Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 22:59:37 (5128)

1996-04-22 22:59:37# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[22:59]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur áður komið fram af hálfu okkar talsmanna minni hlutans í þessu máli að ef upplýsingar um málið hefðu legið fyrir eins og þær gera nú að lokinni ræðu hæstv. viðskrh. hefði vel mátt vera að við hefðum litið málið öðrum og alvarlegri augum og það kynni hugsanlega að hafa breytt afstöðu okkar. Ég árétta að það kom aldrei fram í umræðu í nefndinni að ástæðan fyrir þessari beiðni um aðstoð sé raunverulega sú að þar sem bankinn hefur ekki getað staðið við skilyrðin og áætlanir frá 1993 til viðbótar því að þurfa að greiða þessar 750 millj. til baka upp í fjárhagsfyrirgreiðsluna sem þá var veitt þurfi hann þess vegna á þessari fyrirgreiðslu að halda þrátt fyrir tölur sem hér hafa verið birtar og við höfum verið að hamra á. Það eru algjörlega nýjar upplýsingar og ég lít þær svo alvarlegum augum að ég segi einfaldlega fyrir mína parta, það þjónar ekki tilgangi að ræða málið hér frekar og það er sérstök ástæða til þess í ljósi þessara mikilvægu upplýsinga, sem eru bornar fram af hæstv. viðskrh. sjálfum, að vísa málinu aftur til nefndar og láta á það reyna hvort það kunni að breyta niðurstöðu nefndarmanna.