Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 17:22:53 (5097)

1996-04-22 17:22:53# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[17:22]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég stend að nál. minni hluta efh.- og viðskn. og ber þar af leiðandi ábyrgð á þeirri afstöðu á þeim rökstuðningi sem þar kemur fram og get um flest það sem þar á við vísað til framsöguræðu hv. þm. Ágústs Einarssonar. Eins og þar kom ágætlega fram er efni þessa máls í raun tvíþætt. Það er annars vegar það frv. sem lagt var fram af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og efh.- og viðskn. hóf að skoða og ræða og lýtur fyrst og fremst að því að aðlaga íslenska bankalöggjöf enn á ný að samningsákvæðum Evrópusambandsins eða evrópska réttarins og því sem tilheyrir aðild okkar að því í gegnum samninginn um Evrópskt efnahagssvæði og breytingum sem hafa orðið í þeim efnum frá því að lög um viðskiptabanka og sparisjóði voru hér síðast afgreidd, einkum og sér í lagi POST-BCCI-tilskipun. Um það var í sjálfu sér ágæt samstaða í efh.- og viðskn. að þessa hluti hlytum við þurfa að skoða og taka upp í löggjöf okkar eins og samningsskuldbindingum okkar er háttað. Nokkur fleiri atriði svo sem eins og þau sem vörðuðu fyrirkomulag tryggingamála á innlánum voru til skoðunar í nefndinni og ekki leit út fyrir annað en orðið gæti þokkalegasta samkomulag um afgreiðslu málsins.

Þá gerðust þau tíðindi að viðbótarfarangur bættist í ferðalagið, það sem hv. síðasti ræðumaður hefði e.t.v. einhvern tímann haft tilhneigingu til að kalla smyglgóss. Í ljós kom að ætlunin var að breyta gildandi ákvæðum um meðferð víkjandi lána ef til þess kemur að slík eru tekin eða veitt til þess að styrkja eiginfjárstöðu bankanna. Þar er auðvitað á ferðinni gamall kunningi sem var mjög til umræðu á síðasta kjörtímabili, var stórmál. Eins og kunnugt er var gengið þannig frá þeim hlutum eftir miklar umræður á þingi og ítarlega skoðun þegar til afgreiðslu voru ráðstafanir til að styrkja eiginfjárstöðu Landsbankans að slíkar ráðstafanir skyldu jafnan bornar undir Alþingi og leitað sérstakrar heimildar fyrir því enda hlýtur það að verða teljast eðlilegt þar sem ljóst er að í reynd er um framlag eða jafngildi framlags úr ríkissjóði að ræða þar sem er veiting víkjandi láns með ríkisábyrgð til bankanna sem telst til eiginfjár þeirra eins og kunnugt er. Þess vegna var eðlilegt að menn yrðu nokkuð langleitir þegar í ljós kom að ætlunin var að lauma inn í ákvæði til bráðabirgða breytingu sem felldi niður þá reglu að jafnan yrði leitað eftir samþykkis Alþingis þegar um slíkt væri að ræða.

Á sínum tíma urðu nokkuð snarpar deilur um það hvort yfir höfuð væri réttlætanlegt að hafa til að mynda það tilhlaup í mögulegum víkjandi lánveitingum upp á að hlaupa sem þó var gert á sínum tíma og var hugsað þannig að til þess mætti grípa ef aðstoða þyrfti fleiri innlánsstofnanir í erfiðleikum þeirra og var þá manna á meðal oft og iðulega rætt fyrst og fremst um það ef til þess kæmi að hlaupa yrði undir bagga með Íslandsbanka. Það varð eftir sem áður niðurstaðan að því tilskildu að sú ábyrgð var takmörkuð og ef til frekari aðgerða þyrfti að koma yrði að leita samþykkis Alþingis. Hvers vegna var þetta nú gert með þessum hætti? Jú, það var m.a. vegna þess að á þeim tíma var hin svonefnda bankakreppa mjög til umræðu og hafði verið úrlausnarefni á annars staðar á Norðurlöndum árin á undan þessum umræðum hér á Alþingi um fyrirgreiðsluna til Landsbankans.

Herra forseti. Það er fullkomlega ástæða til að staldra aðeins við það sem síðan hefur gerst frá vordögum 1993 þegar heimildirnar voru afgreiddar til Landsbankans. Þá sáu menn í sjálfu sér ekki hvert framhaldið kynni að verða. Þá var bankakreppan í algleymingi annars staðar á Norðurlöndum og eðlilegt að menn væru kvíðnir gagnvart því sem kynni að gerast hjá okkur.

Nú segja menn gjarnan að Ísland hafi sloppið ótrúlega vel út úr bankakreppunni, a.m.k. borið saman við þau Norðurlandanna sem versta útreið fengu, Svíþjóð og Finnland. Það má til sanns vegar færa, sérstaklega þegar innlánsstofnanir einar og sér eru teknar, þá er staða Íslands í þessum efnum að því er virðist, fljótu bragði til muna hagstæðari eða til muna skárri en var annars staðar á Norðurlöndum og vantaði þó ekki að bankarnir þar væru einkavæddir og ,,há-effaðir``.

Ef við tökum fjárfestingarlánasjóðina með, sem er eðlilegt, þá kemur í ljós að staðan er nú kannski ekki svo miklu betri --- og þó. Ísland stendur eftir sem áður að meðtöldum útlánatöpum fjárfestingarlánasjóða betur en bæði Finnland og Svíþjóð á sambærilegu árabili, ef við tökum til að mynda árin 1989--1994 sem ég hef handbærar tölur um. Þetta er auðvitað áhugavert í samhengi við umræðuna um einkavæðingu bankakerfisins og af því að menn skammast mikið yfir því hvað íslenska bankakerfið sé óhagkvæmt. Formaður einkavæðinganefndarinnar var hér í ham áðan að kvarta undan því að bankarnir hefðu ekki tekið til hjá sér, svo ekki sé nú minnst á þennan voðalega mann í Landsbankanum sem hefur svona dónaleg orð um hæstv. ráðherra, sem er auðvitað mikil kórvilla, að tala ekki af fullnægjandi virðingu um hæstv. ráðherra og þekkingu þeirra á vaxtamálum og því um líkt. En það er samt sem áður staðreyndin á borði að íslenska bankakerfið er þó ekki verra en þetta að ef við horfum á töpin sem slík að við getum út af fyrir sig sagt að við höfum sloppið vel í gegnum bankakreppuna borið saman við hin Norðurlöndin og reyndar fleiri nálæg ríki því flest lönd í kringum okkur hafa með einum eða öðrum hætti orðið að glíma við bankakreppu.

[17:30]

Við getum farið til Bandaríkjanna og Japans. Þar hafa menn fengið sínar bankakreppur, að vísu af nokkuð mismunandi ástæðum, en almennur hægagangur í efnahagslífinu og endurmat á ýmsum verðmætum eins og húsnæði og útlánum til atvinnulífs leiddu víða um lönd til þess að bankar og útlánastofnanir lentu í miklum erfiðleikum. Það er líka nokkuð broslegt að sá bankanna hér, sem hefur orðið að afskrifa hlutfallslega mest, og til marks um það liggur hér fyrir svar á þskj. vegna fyrirspurnar hv. þm. Ögmundar Jónassonar, er einkabankinn. Það er þessi með ,,háeffið``. Þannig er það nú. Þótt þar sé auðvitað um að ræða að nokkru leyti og sjálfsagt að miklu leyti afleiðingar útlána frá því fyrir tilurð Íslandsbanka sem slíks, þá er þar á hinn bóginn væntanlega arfleifð hans frá þeim einkabönkum sem hann er sprottinn upp af. Ríkulegur var nú heimanmundurinn með Útvegsbankanum sáluga og ekki þarf Íslandsbanki að kvarta undan því sem í þeim reikningum fólst. Þetta er allt nokkuð áhugavert, herra forseti, og óhjákvæmilegt að nefna það aðeins af því að samkvæmt upplýsingum sem fengust í efh.- og viðskn. er þetta mál nátengt áformum hæstv. ríkisstjórnar um að einkavæða bankana. Aðrar röksemdir liggja í raun ekki fyrir. Það liggur fyrir að Landsbankinn er í engri slíkri bráðri þörf fyrir að eiginfjárstaða hans verði styrkt sem réttlætir að rjúka til með þessum hætti og smygla ákvæði af þessu tagi með að öðru leyti alls óskyldum efnisatriðum inn í frv. Hvað er það þá? Jú, það var beinlínis upplýst að þetta gæti reynst nauðsynlegt í tengslum við áformaða breytingu á bönkunum. Þá er eðlilegt að staldrað sé við þá stöðu og stöðu okkar í bankamálum almennt.

Það er líka annað, herra forseti, sem ég held að sé að mörgu leyti fróðlegt að ræða í þessu samhengi og hefur ekki verið gert á Íslandi svo neinu marki nemur og það er mismunandi aðferðir sem þjóðirnar hafa farið til að olnboga sig í gegnum þá erfiðleika sem bankakerfin hafa lent í. Þar sker Ísland sig einnig alveg úr. Hér var ekki farin sú leið sem var farin í mjög verulegum mæli á hinum Norðurlöndunum, a.m.k. þremur þeirra, þ.e. Finnlandi, Svíþjóð og Noregi, að ríkið greip beint inn í bankakreppuna og dældi peningum inn í bankana eða tók af þeim óhagstæð útlán. Af hverju var þetta gert? Jú, þetta var gert vegna þess að á hinum Norðurlöndunum vildu menn ekki leysa bankakreppuna þannig að velta þeim byrðum öllum yfir á skuldsetta atvinnuvegi og heimili. Það vildu menn einmitt ekki. Þess vegna gripu menn til þess ráðs að reiða fram herkostnaðinn úr sameiginlegum sjóðum. Það er fróðlegt að fara yfir tölur í þessu sambandi, til að mynda um það hvaða stærðargráður það voru í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð sem dælt var inn í bankakerfið þar. Ég hef þær tölur miðað við árslok 1993. Þá var svo komið að finnska ríkið hafði beint eða óbeint lagt til samtals 39 milljarða finnskra marka í formi ábyrgðar víkjandi lána og eiginfjárframlaga til finnska bankakerfisins en það er um 8% af þjóðarframleiðslu Finna. Það munar um minna. Í Svíþjóð var þetta þannig að á sama tíma í lok árs 1993 hafði sænska ríkið, þar sem svipuð leið var farin beint eða óbeint, lagt til samtals um 65 milljarða sænskra króna til þeirra banka sem þar höfðu lent í mestum erfiðleikum. Þar á meðal voru hinn frægi Sparbanki, Gautabankinn og fleiri slíkir. Það er um 4,5% af landsframleiðslu Svíþjóðar. Í Noregi var þetta líklega um 3,4% af landsframleiðslu. Þetta hafði afgerandi áhrif á stöðu bankakerfisins í viðkomandi löndum til þess að velta ekki vandanum út í vextina eða vaxtamuninn. Enda tókst þeim a.m.k. í sumum landanna að sigla þokkalega í gegnum þetta.

Hér á Íslandi var valin önnur leið. Að slepptri aðstoðinni við Landsbankann og þeirri fyrirgreiðslu frá vorinu 1993 upp á 4,5 milljarða hefur bæði bankakerfið íslenska og sjóðakerfið velt kreppunni beint yfir á viðskiptavini sína í formi gífurlega hárra vaxta og mikils vaxtamunar. Hvað er þá að gerast? Jú, bankakreppan er fjármögnuð á Íslandi með allt allt öðrum hætti en á hinum Norðurlöndunum. Hún er fjármögnuð með óheyrilegum vaxtabyrðum þeirra sem skulda fé í dag vegna hinna sem tóku lán einhvern tímann fyrr á tíð og gátu ekki staðið í skilum með þau. Til gamans má geta þess, ef við förum í þennan talnalega samanburð, að það lætur nærri að landsframleiðslan á Íslandi sé um 450 milljarðar. Óframreiknað að vísu, erum við að tala um 1% af landsframleiðslu á Íslandi í samanburði við 8% í Finnlandi, 4,5% í Svíþjóð og 3,4% í Noregi. Í grófum dráttum eru þessar tölur svona. Þegar kreppan er hins vegar skoðuð er útkoma Íslands að vísu heldur skárri í prósentum en útkoma Finnlands og Svíþjóðar en ívið lakari en Noregs og þá sérstaklega Danmerkur. Þannig að við höfum svo sannarlega fengið okkar kúf af þessu enda liggur fyrir að milljarðatugir hafa verið afskrifaðir og/eða lagðir á afskriftareikninga á undanförnum árum. Ég vitna aftur til svars við fyrirspurn á þskj. 815 og ef ég man rétt er búið að svara á þessu þingi tveimur fyrirspurnum um útlánatöp og annað því um líkt.

Við þetta, herra forseti, er ástæða til að staldra. Ég held að ef menn ætla að fara að taka þetta góss með þá kalli það á miklu ítarlegri umræður um stöðu þessara bankamála en upphaflega frv. gaf tilefni til. Það er alveg ljóst að það var engin andstaða við að renna því hér í gegn og gera þessar lagfæringar á reglunum til þess að uppfylla þessar seinni tíma samþykktir um málefni banka og sjóða.

Þetta, herra forseti, tel ég að þurfi líka að skoða í samhengi við einkavæðingaráformin og hvað við Íslendingar getum af þessu lært. Er ekki allt þetta tal og mér liggur við að segja kjaftæði, með leyfi forseta, um að það skipti öllu máli hvort það standi hf. aftan við einhverja bankastofnun eða ekki þegar til kastanna kemur meira og minna rugl? Er ekki niðurstaðan sú að ríkisstjórnir hinna Norðurlandanna hafi reynst nauðbeygðar til að grípa til algjörlega sambærilegra ráðstafana gagnvart vanda einkabankanna eins og við þurftum að gera hér? Alveg nákvæmlega eins. Niðurstaðan er sú að menn láta ekki stóra banka með mikið fé frá almenningi fara á hausinn. Menn bara gera það ekki vegna þess að félagslegar og efnahagslegar afleiðingar þess eru svo djúpstæðar og sársaukafullar að það leggur engin þjóð í það. Þess vegna er það þannig að það er alveg sama hvort við skoðum bankakreppuna á Norðurlöndunum, í Bandaríkjunum, í Japan, alls staðar grípa menn til ráða til að afstýra slíku hruni. Þannig er ábyrgð ríkisins til staðar á bak við bankastarfsemina í löndunum, hvort sem þeir eru hf. eða ríkisbankar. Þá er bara ein röksemd eftir og hún er sú hvort það breyti öllu um rekstur bankakerfisins að það sé sett hf. aftan við, að það sé sé töfralausnin. Verður það t.d. þannig að daginn sem hf. kemur aftan við Landsbankann gjörbreytist bankastjórarnir þar eins og það hafi gjörsamlega verið skipt um forrit í þeim? Fara þeir þá að hugsa eins og einkarekstrarmenn og með allt öðrum og ábyrgari hætti? Er það hugsunin? Hvað segir til að mynda mismunandi útkoma Búnaðarbankans og Landsbankans okkur? Hvernig stendur á því að þeim bönkum hefur reitt nokkuð mismunandi af í þessum efnum og eru þó báðir ríkisbankar og byggja á nákvæmlega sams konar lögum og sams konar starfsskipulagi? Nei, auðvitað er þetta algjör einföldun á umræðum, algjör fjarstæða. Bönkum getur verið vel eða illa stjórnað alveg gjörsamlega án tillits til þess hvort þeir eru ríkisbankar eða hlutafélagsbankar. Mörg verstu bankahneykslin og eiginlega öll verstu bankahneykslin í sögunni eru auðvitað í einkabönkum. Ævintýrabankarnir í London, á Ítalíu og víðar voru einmitt dæmigerðir einkabankar. Þetta voru gorkúlubankar sem spruttu upp af einkaframtaki og gengu mjög lausbeislaðir. Þeir voru langt frá armi ríkisins, langt frá eftirlitinu og stóðu ekki á fornum merg í nánum tengslum við seðlabanka og bankaeftirlit. Þannig að þetta er auðvitað enginn málflutningur. Ef það er verið að draslast með óhæfa menn í ríkisbönkum þá er það engin afsökun að það sé vegna þess að þetta séu ríkisbankar. Menn eiga ekkert að vera að fara eins og kettir í kringum heitan graut í þeim efnum. Þá á bara að reka mennina. Það eru til úrræði í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna til þess að áminna menn sem standa sig ekki í stykkinu og eru vanhæfir og svo er ákveðinn prósess sem gildir um það hvernig slíkt gengur fyrir sig. Þannig að ég tek slíkar röksemdir ekki gildar.

Ég sé heldur ekki að sagan hér á Íslandi á seinni missirum og árum sanni mönnum eitt eða neitt í þessum efnum. Auðvitað eiga menn líka að horfa af sanngirni á verkefnin sem bankastofnanirnar eru með. Aumingja Landsbankinn er alltaf tekinn og laminn og barinn vegna þess að hann hafi staðið sig svo illa, það spretta upp alls konar snillingar, hagfræðingar og viðskiptafræðingar sem hafa vit á hlutunum og hafa lært þetta allt í skólum og fordæma Landsbankann.

En hvað hefur Landsbankinn gert á undanförnum árum og áratugum í íslensku efnahagslífi? Hvaða hlutverk hefur hann haft? Hann er meginviðskiptabanki undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar, sjávarútvegsins og hefur orðið að deila kjörum með sjávarútveginum í mjög ríkum mæli. Það er ósanngjarnt að horfa ekki til þess að Landsbankinn hefur tekið á sig gríðarlega afskriftaþörf vegna undangenginna erfiðleika og taprekstrar í sjávarútvegi. Þegar allt kemur til alls eru það kannski mennirnir sem ráku kolvitlausa gengisstefnu á síðasta áratug sem bera aðallega ábyrgðina en ekki endilega bankastjórar Landsbankans í dag.

Mér finnst það satt best að segja ekki svo merkilegt þegar einhverjir skólaspekingar koma fram með hróp um óhæfa stjórnendur. Útlánatöp sem orðið hafa á undanförnum árum voru oft löngu fyrirséð og lágu í forsendum sem liggja langt aftur á síðasta áratug, áratug verðbólgu og vitleysu af ýmsu tagi. Langstærstu ábyrgðina á útlánatöpum bankanna og sumra fjárfestingarlánasjóðanna ber ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar og hin kolvitlausa gengisstefna á árunum 1987--1988. Það er enginn vafi á því að þau ósköp sem þá gerast í skuldsetningu atvinnulífsins eiga mjög stóran þátt í því sem síðar varð og ekki varð við ráðið. Þá var stofnað til erfiðleika í fjölmörgum fyrirtækjum og atvinnugreinum sem gátu aldrei endað öðruvísi en með heilmiklum afskriftum. Það lá alltaf ljóst fyrir, svo aðeins sé nú farið aftur í söguna í þeim efnum. Svo halda menn að einhver ,,háeffun`` dagsins í dag breyti þessu. Það er mikill barnaskapur.

Það getur vel verið að einhvern tíma verði heppilegt og skynsamlegt að breyta um rekstrarform ríkisbankanna, ég hef engin sérstök trúarbrögð uppi í þeim efnum. Ég er ekkert sérstaklega á móti því en ég er enn síður fyrir fram með því bara út í loftið. Ég vil fá rök í þeim efnum eins og endranær áður en ég læt sannfærast. Ég vil sjá hvaða kraftverk gerast við það að þessir tveir litlu bókstafir bætist aftan við nöfn á skýrslum og bréfhausa bankanna. Ég held hins vegar að myndarleg úttekt á stöðu íslenska bankakerfisins, kortlagning á aðstæðum nútímans og hvað sé líklegt á komandi árum í þeim efnum, t.d. hvort við fáum hér inn erlenda bankastarfsemi og samkeppni af þeim toga, hún væri einhvers virði. Við alþýðubandalagsmenn höfum lagt það til að farið verði mjög rækilega í saumana á því hvort það eigi að stefna þá frekar á sameiningu ríkisbankanna í einn öflugan þjóðbanka. Ég svara því hiklaust játandi þegar eða ef menn telja af innlendum samkeppnisforsendum að það gangi. Auðvitað er það della að ríkið sé að reka tvö útibú hlið við hlið í mörgum litlum byggðarlögum með sitt hvoru nafninu yfir dyrunum.

[17:45]

Það mætti líka hugsa sér að taka upp eldri hugmyndir sem ræddar voru áður en Íslandsbanki varð til, t.d. um mögulegt samstarf sparisjóðanna við einhverja af þessum aðilum. Hugmyndir eru um það að Búnaðarbankanum og sparisjóðunum yrði með einhverjum hætti kúplað saman og búin þar til sæmilega sterk eining. Það gæti líka komið til skoðunar o.s.frv. Það er eitthvað sem skiptir máli. Það er eitthvað sem hefur í för með sér efnislegar breytingar sem maður er tilbúinn til að skoða og leggja vinnu í. En ekki svona rugl, að allt leysist sisvona með einhverjum ,,háeffum``. Og á svo að hafa þá alla þarna áfram, bankastjórana, sem menn keppast um að lýsa óhæfa? Hverju breytir þá ,,háeffun``? Ég hef ekki mikla trú á því. Getur þá ekki hv. þm. og formaður einkavæðingarnefndar, Gunnlaugur Sigmundsson, 2. þm. Vestf., haldið áfram að koma hér upp með svo ágætar ræður? Ég sé ekki annað en að allar sömu efnislegu forsendur standi eftir þótt þetta verði gert. Þar af leiðandi, herra forseti, tel ég langhyggilegast af meiri hlutanum hér að draga til baka þessa brtt. í ákv. til brb. II og láta málið fá afgreiðslu eins og til þess var stofnað í upphaflegu frv. Um það er ágæt samstaða, a.m.k. að mestu leyti. Það voru að vísu fyrirvarar um einstök tæknileg atriði svo sem eins og tilhögun tryggingarsjóðsins í nefndinni, en það er ekki stórvægilegt.

Hitt er alveg ljóst að ef hér er verið að smygla í dulbúningi inn og í gegn einhverjum undanfara einkavæðingarinnar með þessum hætti gagnvart Landsbanka Íslans, þá hlýtur það að kalla á miklar umræður eða ætti a.m.k. að gera það. Þar er á ferðinni stórmál sem ekki á að láta fara óathugað í gegnum þingið.

Vinnubrögðin, að lokum, herra forseti, í sambandi við þessi bankamál eru náttúrlega nokkuð dularfull að mínu mati. Þetta er mál sem alveg dæmigert ætti að kalla á þverpólitíska undirbúningsvinnu. Þetta er nú einu sinni þjóðbanki. Þetta eru bankar sem þjóðin á, öll þjóðin, ekki bara þeir sem kjósa Framsfl. Bankaráðin eru þannig skipuð að til þeirra er kosið hlutfallskosningu á Alþingi. Því finnst mér það liggja í allri hefð og meðferð þessara mála í stjórnkerfinu yfirleitt að ef menn vilja vinna þetta af einhverri alvöru og samviskusemi og vandvirkni þá hefðu menn í þessu þverpólitískan hóp eða nefnd eða einhverja undirbúningsvinnu. Aðferð Framsfl. sem maður sér í hverju málinu á fætur öðru er að það er skipuð nefnd og formaður hennar er ævinlega einn af hv. þm. Framsfl., yfirleitt nýliði. Það er í hverju málinu hér á fætur öðru. Hæstv. félmrh. Páll Pétursson er með margar nefndir í gangi. Ég held að hann sé búinn að koma öllum nýliðum þingflokks Framsfl. nema einum í einhverja nefnd, þar sem þeir eru formenn. Einn er að skoða þetta og annar að skoða hitt. Hér hefur hæstv. viðskrh. einmitt sama verklag á. En þetta eru þröngar, lokaðar flokksnefndir undir forustu þingmanna úr þingliði flokks hæstv. ráðherra og öðrum er ekki hleypt að málinu. Er nema von að við stjórnarandstæðingar séum tortryggnir á þessi áform og þessi vinnubrögð þegar þau skjóta upp kollinum með þessum hætti eins og gerir hér í þessu máli? Þetta er ekki til fyrirmyndar, hæstv. viðskrh. Þetta er satt best að segja heldur slakt, svo ekki sé meira sagt. Ef við værum stödd tveimur árum aftar í tímanum og við værum að ræða hér við þær aðstæður að þessi vinnubrögð lægju hér á borðinu af hálfu fyrrv. viðskrh. og hæstv. núverandi viðskrh. væri í stjórnarandstöðu, veit ég alveg upp á mína tíu fingur að hann væri hér í hópi gagnrýnenda þessara vinnubragða því það voru framsóknarmenn iðulega á síðasta kjörtímabili. Og stóðu sig þokkalega þótt Framsókn hafi alltaf verið heldur lélegur stjórnarandstöðuflokkur enda í allt of lítilli æfingu í því hlutverki eins og kunnugt er. Það var oft lið í þeim hv. þáverandi þingmönnum, Finni Ingólfssyni og Páli Péturssyni, þegar þeir voru að gagnrýna svona vinnubrögð af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar, svo ekki sé minnst á það að stundum lagði Halldór Ásgrímsson, hv. þm. og núverandi hæstv. utanrrh., leið sína í ræðustólinn og tók þátt í því að halda mönnum við efnið. Þannig að þetta er nú heldur dapurlegt, herra forseti.

Þessi vinna öll að einkavæðingu bankanna virkar á mann eins og hálfgert laumuspil. Það eru af og til að koma af þessu einhverjar óstaðfestar fréttir. Formaður nefndarinnar hefur af og til fengið köst, farið í fjölmiðla og lýst yfir þessu og hinu. En að öðru leyti er þetta eitthvað afar dularfullt. Mér skilst þó að eitt sé að verða ljóst og það er að þau frv. verði ekki lögð fram hér á þessu þingi, herra forseti. Það er auðvitað til bóta því það væri að bæta gráu ofan á svart ef ætti að fara að sulla þeim hérna inn ofan á allt hitt sem komið er. Mér finnst líka, eins og hv. síðasti ræðumaður reyndar vakti athygli á, 9. þm. Reykv., að hæstv. viðskrh. skuldi okkur skýringar á stöðu þessara mála almennt. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þingið taki svona við þessu góssi, þessu ákvæði um Landsbankann, nema veittar séu einhverjar upplýsingar um stöðu málsins, hvar þau standi yfirleitt. Í hvaða tengslum er þetta ákvæði við einkavæðingaráformin? Er það rétt sem borið var inn í efh.- og viðskn. að þetta sé nauðsynlegur undanfari þess að hægt sé að halda áfram frekari vinnu við að undirbúa einkavæðingu bankanna? Í hverju liggur það þá o.s.frv.? Þetta finnst mér að hæstv. viðskrh. verði að skýra betur fyrir okkur.