Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 21:01:49 (5100)

1996-04-22 21:01:49# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[21:01]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að hæstv. viðskrh. sé viðstaddur umræðuna. Ég veit að hann er hér í húsinu. Hæstv. forseti, mér varð hugsað til þess í dag þegar ég áttaði mig á því hvaða mál var komið á dagskrá að ég er búin að vera það lengi á hinu háa Alþingi, þótt það sé ekki lengra en á fimmta ár, að hér koma gamlir kunningjar fram aftur og aftur. Hér skjóta sömu málin eða svipuð mál upp kolli aftur og aftur og kannski sýnir það eðli þess starfs sem við gegnum hér að auðvitað þarf að skoða hina ýmsu lagabálka, endurskoða, breyta og bæta eftir því sem þörf kallar á. En þetta mál sem hér er til umræðu á sér nokkuð sérstakan aðdraganda.

Ég rifjaði það einmitt upp í dag þegar ég var að undirbúa mig undir þessa umræðu og skoða hvað við vorum að fást við vorið 1993 þegar það kom upp með mikilli skyndingu að það þurfti að hlaupa undir bagga með Landsbankanum. Það er svolítið sérkennilegt að þótt í því frv. sem hér er til umræðu sé gert ráð fyrir að veita nokkurs konar opna heimild til bankanna til að taka víkjandi lán, þá var það eiginlega ekki fyrr en undir lok vinnunnar og umræðunnar og með þeirri brtt. sem fram kom í efh.- og viðskn. að menn fóru að átta sig á því máli sem hér er til umræðu. Þá er ég fyrst og fremst að tala um ákvæði til bráðabirgða II sem mest umræða hefur orðið um hér í dag. Það bar þó ekki við með nándar eins sögulegum hætti og árið 1993 þegar ríkisstjórnin rauk upp til handa og fóta og frestaði fundum Alþingis, hélt aukafundi í ríkisstjórninni og boðaði svo til blaðamannafundar. Það má segja að varla finnist dæmi um það frá síðari árum að ríkisstjórn hafi vakið aðra eins athygli á slæmri stöðu ríkisbanka enda varð stjórn Landsbankans að senda skeyti út um allan heim til að róa þá banka sem þeir voru í viðskiptum við og höfðu tekið lán hjá því menn vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið í öllum þessum látum 1993. En þá varð niðurstaðan sú að ríkisstjórnin eða hæstv. fjmrh. fékk heimild til að taka lán sem síðan var veitt til Landsbankans. Síðan var Tryggingarsjóður viðskiptabankanna opnaður þannig að þangað mátti sækja heimild upp á 3 milljarða kr. Þetta var því mjög veruleg aðstoð sem á þeim tíma var veitt til að tryggja eiginfjárstöðu Landsbankans.

Nú stöndum við sem betur fer ekki frammi fyrir svipuðum vanda og reyndar er vandinn enginn. Við stöndum fyrst og fremst frammi fyrir meginspurningum sem snúa að Alþingi, fjárveitingavaldinu og ríkisábyrgðum. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að sú framsetning sem hér er komin upp vekur margar spurningar hjá mér. Ég er hreint ekki hissa á því að meiri hluti efh.- og viðskn. skyldi leggja til breytingu á því sem upphaflega var að finna í frv. því þar var galopin heimild til ríkisbanka til að taka víkjandi lán. Við vitum öll að ríkissjóður er í ábyrgð fyrir ríkisbankana og að mínum dómi kom sú heimild eins og hún var þá alls ekki heim og saman við þær reglur sem hér gilda um fjárveitingavaldið og þar með talið lántökur og ríkisábyrgðir. Meiri hluti efh.- og viðskn. fór þá leið að breyta þessu ákvæði nokkuð en ég er samt alls ekki sátt við það eins og það er og get tekið í öllu undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram í dag. Í rauninni finnst mér alveg nauðsynlegt að hv. efh.- og viðskn. taki þetta mál til sín á milli 2. og 3. umr. og skoði þetta aðeins betur. Ég vil biðja hæstv. viðskrh. að hlusta, þetta eru lagatæknileg atriði sem ég er að velta hér upp ásamt spurningunni um það hver fer með valdið frekar en að hér sé um pólitískt atriði að ræða. Hér er gert ráð fyrir því, hæstv. forseti, að ríkisviðskiptabönkum sé fram til 31. des. 1997 veitt heimild til að taka víkjandi lán. Mín fyrsta spurning snýr að því hvort það sé eðlilegt að Alþingi veiti svona opna heimild til meira en eins árs. Ég spyr: Hvernig kemur þetta heim og saman við frv. sem við erum að fást við í sérnefnd hér á hinu háa Alþingi um fjárreiður ríkisins þar sem að sjálfsögðu í takt við þær hefðir sem hér ríkja er gert ráð fyrir því að það verði lögð fram fjárlög fyrir eitt ár í senn og að í þeim fjárlögum verði samkvæmt 26. gr. frv., með leyfi forseta, leitað heimilda til lántöku, lánveitinga og ríkisábyrgða? Þannig er málið sett upp í frv. um fjárreiður ríkisins. Ef við afgreiðum málið með þeim hætti sem hér er að finna í ákvæði til brb. II, erum við þá að gera það sama og menn hafa stundum gert í 6. gr. fjárlaga þar sem heimildirnar lifa í rauninni áfram? Þær lifa svona frá ári til árs, þær eru framlengdar frá ári til árs. Það er eitt af því sem verið er að tala um í frv. um fjárreiður ríkisins og í starfi þeirrar nefndar, að taka fastar á því að það verði að endurnýja heimildirnar árlega þannig að það sé algerlega ljóst hvaða heimildir eru veittar innan hvers árs. Nú er það bundið hér í þessu ákvæði að þetta er hámarksheimild sem miðast við þá fjárhæð sem þessi víkjandi lán sem bankarnir hafa tekið námu 1. jan. 1994. Upphæðin er því þekkt en mínar vangaveltur snúa að því hvort það sé eðlilegt að framlengja þetta vald með þeim hætti að heimildin nái út árin 1996 og 1997.

Ég hafði samband við ráðuneytisstjóra fjmrn. í dag vegna þessa atriðis og hann tjáði mér að þess væru dæmi frá fyrri árum að slíkar lánveitingaheimildir hefðu verið veittar. Hann nefndi þar til t.d. virkjanir frá fyrri árum. Ekki ætlast ég til að hæstv. viðskrh. þekki þá sögu, en hann benti hins vegar á að það væri eðlilegt að í þessari heimild væri kveðið á um að hún væri með samþykki hæstv. fjmrh. og viðskrh. Það væri eðlilegt að orða hana með þeim hætti og þá ekki síst með tilvísan til þeirra laga sem voru samþykkt vorið 1993 þar sem þær lánveitingar og hemildir sem þá voru veittar voru bundnar allmörgum skilyrðum. Eins og heimildin lítur út er hún býsna opin þótt upphæðin sé ljós. Að því leyti er hún bundin að upphæðin er ljós. En á því hvenær þessi heimild er notuð er þessi sveigjanleiki. Mér finnst þetta vera það sem maður kallar prinsippmál af hálfu Alþingis hvort það sé rétt að veita slíkar heimildir til lengri tíma. Mér finnst að þetta sé umræða sem þurfi að fara fram áður en menn fara að afgreiða svona heimild út í bláinn.

Annar flötur á þessu máli er ástæðan fyrir því að verið er að veita þessa heimild. Það er alveg ljóst, eins og kemur fram í nál. minni hlutans, að þessi beiðni um lánveitingarheimild með ábyrgð ríkisins tengist þeim hugmyndum sem menn eru með um að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög. Eins og fram hefur komið í umræðunum í dag þá eru þau mál stopp í bili, m.a. vegna biðlaunamálsins og fleiri þátta sem menn eru að athuga. En allt tengist þetta einkavæðingarhugmyndum sem nú vaða hér uppi. Ég hef orðað það svo að þær séu eins og krabbi sem skríður út um allt ríkiskerfið án þess að menn horfi á það í samhengi hvað verið er að gera. Hvað er eðlilegt að einkavæða og hvaða fyrirtækjum ríkisins er eðlilegt að breyta? Það má segja að sá biðlaunaréttur sem hér er í gildi meðal opinberra starfsmanna og bankamanna hafi orðið til að stöðva þau mál að miklu leyiti.

Ég vil taka undir það sem kom fram í dag að áður en menn fara að veita heimildir af þessu tagi á auðvitað að liggja fyrir hvað er áformað og hvernig. Hæstv. viðskrh. lýsti því yfir hér í dag að hann ætlaði að upplýsa okkur eitthvað um þau mál hér á eftir. Meginspurningin sem vaknar í mínum huga varðandi þá breytingu er sú grundvallarspurning hvort svo lítið samfélag eins og okkar, með 260 þús. íbúa eða svo, komist af án ríkisbanka. Það hefur lengi verið litið þannig á að það væri nauðsyn á því að hér væri til ríkisbanki, ekki síst vegna lántaka erlendis og ekki síst vegna þess að ríkið hefur verið að baki og ábyrgst öll meiri háttar lán sem hafa verið tekin, t.d. vegna virkjana eða annarra framkvæmda ríkisins.

[21:15]

Við hljótum að spyrja og fara í gegnum þá grundvallarumræðu hvort ekki sé þörf á slíkum banka. Eru þær breytingar orðnar á okkar samfélagi og atvinnulíf það traust að hér sé ekki lengur þörf á banka sem hefur ríkið að bakhjarli? Eða hver verður bakhjarlinn og hvernig verður því skipulagi háttað? Hvað verður þá um ríkisábyrgðirnar? Ég reikna með að ríkið sé áfram ábyrgt fyrir öllu því sem hingað til hefur verið gert, en hver verður bakhjarlinn? Það er spurningin. Hafa bankarnir bolmagn til að styðja við bak atvinnulífsins, ekki síst sjávarútvegsins, ef ríkið er þar ekki að baki? Hvað verður þá um lánskjör erlendis o.s.frv.? Spurningarnar eru ótalmargar. Eftir stendur sú grundvallarspurning sem ég var að nefna, hvort við séum komin á það stig að geta breytt kerfi okkar þannig að hér sé enginn ríkisbanki. Þegar verið var að stofna bankana upphaflega kom ekki annað til greina en að hér væri ríkisbanki. Það var stefnan á þeim tíma og fjármálalífið var það umfangslítið að enginn gat veitt tryggingar nema ríkið. En nú eru breyttir tímar. Ég tek skýrt fram að ég er ekki að hafna því að breyta bönkunum. En áður en að því kemur þarf að fara í gegnum mikla grundvallarumræðu og grundvallarskoðun á efnahagskerfi okkar.

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka það sem ég kom hér inn á varðandi það hvernig þessi tillaga er sett fram og hvort það sé ekki eðlilegt að bæta þarna inn í því að notkun á þessari heimild verði borin undir hæstv. fjmrh. og viðskrh. Jafnframt vil ég fara þess á leit við hv. efh.- og viðskn. að málið verði skoðað aftur milli 2. og 3. umr. með tilliti til frv. um fjárreiður ríkisins og þær hefðir sem þar hafa gilt. Það er þá a.m.k. ljóst hvort tillagan eins og hún liggur fyrir er eðlileg út frá lagatæknilegu sjónarmiði. Ef menn komast að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki breytum við einfaldlega tillögunni og gerum þá ráð fyrir að bankarnir verði að koma aftur til Alþingis til að leita eftir slíkri heimild. Því eftir stendur að það er ríkissjóður sem er í ábyrgð fyrir þessar lántökur ríkisbankanna.