Iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 13:46:51 (5144)

1996-04-23 13:46:51# 120. lþ. 125.91 fundur 265#B iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[13:46]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Fyrir daga þess stöðugleika sem við nú höfum búið við um nokkurt skeið var það þannig að þegar vel viðraði í sjávarútvegi þurftu aðrar atvinnugreinar að búa við hækkandi raungengi þar til þær voru komnar af fótum fram. Þá var gengið gjarnan fellt með tilheyrandi afleiðingum og verðbólga geisaði á rústum atvinnulífsins. Í þeim efnahagssveiflum var mörgu fyrirtækinu fórnað og nýsköpun í atvinnulífinu fór einatt fyrir lítið. Þróun fjölbreytts iðnaðar og vaxtarsprota í atvinnulífinu var kæfð. Aðrar atvinnugreinar þoldu einfaldlega ekki sama gengi og sjávarútvegurinn þegar hann átti sína góðu daga.

Herra forseti. Nú hefur staðan verið þannig undanfarin ár að mjög hefur þrengt að útgerð vegna síminnkandi veiðikvóta og í framhaldi af því hefur botnfiskvinnslan átt undir högg að sækja þannig að þó svo ágætlega hafi gengið í sumum greinum hefur staða sjávarútvegsins verið í járnum og aðilar þar orðið að beita mikilli hugkvæmni til að lifa af. Gengisskráningin hefur m.a. þess vegna verið þannig að iðnaður ýmiss konar, ekki síst sá sem byggir á íslenskum aðstæðum, hugviti og þekkingu hefur náð sér á strik og í mörgum tilfellum blómstrað og við tölum um að þar séu loks komnir þeir vaxtarsprotar í atvinnulífinu sem geti tryggt fulla atvinnu, fjölbreytni í atvinnulífi og bætt lífskjör í framtíðinni.

Í febrúartímariti Samtaka iðnaðarins segir eftirfarandi í ritstjórnargrein, með leyfi forseta:

,,Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að næsta uppsveifla í sjávarútvegi valdi kostnaðarhækkunum og þar með hækkun á raungengi sem enn einu sinni eyðileggur starfsskilyrði annarra atvinnugreina.``

Þá er komið að kjarna málsins, herra forseti. Nú væntum við betra gengis í sjávarútveginum, einkum veiðunum, með auknum þorskkvóta á næstu árum. Alþingi hefur slegið tóninn og lesið þannig úr togararalli og viðtölum við sjómenn að í næstu framtíð verði kvótin aukinn og það talsvert. Er skemmst að minnast umræðu á hinu háa Alþingi fyrir rúmri viku þar sem ýmsir þingmenn hvöttu til aukningar þorskkvóta strax og flestir töldu nánast einboðið að um verulega aukningu yrði að ræða þegar í haust. Það er vissulega fagnaðarefni að afli skuli nú glæðast á Íslandsmiðum og að við getum horft fram á betri tíð í sjávarútveginum. En það er við þessar kringumstæður sem forsvarsmenn iðnaðarins óska eftir skilningi á stöðu greinarinnar og benda stjórnvöldum á leið til sveiflujöfnunar því verði ekkert að gert hækkar raungengi með gamla laginu með auknum afla. Það sem áunnist hefur í útflutningsiðnaði, samkeppnisiðnaði og ferðaþjónustu rennur þá fljótt út í sandinn, svo vitnað sé til orða Sveins Hannessonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins á ráðstefnu um framtíð iðnaðarins sem haldin var fyrir nokkrum dögum.

Herra forseti. Talsmenn iðnaðarins benda á að upptaka veiðileyfagjalds sé fær leið til sveiflujöfnunar og benda einnig á tiltekna aðferð sem fyrsta skref. Á það hefur verið bent í umræðu um veiðileyfagjald á hinu háa Alþingi að ekki einasta hnígi réttlætisrök að því að taka beri upp veiðileyfagjald í sjávarútvegi heldur sé hægt að beita því til nauðsynlegrar sveiflujöfnunar þannig að fjölbreytt atvinnulíf fái þrifist til langframa. Að þetta sýnishorn stöðugleika verði varanlegt, að starfsskilyrði atvinnugreinanna verði í jafnvægi.

Nauðsynlegt er að stefna ríkisstjórnarinnar sé klár í þessum efnum. Þess vegna spyr ég hæstv. iðnrh. og viðskrh. hver séu viðbrögð hans við þessu ákalli forsvarsmanna iðnaðarins um sveiflujöfnun. Hverju svarar hann þessari ósk annarra atvinnugreina um viðbúnað vegna væntanlegrar uppsveiflu í sjávarútvegi?

Nú þekkjum við örlög og möguleika ýmissa sveiflujöfnunarsjóða úr fortíðinni. En er þá hæstv. ráðherra tilbúinn að beita sér fyrir því að upptaka veiðileyfagjalds verði skoðuð sem liður í sveiflujöfnun, ekki endilega með þeirri aðferð sem forsvarsmenn iðnaðarins benda á þó að hún sé allrar athygli verð heldur með opnum hug og með það að markmiði að fjölbreytt atvinnulíf geti dafnað hér? Það er nauðsynlegt að inna eftir svörum við því hvað hæstv. ríkisstjórn er að gera í þessum efnum nú þegar talsmenn iðnaðarins hafa minnt svo rækilega á mikilvægi þess að brugðist verði við í tíma þannig að við siglum ekki inn í gamla farið og að góðæri í sjávarútvegi geti jafnframt verið góðæri fyrir aðrar atvinnugreinar.