Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 17:53:41 (5099)

1996-04-22 17:53:41# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[17:53]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég felst að sjálfsögðu á það og tel alveg hárrétt hjá hæstv. viðskrh. að það er ekki hægt að svara efnislegum og viðamiklum spurningum í andsvörum. Það er gott að það er upplýst hér að hæstv. ráðherra mun taka til máls síðar í umræðunni og svara spurningum og væntanlega fjalla þá ítarlega um það sem við höfum óskað eftir að verði upplýst hér í umræðunni og tengist sérstaklega efni umdeildrar brtt. og ákv. til brb. II.

Ég var hins vegar að vísa til þess að þetta mál, eins og það snýr að stjórnarandstöðunni, t.d. nefndarmönnum í efh.- og viðskn., fulltrúum minni hlutans þar, hefur bara alls ekki komið á okkar borð. Við höfum eingöngu af því fréttir gegnum fjölmiðla eða utan úr bæ. Til að mynda þegar einn og einn nefndarformaður eða bankastjóri gýs pínulítið. Það kann vel að vera að þetta sé allt rétt hjá hæstv. ráðherra og auðvitað er ég ekkert að rengja að það hefur verið reynt að vanda samráð við starfsmannaráð og bankaráð. En það jafngildir ekki þverpólitísku samstarfi við stjórnarandstöðuna almennt um undirbúning þessa máls, um grundvallaratriðin og hin pólitísku ákvarðanatökuatriði. Ég lít svo á að hitt samstarfið hafi væntanlega tilhneigingu til þess að verða fremur tæknilegs eðlis og bankalegs eðlis. Það séu þeir hlutir sem þar séu á ferðinni. Ég efast um að fulltrúar stjórnarandstöðunnar í bankaráðum sem slíkir telji sig vera í aðstöðu til þess að vera þar jafnframt pólitískir tengiliðir sinna flokka vegna þess að þeir eru auðvitað bundnir af ákveðnum trúnaðarskyldum við þann banka sem þeir þjóna o.s.frv. Ég er ekki viss um að það sé hvort sem er heppilegt að setja menn í þær stellingar. Ef menn vilja vinna að þessu af alvöru og með það í huga að ná árangri þá hefði eitthvert þverpólitískt samstarf verið mjög skynsamlegt í undirbúningi málsins. Að minnsta kosti hefði átt að upplýsa stjórnarandstöðuna jafnharðan um gang mála þannig að við værum ekki að frétta á skotspónum um hlutina og væri jafnvel ætlað að taka til afgreiðslu mál sem þessu tengjast o.s.frv.