Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 22:07:24 (5111)

1996-04-22 22:07:24# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[22:07]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé ekki rétt, hv. þm. Ágúst Einarsson, að gera of mikið úr því sem hér hefur komið fram og fara að útbúa þá mynd að Landsbankinn sé í erfiðri stöðu. Ef hv. þm. lítur yfir, sem ég býst við að hann hafi gert, ársreikning Landsbankans þá uppfyllir Landsbankinn allar þær kröfur sem gerðar eru til hans. BIS-hlutfall bankans er vel yfir þeim mörkum sem sett eru í alþjóðlegum stöðlum. Það var hins vegar ætlunin þegar menn fóru af stað með þann samning sem hér hefur verið til umfjöllunar frá því í maí 1993 að byggja hraðar upp eiginfjárstöðu Landsbankans en mönnum hefur tekist. Og það er rétt hjá hv. þm. að hagnaðurinn af Landsbankanum hefur verið á þessu tímabili um 1,5 milljörðum kr. minni en menn ætluðust til. Menn fara ekki í grafgötur um það að bankinn þarf á þessari aðstoð að halda, m.a. vegna þess að hann er að greiða til baka 750 millj. kr. af þeirri fyrirgreiðslu sem hann fékk á sínum tíma. Hann hefur ekki náð að byggja upp eiginfjárstöðu sína jafnhratt og menn vonuðust til ef samningurinn hefði gengið eftir. Það skýrist fyrst og fremst af því, hvort sem mönnum hafa þar orðið á mistök í áætlunum í upphafi eða ekki, að útlánatöp bankans eru meiri en áætlað var þegar samningurinn var gerður eða a.m.k. í þeim rekstraráætlunum sem voru lagðar til grundvallar þeim samningi.