Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 22:03:07 (5109)

1996-04-22 22:03:07# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[22:03]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Sú aðstoð sem Landsbankanum var veitt á sínum tíma var þrískipt. Í fyrsta lagi var 2.000 millj. kr. beint framlag frá ríkissjóði sem var eiginfjárframlag, í öðru lagi lán frá Tryggingarsjóði viðskiptabanka upp á 1.000 millj. kr. og í þriðja lagi lán sem bankinn gat tekið hjá Seðlabankanum upp á 1.250 millj. kr. Í þeim lögum sem voru samþykkt hér 25. mars 1993 var þetta gert með nákvæmlega sambærilegum hætti og gert er í þessu frv. um viðskiptabanka og sparisjóði að öðru leyti en því að þar er um ákv. til brb. að ræða. Hins vegar var viðkomandi stofnunum eins og Tryggingarsjóði viðskiptabanka heimilt að taka lán með samþykki fjmrh. til þess að geta veitt þessa fyrirgreiðslu. Nú er það svo að Tryggingarsjóður viðskiptabanka þyrfti ekki á slíkri aðstoð að halda ef hann ætlaði að lána Landsbankanum þessar 1.000 millj. kr. til endurfjármögnunar enda þarf Landsbankinn ekki endilega að fara til Tryggingarsjóðs viðskiptabanka til þess að leita eftir þeim fyrirgreiðslum. Hann getur gert það með öðrum hætti. Það er því að mínu viti ekki ástæða til að leita eftir stuðningi ríkisins við heimildir Tryggingarsjóðs viðskiptabanka til að geta lánað Landsbankanum ef til þess kæmi. Þingið væri með þessum hætti að heimila Landsbankanum að leita láns til þess að treysta eiginfjárstöðu til fjármögnunar á því sem hann fékk á sínum tíma.