Ástandið í Mið-Austurlöndum

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 15:43:22 (5084)

1996-04-22 15:43:22# 120. lþ. 124.91 fundur 260#B ástandið í Mið-Austurlöndum# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[15:43]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans svo og undirtektir annarra þingmanna við þessum hryllilegu atburðum.

Það hefur komið skýrt fram í umræðunni að það eru hundruð þúsunda manna á flótta og það verður ekki horft á það af okkar hálfu nema að reyna að grípa til þeirra aðferða sem við höfum á alþjóðavettvangi og eins og hér hefur verið lýst. Ég tek undir að það verði að berjast gegn þeim ríkjum sem styðja hryðjuverk. Það verður að uppræta hryðjuverk með þeim hætti að gera þau þannig ómöguleg og ég vil benda á það að almenningsálitið í heiminum skiptir vitaskuld verulegu máli í þeirri baráttu.

Það er sömuleiðis íhugunarefni fyrir okkur að við höfum varið 90 millj. eins og fram kom til aðstoðar Palestínumönnum. Við höfum gert átak núna gagnvart Bosníumönnum. Samt sem áður erum við Íslendingar með mun lægri framlög til stríðshrjáðra svæða og þróunaraðstoðar heldur en flest önnur ríki. Þessir atburðir eiga að vera okkur tilefni til að endurmeta þessa stöðu og vitaskuld verðum við líka að reyna að efla þrýsting á Ísrael að slík atburðarás endurtaki sig ekki.

Mér finnst eðlilegt að í kjölfar þessarar umræðu, af því að þingmenn hafa talað hér nokkuð einum rómi, að til að mynda hv. utanrmn. skoði þetta mál betur því það er alveg ljóst að þingheimi öllum er nóg boðið með þessa atburðarás og hefur miklar áhyggjur af því að þessu friðarferli sé stefnt í hættu. Við eigum að gera okkur gildandi á alþjóðavettvangi og við höfum tækifæri til þess. Við höfum sýnt það áður að rödd okkar hefur heyrst í utanríkismálum og má þar minna á frumkvæði okkar í sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna. Þá vorum við ekki smá og þá höfðum við eitthvað að segja. Við getum vitaskuld sýnt frumkvæði á öðrum vígstöðvum og ég tel að þessi atburðarás sem er að gerast núna í Mið-Austurlöndum krefjist þess að við, þessi þjóð sem þekkir ekki stríð nema af afspurn, leggi allt sem hún getur af mörkum til að friður náist.