Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 22:31:56 (5120)

1996-04-22 22:31:56# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[22:31]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm., formaður efh.- og viðskn. reynir auðvitað að klóra í bakkann og bera blak af þeirri stöðu sem er komin upp í málinu. En það dugar ekki að horfa fram hjá því að þetta mál var lagt upp með allt öðrum forsendum og allsendis ónógum, eða nánar tiltekið engum upplýsingum, um þann þátt sem nú er orðinn aðalviðfangsefni okkar í umræðunum. 2. gr. frv. og umsögnin um hana leggur þetta upp sem tæknilegt mál. Það er ekki minnst einu orði á Landsbankann. Það er engin einasta tala þar um það hvað falist geti í því að opna þessa heimild. Þeir hlutir eru allir síðan fram komnir. Það að við nefndarmenn í efh.- og viðskn. skulum vera að fá nýjar grundvallarupplýsingar um þessa hluti í umræðunni hér á elleftu stundu að kvöldi dags við 2. umr. er auðvitað ekki eins og þetta á að vera. Hv. þm. og formaður efh.- og viðskn, það er bara ekki þannig. Við verðum þá að horfast í augu við það að í besta falli getum við tekið á okkur sökina. Við höfum verið of andvaralaus í málinu og ekki unnið nógu vel í nefndinni. Mér finnst það þó tæplega sanngjarnt vegna þess að við höfum talið okkur vera að fá þær upplýsingar sem til reiðu væru um málið. Sé ekki tekið mark á því að nefndin fari yfir þetta áður en 2. umr. lýkur ræð ég að sjálfsögðu ekki við það. En ég tel að ég eigi kröfu á því að nefndin taki málið fyrir milli 2. og 3. umr. Það er venjan að verða við slíku. Ég mun óska eftir því að fá um þetta upplýsingar, fá bankaeftirlitið og fá Landsbankann aftur til fundar við okkur út af þessu. Það dugar ekkert annað. Úr því sem komið er, er umræðan hvort sem er orðin galopin, út um dal og hól. Ég sé ekki að það breyti svo sem neinu fyrir Landsbankann, eigendur hans og viðskiptalífið í landinu þótt menn taki svo sem tvo sólarhringa í viðbót. Ætli þetta versni mikið úr þessu eftir fréttirnar í kvöld og orðaskiptin í dag, ég á svo sem ekki von á því. Það mundi heldur skána ef menn hefðu það á tilfinningunni að að lokum hefði verið farið sómasamlega yfir málið og það afgreitt með efnislegar upplýsingar fyrirliggjandi.

Ég bendi á að það getur vel verið að að lokum komist menn að þeirri niðurstöðu að þessi endurfjármögnun eigi að vera meiri. Það hefur komið fram í kvöld að í raun skakki 1,5 milljörðum á að áætlanirnar hafi gengið eftir ef miðað er við afkomuna eins og hún var áætluð 1993. Ég held því að það sé rétt að fara yfir það hvað þetta á að vera.