Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 23:21:15 (5136)

1996-04-22 23:21:15# 120. lþ. 124.14 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, Frsm. minni hluta ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[23:21]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég tala fyrir minnihlutaáliti efh.- og viðskn., en auk mín stendur að álitinu hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson.

Það frv. sem við erum að ræða hér er mjög merkilegt frv. sem fjallar um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri. Það er m.a. merkilegt fyrir það að það er ekki einungis stjfrv. sem hér var og er raunverulega til umræðu heldur tvö önnur þingmál. Það má nefna fyrsta þingmálið af þessum þremur þingmálum sem var borið fram af mér og hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur. Það var frv. um að heimila erlenda fjárfestingu allt að 20% hlut og þá skipti ekki máli hvort um veiðar eða vinnslu var að ræða. Síðan var stjfrv. lagt fram sem lagði áframhaldandi bann við beinni fjárfestingu í sjávarútvegi og tók á nokkrum öðrum þáttum en heimilaði óbeina fjárfestingu. Þriðja frv. sem síðar kom fram var frv. fjögurra sjálfstæðisþingmanna undir forustu hv. þm. Kristjáns Pálssonar og hv. þm. Péturs H. Blöndals, Vilhjálms Egilssonar og Guðjóns Guðmundssonar. Og það er einmitt hinn sami hv. þm. Vilhjálmur Egilsson og gerði grein fyrir meirihlutaáliti áðan. Það frv. gerði ráð fyrir að heimila 49% fjárfestingu í bæði veiðum og vinnslu hér á landi.

Þetta mál sem var vísað til hv. efh.- og viðskn. fékk eins og önnur mál vandaða umfjöllun. Það koma engin mál til þeirrar ágætu nefndar öðruvísi en þau séu könnuð mjög ítarlega og það átti við þessi mál eins og önnur. Það má geta þess, herra forseti, að haldin var sérstök ráðstefna efh.- og viðskn. og sjútvn. um þessi þrjú þingmál ásamt þingmáli okkar þjóðvakaþingmanna um veiðileyfagjald þar sem var farið mjög vandlega yfir málin ásamt sérfræðingum og eru einmitt slík vinnubrögð til fyrirmyndar að mínu mati í nefndarstarfi og mætti vafalítið gera oftar.

Það sem málið snýst um er ákvörðunin eða ágreiningurinn um það hvort heimila á erlendum aðila að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi. Það eru ýmsir kostir við þá aðferðafræði, m.a. að með því er íslenskum fyrirtækjum gert kleift að sækja áhættufé sem eigið fé. Þeir eru þá síður upp á erlent lánsfé komnir en skuldir íslensks sjávarútvegs eru á annað hundrað milljarða eins og menn e.t.v. vita.

Það er líka talinn mjög mikill kostur varðandi beina fjárfestingu útlendinga að það getur leitt til samstarfs í markaðsmálum en einmitt slík eignatengsl eru mjög algeng og hafa rutt sér til rúms víða erlendis á undanförnum árum og áratugum. Þetta er líka hluti af alþjóðlegu frjálsræði í viðskiptum, frjálsræðisstefnu sem við þekkjum ósköp vel, Íslendingar, bæði með aðild okkar að EES-samningnum og GATT-samningnum, svo að nokkuð sé nefnt. Þar er verið að örva og létta hömlum af viðskiptum milli landa.

Einnig má geta þess að við höfum fjárfest mikið í sjávarútvegsfyrirtækjum erlendis og af hverju ekki láta það sama yfir útlendinga ganga hér? Við höfum fjölmörg dæmi um árangursríkar fjárfestingar útlendinga hér á landi.

Það er hægt að nefna nokkrar fleiri ástæður fyrir þessu. Takist að laða að útlendinga til fjárfestinga í sjávarútvegi getur það leitt til þess að þeir fjárfesti líka í öðrum greinum og það er okkur einmitt kappsmál. Rökin gegn beinni fjárfestingu útlendinga eru fyrst og fremst þau að menn vilja ekki að útlendingar eigi hlutdeild í veiðum við Íslandsstrendur. Þetta eru söguleg rök, andstaða sem markast m.a. af landhelgisdeilum okkur. Þótt hér sé um að ræða íslensk fyrirtæki sem lúta íslenskum lögum er þessi andstaða býsna sterk í hugum margra og hún gerir það að verkum að það er dálítið erfitt að komast út úr þessari umræðu. Það má sömuleiðis benda á að fjárfestingar útlendinga í veiðum og vinnslu hafa ekkert með útflutning á ferskum fiski að gera eins og oft er haldið fram. Um það gilda sérstakar reglur. Reyndar er útlendingum heimilt að kaupa fisk á innlendum mörkuðum ef svo ber undir, en það hefur ekki orðið nein slík þróun. Samt hefur verið rætt ítarlega um það í kjölfar þessara þingsályktunartillagna eða frumvarpa hvort hægt sé að reyna að samræma þessi sjónarmið og þá í því formi hvort heimila ætti fjárfestingu í fiskiðnaði en heimila einungis óbeina fjárfestingu í útgerð.

Það má þó geta þess að á meðal þeirra frumvarpa sem lögð voru fyrir fjölmargra umsagnaraðila voru nokkur sem beinlínis studdu þá aðferðafræði sem kom fram í 20% frv. og 49% frv. Aðilar eins og Samtök iðnaðarins, Verslunarráð og Alþýðusambandið lögðust á sveif með flm. Andstaðan gagnvart þessari hugmyndafræði var einkum frá hagsmunaaðilum í sjávarútvegi þar sem Landssamband ísl. útvegsmanna var fremst í flokki auk Samtaka fiskvinnslustöðva og sjómannasamtaka. Það sem minni hlutinn reyndi að gera ítrekað í nefndinni, þegar meginafstaða umsagnaraðila lá fyrir og það var ljóst að það var vilji til að skoða beina fjárfestingu í sjávarútvegi með einhverju móti, var að skoða hvort ekki ætti að breyta umræðunni í það að heimila fjárfestingar einungis í fiskvinnslu. Það féllst meiri hlutinn ekki á, því miður, og hélt sig við upprunalega stjfrv. Nú má hins vegar geta þess og það er mikilvægt að þetta stjfrv. felur í sér að útlendingar geta eignast meiri hluta með óbeinum hætti í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Þeir geta eignast allt að 62% á mjög einfaldan hátt með því að eiga í hlutafélagi sem á 25% í hlutafélagi sem á í sjávarútvegsfyrirtæki og lögaðilinn sem ætti 75% getur verið með erlenda eignaraðild upp á tæp 50%. Með mjög einfaldri keðju er því mögulegt fyrir útlenskt fyrirtæki að öðlast full yfirráð yfir íslensku sjávarútvegsfyrirtæki og er það óháð því hvort um veiðar eða vinnslu er að ræða. Þetta sýnir eiginlega betur en margt annað að þessi óbeina aðferðafræði eða þessi aðferðafræði um óbeina fjárfestingu er í reynd markleysa ein. Hún er hættulegri en bein fjárfesting vegna þess að hún leiðir til þess að aðilar fara krókaleiðir og búa sér til fyrirtækjakeðju til að ná yfirráðum yfir íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum ef þeir kjósa svo. Það hefði verið miklu eðlilegra að heimila beinar fjárfestingar, þá væru þessi viðskipti fyrir opnum tjöldum. Í nefndinni var varpað fram hugmyndum um að byrja að hafa þetta fyrst og fremst takmarkað við fyrirtæki sem eru á hlutabréfamarkaði svo menn hefðu enn betri yfirsýn. En það var alveg sama hvernig reynt var að kynna þetta fyrir meiri hluta nefndarinnar. Það var gjörsamlega ókleift að fá þá til að skoða einhverja aðra útfærslu en stjfrv. gerði ráð fyrir.

Reyndar er það svo að minni hluti efh.- og viðskn. telur ástæðulaust að hafa miklar á hyggjur af því þó heimilaðar séu takmarkað fjárfestingar útlendinga í íslenskum sjávarútvegi, hvort sem um veiðar eða vinnslu er að ræða. Hins vegar telur hann rétt að fara með sérstakri varkárni í þessi mál og taka mið af þeim umsögnum sem bárust og umræðunni sem var í nefndinni og skoða þá í fyrstu umferð einungis fjárfestingu í fiskvinnslunni og láta þá fiskvinnsluna vera eins og hvern annan iðnað í landinu. Takmarkanir á fjárfestingum eru satt best að segja ekki mjög miklar í íslensku atvinnulífi og með stjfrv. var reyndar ýtt úr vegi nokkrum slíkum hindrunum varðandi viðskiptabanka, flugrekstur, orkuvinnslu og orkudreifingu. Að því leyti fól frv. í sér nútímalegar breytingar í átt til frjálsari viðskiptahátta sem minni hlutinn studdi. Þyrnirinn var einungis þetta atriði sem varðaði fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi.

Minni hluta nefndarinnar tókst ekki að sannfæra meiri hlutann um að skoða málin út frá því sjónarmiði að heimila fjárfestingar í fiskvinnslu með beinum hætti, þ.e. að setja ekki takmarkanir á þann þátt en halda þessari óbeinu útfærslu gagnvart útgerðinni. Röksemdirnar fyrir því að taka fiskvinnsluna svona sérstaklega eru t.d. þær að sæju útlendingar og íslensk fyrirtæki kost í því að stofna samstarfsfyrirtæki um vinnsluþáttinn einungis, þá mundu menn einfaldlega gera það með sérstöku fyrirtæki sem gæti þá örvað markaðssamstarf og það er einn af kostum erlendrar eignaraðildar. Þetta tókst ekki og meiri hlutinn gerir eingöngu smávægilegar breytingar sem tekur varla að tala mikið um. Hv. formaður efh.- og viðskn. gerði grein fyrir þeim áðan. Reyking og súrsun, niðursuða og niðurlagning skal teljast til almenns iðnaðar og er það reyndar gert í opinberri flokkun að nokkru leyti. Að öðru leyti var frv. stjórnarinnar ekki breytt um stafkrók.

[23:30]

Það er í sjálfu sér ekkert sérstakt um það að segja þótt nefnd hafi klofnað og menn hafi farið hver sína leiðina í ákveðnu pólitísku ágreiningsefni. En þetta mál er flóknara en svo. Eins og ég gat um áðan, fluttu fjórir þingmenn Sjálfstfl. frv. sem gekk lengra en frv. þjóðvakamannanna. Frv. sjálfstæðisþingmannanna gekk út á 49% eignaraðild, bæði í útgerð og fiskvinnslu. Þetta frv. var einfaldlega látið gufa upp. Það er satt best að segja með ólíkindum, herra forseti, því að flm. á þessu frv. voru tveir nefndarmenn í hv. efh.- og viðskn. auk Kristjáns Pálssonar, sem fylgdi málinu úr hlaði, að stjórnarþingmenn flytji slíkt frv. í kjölfar stjfrv., flytji frv. sem gengur þvert á stjfrv. Látum það nú vera, því að það er réttur hvaða þingmanns sem er að berjast fyrir sínu sjónarmiði, þó hann sé aðili að ríkisstjórn en að það skuli gerast með þeim hætti að þeir ná engum breytingum í áttina að sínu frv. í nefndarstarfinu. Þeir leggja fram frv. um 49%, ég veit ekki í hvaða tilgangi, hvort það var sýndarmennska ein sem bjó þar að baki, að minnsta kosti töluðu þeir hvorki fyrir því af neinum krafti þegar leið á í umræðunni um þetta mál og í nefndarstarfi né tókst þeim að fá meiri hluta nefndarinnar eða meiri hluta stjórnarþingmanna til að taka þátt í að breyta frv. í átt að því sem þeir voru að tala fyrir í sínu 49% frv. Þessir fjórir þingmenn skulda þingheimi og almenningi skýringar á þessari atburðarás því það er auðvitað alvarlegt mál þegar stjórnarþingmenn koma fram með þingmál með þessum hætti. Auðvitað áttu bæði stjórnarandstæðingar og aðrir í þjóðfélaginu von á því þegar þarna kom frv. í þessa átt sem gengur nálægt því sem við í minni hlutanum leggjum til eða það er skylt því, þá hefði mátt búast við því að það tækist að breyta stjfrv. í átt til meira frjálsræðis. Það tókst ekki og það sýndi sig betur en margt annað að þegar á reynir eru þessir tveir flokkar, Sjálfstfl. og Framsfl., ekki færir um að brjótast út úr þeirri hagsmunagæslu sem hin stóru valdasamtök í baklandi þeirra ráða yfir.

Minni hlutinn gerir athugasemdir við annað atriði í þessu frv. Það er svokallað Olís-ákvæði en í stjfrv. er sagt að það sé óheimilt fyrir fyrirtæki sem er með meira erlenda eignaraðild en 33% að eiga í íslensku sjávarútvegsfyrirtæki. Nú háttar svo til með eitt íslenskt fyrirtæki sem á í sjávarútvegsfyrirtækjum, Olís hf. eða Olíuverslun Íslands, að þar er erlendur eignaraðili með 35%. Það er Texaco-fyrirtækið og er ekki fyrirhuguð nein breyting þar á. Þarna hefði verið eðlilegt að hækka þessi viðmiðunarmörk þannig að menn væru nú ekki að gera einu fyrirtæki erfitt fyrir. Nei, það var ekki farin sú leið. Það var sett inn í ákvæði til bráðabirgða að heimila þetta en þó þannig að þeir verða að minnka eignaraðild á næstu árum. Þetta sýnir betur en margt annað að þarna var ekki verið að gæta hagsmuna þessa eina fyrirtækis og það má spyrja sig hvort að önnur olíufélög hafi verið meiri hlutanum nærtækari og nær hjartarótum en þetta félag sem hér á við. Þessi útfærsla á frv. er a.m.k. að mati minni hlutans ákveðin mismunun á fyrirtæki, einu fyrirtæki sem var alveg óþarfi að gera. Það var hægt að útfæra þetta á liðlegri hátt en frv. sýnir.

Að lokum, herra forseti. Stjfrv. gerir ekkert annað en að staðfesta óbreytt ástand. Það eru engin sóknarfæri í frv. Það hefði verið sókn í frv. sem þjóðvakamenn lögðu fram. Það hefði e.t.v. verið of mikil sókn í fyrsta umgang í frv. sem hinir fjórir þingmenn Sjálfstfl. lögðu fram. Það hefði kallað á miklar breytingar en ég held að það frv. og sú tillaga sem minni hluti leggur fram, að heimila fjárfestingar útlendinga í fiskvinnslu en hafa einungis með óbeinum hætti, þ.e. ákvæði stjfrv. varðandi útgerð, hefði verið skynsamleg málamiðlun í fjárfestingarumræðunni. Það hefði horft til bóta, það hefði nýtt vissa kosti einmitt á þeim sviðum sem menn eru sammála um að þurfi virkilegrar uppstokkunar við, þ.e. á fiskvinnsluþættinum. Þarna hefði verið komið til móts við öll þau sjónarmið sem voru mjög víða sterk varðandi það að heimila ekki erlenda eignaraðild í útgerð sem er vitaskuld skoðun sem menn verða að virða þótt menn séu henni kannski ekki sammála. Tillaga minni hlutans var því hugsuð sem málamiðlun og það ber að harma að meiri hlutinn skuli ekki hafa séð sér fært að ræða málin og taka meiri tíma í að skoða það því það kom fram að hjá fjölmörgum hagsmunaaðilum að einmitt þessi útfærsla hugnaðist mönnum mjög vel og ýmsir nefndarmenn í meiri hlutanum og í hinu háa Alþingi töluðu einmitt fyrir þeirri útfærslu sem minni hlutinn leggur til í brtt. sinni. Það verður tækifæri til, herra forseti, í umræðu sem verður síðar að fara nánar ofan í málið og tala þá skýrar fyrir því að sú breyting, sem minni hlutinn leggur til, hefði horft mjög til bóta í íslenskum sjávarútvegi.