnar eftir að hafa kosið heima hjá sér eða hjá opinberri stofnun, á bæjarskrifstofum, hjá sýslumanni eða lögreglustöð á viðkomandi stað og fengið þar staðfestingu eða vottun. Í svari ráðuneytisins og dómsmrh. við þessari fyrirspurn segir orðrétt, með leyfi forseta:

[16:00]

,,Ef auðvelda á íslenskum kjósendum sem dvelja erlendis að greiða atkvæði utan kjörfundar án þess að fjölga fulltrúum íslenska ríkisins erlendis kemur til álita sú leið sem lýst er í 7. spurningu. Kjósandi færi þá til lögbókanda þar sem hann er búsettur og fengi vottun á fylgigögn kjörseðils. Slíkt ákvæði kæmi sem ný málsgrein í 63. gr. kosningalaganna.``

Hér er hæstv. ráðuneyti að svara því til að það komi til álita að fara þá leið sem ég er raunar að leggja til í því frv. sem hér er til umræðu.

Ég þarf ekki að orðlengja þetta, virðulegur forseti, frv. sjálft og greinar þess skýra sig að öllu leyti sjálfar. Hér er einfaldlega um það að ræða að kjósandi sem búsettur er erlendis og vill greiða atkvæði utan kjörfundar skuli, ef beiðni þar að lútandi kemur fram, gefinn kostur á að fá sendan kjörseðil í ábyrgðarpósti, kjósandi endursendi síðan kjörseðilinn til kjörstjórnar í sínu kjördæmi ásamt fylgigögnum sem lögbókandi þar sem kjósandi er búsettur hefur vottað. Með þessum hætti er þessum stóra hópi kjósenda opnaðir nýir möguleikar til að fá að nota kosningarrétt sinn en jafnframt er fyrirbyggt að nokkur hætta verði á misnotkun.

Hættan er auðvitað sú að einhver annar geti notað kjörseðilinn en sá sem fær hann sendan. En hér er það tryggt í þessu frv. að það skuli vottað af lögbókanda eða til þess bærum aðila eftir viðkomandi landi svo tryggt sé að það er kjósandinn sjálfur sem nýtir sér þennan rétt en ekki einhver annar.

Ég hef ekki fleiri orð um þetta, virðulegi forseti. Ég gerði mér vonir um þegar ég lagði þetta frv. fram að við gætum núna strax í þeim kosningum sem fram undan eru, þ.e. forsetakosningum, nýtt þessa víðtæku, opnu heimild til kjósenda og Alþingi tækist á þeim örfáu vikum sem eftir eru af vorþingi að ljúka málinu og afgreiða það. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að nokkur leggist gegn þessum auknu réttindum, þessu virkara lýðræði. Ljóst er hins vegar að kjörfundur hefst átta vikum fyrir 29. júní nk. og framboðsfrestur rennur út til forsetakosninga fimm vikum fyrir kosningar, þ.e. milli 20. og 30. maí. Það er því útséð um að þessi réttarbót geti fram gengið fyrir þessar kosningar. En það koma kosningar eftir þær. Sveitarstjórnarkosningar 1998 og þingkosningar 1999 þannig að ég vænti... (Gripið fram í: Ef ekki fyrr.) Já, ef ekki fyrr. Ég þakka hv. þm. ábendinguna. Vonandi fyrr, ekki bara af því að þá fengjum við tækifæri til að bjóða kjósendum erlendis upp á aukin réttindi heldur líka af öðrum sökum.

Að lyktum legg ég til, virðulegi forseti, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og til umfjöllunar og meðhöndlunar í hv. allshn.