Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 16:53:23 (5092)

1996-04-22 16:53:23# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[16:53]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil einungis vekja athygli á því sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði áðan. Hann skrifaði undir meirihlutaálit með fyrirvara og gerði grein fyrir þeim fyrirvara sem var tvíþætt, annars vegar varðandi tryggingarsjóð og hins vegar varðandi ákvæði til bráðabirgða II. Tryggingarsjóðsákvæðið í minni hlutanum, við stöndum að þeirri útfærslu eins og þar er, ég ætla ekki að fara út í þá umræðu. Hins vegar er alveg hægt að rökstyðja aðra útfærslu en ég dreg alveg sérstaklega fram að hv. þm. Pétur Blöndal er sammála okkur minnihlutamönnum, mér og hv. þingmönnum Jóni Baldvini Hannibalssyni og Steingrími J. Sigfússyni að leggjast gegn ákvæði til bráðabirgða II, þ.e. þessu víkjandi láni. Þess vegna geta þeir verið með okkur á minni hlutanum, það skiptir ekki öllu máli en hann gerði alveg skilmerkilega grein fyrir fyrirvara. Hann er sömu skoðunar og við varðandi þetta mál en kemst kannski öðruvísi að þessari niðurstöðu. Það breytir ekki öllu en ég dreg þetta sérstaklega fram því að hvað sem má segja um pólitískar skoðanir hv. þm. sem hann hefur lýst oft og tíðum verður ekkert af honum tekið að hann kann ágætlega að meta þá þætti sem snúa að fjármálamarkaðnum og kann vel að leggja þar rétt mat á hlutina. En mér finnst í bráðabirgðaákvæði II um víkjandi lán Landsbankans, sem fer algerlega saman við sjónarmið okkar minnihlutamanna, hafi hann tekið pólitískt hugrakka ákvörðun í því að ganga þarna gegn sínum eigin flokki að nokkru leyti og ég fagna því að þetta skuli koma fram með þessum hætti.