Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 17:08:48 (5096)

1996-04-22 17:08:48# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, JBH
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[17:08]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þangað til ég hlýddi á seinasta hv. ræðumann stóð ég í þeirri trú að hér væri til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. En eftir að hafa heyrt hina gagnmerku ræðu hv. þm. er ég farinn að halda að hér eigi að standa frumvarp til laga um málræktarsjóð fyrir þá bankastjóra Landsbankans sem fara offari og kunna ekki að gæta tungu sinnar. Hér er verið að vísa til bankastjóra í ríkisfyrirtæki sem á tiltölulega skömmum tíma hefur afrekað það að kalla hæstv. viðskrh. vaxtaflón, hæstv. fjmrh. fúaspýtu og maður getur yfirleitt ekki tekið sér í munn heiti hæstv. sjútvrh. og dómsmrh. því það er ekki eftir hafandi úr þessum ræðustóli, þær nafngiftir sem þeim manni eru valdar.

Þrátt fyrir það að hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson, formaður nefndar um hlutafjárvæðingu ríkisbanka, hafi efasemdir um að jafnvægi hugans ríki í bankastjórn Landsbankans og að bankastjórninni sé þar af leiðandi nánast ekki treystandi fyrir svo viðamiklum rekstri er það einfaldlega svo að inn í þetta tæknilega frv., sem hefur þann tilgang einan að gera tæknilegar breytingar á gildandi löggjöf í framhaldi af nýjum tilskipunum Evrópusambandsins sem gilda einnig á Evrópska efnahagssvæðinu, þá hefur verið lætt inn smyglgóssi sem er þessi málræktarsjóður sem ég vitnaði til og hv. þm. gerði að umtalsefni.

Ég stend ekki upp til þess að bæta miklu efnislega við athugasemdir sem fram hafa komið í máli frsm. minni hlutans, hv. þm. Ágústs Einarssonar, heldur vil ég nota þetta tækifæri til þess að leggja á það áherslu að það er með öllu óviðeigandi að læða þessu smyglgóssi inn í frv. Það á ekkert erindi þar. Reyndar má vel vera að það leiði til ákveðinna efasemda og tortryggni á fjármálamarkaði en þess vegna er nauðsynlegt að það komi alveg skýrt og skilmerkilega fram að samkvæmt þeim upplýsingum sem nefndarmenn fengu er Landsbanka Íslands engin nauðsyn á sérstökum nýjum björgunarleiðangri vegna þess að það liggur fyrir að eiginfjárstaða bankans um síðustu áramót er í lagi, hún er yfir alþjóðlegum mörkum þar sem lágmarkskröfur eru gerðar og þess vegna engin þörf á því að vekja upp slíka tortryggni eða efasemdir.

Þetta er þýðingarmikið mál og ég nefni það sérstaklega af þeirri einföldu ástæðu að ég átti á sínum tíma hlut að því sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands að bregðast við neyðarkalli og áheiti um björgunarleiðangur fyrir Landsbankann á árinu 1993. Sá björgunarleiðangur var gerður út og tillögur afgreiddar á Alþingi Íslendinga vorið 1993. Það er ástæða til að víkja að þessu vegna þess að því var yfirlýst þá af þeim sem veittu aðstoðina og sérstaklega voru ákveðnar yfirlýsingar af þeim sem þágu umbeðna aðstoð að þetta skyldi ekki skapa fordæmi, að þetta væri einstök aðgerð til komin vegna breyttra krafna um eiginfjárstöðu bankakerfisins og sannanlega skyldi þannig haldið á málum að á þetta reyndi aldrei aftur. Mér er það mjög minnisstætt að digrar yfirlýsingar voru gefnar af því tilefni. Þessar aðgerðir voru þríþættar sem hér hefur verið rakið og þessi fyrirgreiðsla var veitt, bæði af hálfu Seðlabanka, Tryggingarsjóðs viðskiptabankanna og ríkissjóði og talið er að þessar aðgerðir hafi styrkt eiginfjárstöðu bankans samanlagt um 4,5 milljarða. En jafnframt var því lýst yfir að þetta væri gert með skilyrðum og skilyrðin voru þau að bankastjórnin gripi til aðgerða til þess að sýna í verki að engin minnsta hætta væri á því að þetta þyrfti að endurtaka. Það átti að gera með hagræðingaraðgerðum, með því að stokka upp eignaraðild í óskyldum rekstri, með því að fækka útibúum og selja eignir. Nú spyr ég þegar þessi tími er um liðinn og þetta kemur aftur fyrir hæstv. viðskrh.: Er ekki eðlilegt að hæstv. viðskrh. geri Alþingi Íslendinga nú grein fyrir því hvernig staðið hefur verið við þessi skilyrði? Var staðið við þau? Ef ekki, hefur það aðeins verið gert að hluta til? Hvaða árangur hafa þessar ráðstafanir borið?

[17:15]

Við stóðum í þeirri trú að ef til þessara aðgerða yrði gripið ætti ekki að vera nein hætta á því að þennan björgunarleiðangur þyrfti að gera út á ný. Þetta eru auðvitað mjög alvarleg mál vegna þess að við gerum okkur grein fyrir því að hér er um að ræða sjálfan þjóðbankann, aðalbanka landsmanna, í ríkiseigu. Hann þarf mjög á því að halda að njóta trausts viðskiptavina og almennings og það er þess vegna ekkert gamanmál fyrir þá sem bera ábyrgð á rekstri þessa banka ef umræða kemur upp á fárra ára fresti um nauðsyn sérstakra björgunarleiðangra af hálfu opinberra aðila. Ég vil þess vegna undirstrika að það er engin nauðsyn á því. Við höfum óyggjandi upplýsingar um það að svo sé ekki. Þess vegna er þetta með öllu óeðlilegt. Bæði af formsástæðum á þetta ekki heima í þessu frv. um alls óskyld mál, af viðskiptalegum ástæðum er þetta ónauðsynlegt og af pólitískum ástæðum er þetta varasamt. Hvers vegna þá að vera að þessu? Einu rökin, sem fram eru borin sem hald ætti þá að vera í eru þau að þetta kunni að vera nauðsynlegt síðar meir í ljósi áforma ríkisstjórnarinnar um að breyta rekstrarformi bankans í hlutafélag og þá með þeim rökum að einhver hluti af eignum bankans kunni að vera endurmetinn niður á við og það kynni þannig að hafa áhrif á eiginfjárstöðu bankans. Þá er spurningin þessi: Hvers vegna að læða þessum aðgerðum inn í frv.? Hvers vegna að gera það núna? Rekur nokkur nauður til þess? Staðreyndin er sú að þessi áform hæstv. ríkisstjórnar eru í meira lagi óljós. Því var lýst yfir að slíkt frv. yrði jafnvel lagt fyrir á þessu þingi. Nú hefur því verið lýst yfir af hálfu formanns nefndarinnar, sem vinnur að undirbúningnum, að svo verði ekki. Það komi þá í fyrsta lagi til kasta næsta þings og þess vegna er engin tímaþröng til þess að grípa til slíkra hluta fyrir fram og reyndar varasamt.

Þar fyrir utan má segja að hér sé um að ræða ákveðið grundvallaratriði. Það er ekki tilviljun að meiri hluti Alþingis komst að þeirri niðurstöðu sem lýsir sér í því ákvæði sem upphaflega átti að nema á brott, með leyfi forseta, ákvæði sem hljóðar svo:

,,Ríkisviðskiptabanka er óheimilt án samþykkis Alþingis að taka víkjandi lán í því skyni að efla eiginfjárstöðu sína umfram það sem Tryggingarsjóður viðskiptabanka getur veitt, sbr. 75. gr. laga þessara.``

Í máli frsm. minni hlutans kom fram að þetta væri eðlilegt varúðarákvæði og það hefði verið ríkjandi skoðun innan nefndarinnar að þetta ætti ekki að nema á brott. Þetta væri eðlilegt skilyrði við slíkar kringumstæður. Það er svo stutt sérstökum tæknilegum rökum varðandi eðli víkjandi láns og áhrif þess sérstaklega að því er varðar margfeldisáhrif sem geta þýtt getu til þess að auka mjög við skuldastöðu. Í ljósi þess að hér er um að ræða ríkisbanka með fullri ríkisábyrgð er það grundvallaratriði, spurningin sem Alþingi verður að velta fyrir sér, hvort Alþingi vilji afsala sér þessu umsjónar- og aðhaldsvaldi sínu. Sannleikurinn er sá að með því að afnema þetta ákvæði er verið að veita bankastjórum ríkisbanka meira vald en æðsti yfirmaður ríkisfjármála, hæstv. fjmrh., hefur og út frá þingræðissjónarmiði og öðrum sjónarmiðum varðandi aðhald í opinberum rekstri er það ekki verjandi.

Þess vegna legg ég á það áherslu að það er rétt afstaða að mínu mati, og styðst við veigamikil rök, sú afstaða minni hlutans að vilja ekki verða við einhverjum tilmælum af þessu tagi, að vilja ekki afsala Alþingi þessu valdi og þar með undirstrika að Alþingi sé ekki afgreiðslustofnun sem bregst við pöntunum af þessu tagi, sér í lagi þar sem þau byggja ekki á neinni brýnni nauðsyn vegna þess að Landsbankinn er vissulega í lagi að því er varðar eiginfjárstöðu og þarf ekki á þessu að halda á þessari stundu. Hitt er svo annað mál að það er í alla staði eðlilegt að ætlast til þess að hæstv. viðskrh., úr því að þetta er gert í formi frv. á Alþingi, noti tækifærið nú og geri Alþingi grein fyrir tveimur meginmálum, annars vegar þeim árangri sem náðst hefur síðan árið 1993 til þess að bæta rekstur, hagkvæmni og eiginfjárstöðu Landsbankans, með hvaða hætti bankastjórnin hefur brugðist við og beitt aðgerðum til þess að fullnægjandi skilyrðum sem sett voru fyrir aðstoðinni og í annan stað er auðvitað sjálfsagt að hæstv. viðskrh. geri Alþingi grein fyrir því hver eru raunverulega áform hans og hæstv. ríkisstjórnar um breytingar á rekstrarformi bankanna. Það þarf að færa þá umræðu af hinu almenna áformastigi um það að þetta sé í skoðun og athugun og komi seinna. Sérstök ástæða er til þess að óska eftir því hvort það liggur alveg fyrir, herra forseti, hvar undirbúningsstarfið er statt, hvort hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson, sem talaði áðan og er formaður viðkomandi nefndar, hafi skilað svokallaðri áfangaskýrslu af sér og hvort hæstv. ráðherra telji að undirbúningi sé vel á veg komið og hver áform hans séu þá uppi um að fylgja því eftir. Er ekki alveg ljóst, og það varðar afgreiðslu þessa máls, að slíkt frv. verður ekki lagt fram á þessu þingi? Og ef svo er þá hefur það auðvitað áhrif á afgreiðslu þessa máls.