Ástandið í Mið-Austurlöndum

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 15:33:24 (5080)

1996-04-22 15:33:24# 120. lþ. 124.91 fundur 260#B ástandið í Mið-Austurlöndum# (umræður utan dagskrár), JBH
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[15:33]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Við erum vitni að ólýsanlegum harmleik en það sem okkur er kannski efst í huga er að það má aldrei gerast að ríki sem er ógnað af hryðjuverkasamtökum bregðist við með því að breytast sjálft í hryðjuverkaríki. Og það má aldrei gerast að hryðjuverkamönnum verði að þeim vilja sínum að ögra til svo hrikalegra gagnráðstafana að friðarferlið sjálft verði þar með sprengt í loft upp. Það er vitað að þrenns konar samtök að minnsta kosti, Hizbollah, Hamas og Jihad, hafa sjálf þann yfirlýsta tilgang að eyðileggja friðarferlið. Þau hafa lýst sig hryðjuverkasamtök og hafa þetta yfirlýsta markmið. Spurningin er sú hvort Ísraelsríki sé svo ógnað af völdum þeirra að nokkuð réttlæti þessar gagnráðstafanir. Um hálf milljón saklausra borgara í Líbanon er nú á flótta. Flóttamenn sem hafa leitað gæslu og verndar á vegum Sameinuðu þjóðanna eru fórnarlömb þessara átaka. Á annað þúsund loftárásir hafa verið gerðar án þess að spurt sé að hernaðarlegum skotmörkum og því er lýst yfir meira að segja af fyrrverandi yfirmönnum Ísraelshers að ekki sé um mannleg mistök að ræða.

Herra forseti. Ísraelsríki stendur nú ekki frammi fyrir útrýmingarhættu eins og stundum áður. Þeir sem leggja mat á hernaðarstöðuna viðurkenna að Ísraelsríki njóti hernaðarlegra yfirburða. Það sem er kannski dapurlegast við þetta allt saman er að þetta gerist í kjölfar pólitískra mistaka, sem voru þau að eftir morðið á Yitzhak Rabin forsætisráðherra fyrir hendi eigin landsmanns, skuli ekki hafa verið leitað endurnýjunar umboðs til þess að halda friðarferlinu áfram þá þegar. Vegna þess að það er opinskátt rætt að til þessara hrikalegu gagnráðstafana hafi verið gripið beinlínis af innanlandspólitískum ástæðum.

Herra forseti. Ég hvet ríkisstjórn Íslands og hæstv. utanrrh. í framhaldi af því sem þegar hefur verið gert, mótmælin vegna árásarinnar á þá sem leituðu verndar á vegum Sameinuðu þjóðanna, að skora Ísraelsstjórn að setjast þegar í stað að samningaborði og binda snarlega endi á þessar hernaðaraðgerðir.