Iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 13:52:14 (5145)

1996-04-23 13:52:14# 120. lþ. 125.91 fundur 265#B iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[13:52]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Kyrrstaðan í íslensku efnahags- og atvinnulífi hefur verið rofin. Þannig jókst landsframleiðsla á síðasta ári um 2% og því er spáð að hún muni aukast um 3% á þessu ári og viðvarandi hagvöxtur í kringum 3% geti orðið allt fram til aldamóta. Verðbólga er svipuð eða jafnvel heldur lægri en í samkeppnislöndunum. Afkoma fyrirtækja hefur batnað og kaupmáttur launa eykst. Atvinnuleysi fer nú minnkandi og nýjustu tölur sem birtast í morgun sýna það að atvinnuleysi er 1,5% minna í þessum mánuði samanborið við sama mánuð fyrir ári. Erlendar skuldir hafa lækkað og það er við þessar aðstæður sem er kjörið að skapa ný sóknarfæri enda hefur það verið svo að í iðnaðinum á síðasta ári urðu verulegar breytingar til batnaðar. Veruleg magnaukning varð í útflutningi á öðrum iðnaðarvörum eða 18,5% á sama tíma og samdráttur var í sjávarútvegi um 5,5% og í landbúnaði um 1% þannig að það er iðnaðurinn í raun sem hefur haldið uppi þeim hagvexti sem hér hefur verið að eiga sér stað. 26% aukning varð í verðmæti útflutnings iðnaðarvara á síðasta ári og það var ekki í hinum hefðbundnu gömlu iðngreinum heldur í iðngreinum sem eru nýjar, sem byggja að langstærstum hluta til á hugviti og þekkingu eins og í hugbúnaðariðnaði. Nýtt íslenskt fyrirtæki var að fá alþjóðleg verðlaun nú fyrir stuttu í lyfjaiðnaðinum og ýmiss konar tækjabúnaði sem byggir á verkþekkingu þannig að þarna er um verulega breytingu að ræða.

Vandamálið er hins vegar að íslenskt atvinnulíf býr við allt of litla erlenda áhættufjármögnun. Þar þarf að eiga sér stað breyting. Þrátt fyrir að það hafi gerst með samningnum um stækkun álversins sem er 16.500 millj. kr. erlend fjárfesting á árinu 1996 og 1997 er þar um tímabundna erlenda fjárfestingu að ræða og menn verða að horfa til þess að menn verða að ná til að auka erlenda fjárfestingu á árunum eftir 1997.

Erlend fjárfesting hefur verið í kringum 0,1% af landsframleiðslu á undanförnum árum en samningur um stækkun álversins gerir ráð fyrir því að erlenda fjárfestingin tífaldist á þessum árum. Besta atvinnustefna sem ríkisstjórnin getur gefið atvinnulífinu er að halda raungenginu óbreyttu og ná til þess að lækka vexti fyrir atvinnulífið. Samkeppnisstaða atvinnulífsins gagnvart erlendum keppinautum mælt á mælikvarða raungengis hefur ekki verið betri í áratugi. Við þessi skilyrði blómstrar atvinnulífið. Við aldamótin verðum við búnir að skjóta traustari stoðum undir íslenskt atvinnulíf, útflutningur verður fjölbreyttari og vægi hefðbundins sjávarútvegs verður minna en nú er. Við megum ekki láta þetta tækifæri úr greipum okkar ganga. Stöðugleikanum samhliða æskilegu raungengi verður að viðhalda með öllum tiltækum ráðum og undir það tek ég með hv. þm. sem hóf þessa umræðu.

Forsvarsmenn í iðnaði hafa áhyggjur af mögulegri aukningu þorskkvótans. Það er eðlilegt því að sporin hræða eins og kom fram frá hv. þm. áðan. Hins vegar er það skoðun mín að hófleg aukning þorskkvótans muni ekki valda slíkum straumhvörfum við núverandi aðstæður að ástæða sé til að ætla að aðrar atvinnugreinar bíði tjón af. Þó að góður gangur sé í efnahagslífinu um þessar mundir tel ég að hægt sé að færa fyrir því líkur að töluverður slaki sé í þjóðarbúskapnum almennt þó að hann sé á uppleið um þessar mundir. Hagræðing og framleiðniaukning í atvinnulífinu hefur skilað þjóðarbúinu miklu. Þannig hafa átt sér stað verulegar launahækkanir á undanförnum missirum án þess að verðbólga hafi farið úr böndum.

Sem svar við fyrirspurn hv. þm. er það svo að meiri festa og ögun, meira frjálsræði í viðskiptum og almenn virkari hagstjórn með almennum hagstjórnartækjum gerir það að verkum að hægt er að takast á við hóflega aukningu þorskkvótans án sértækrar sveiflujöfnunar í sjávarútvegi. Tillaga framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins um að selja kvótaukningu á markaði og nota tekjurnar til að lækka virðisaukaskatt er vel til þess fallin að vekja umræðu um þetta mál. Hún er hins vegar ekki gallalaus, sérstaklega ekki út frá sjónarhóli sveiflujöfnunar. Þessi aðgerð eins og hún er lögð til jafnar ekki sveiflur. Gjald er lagt á útgerð en gjaldinu er ráðstafað til almennings. Það er ekki sveiflujöfnun og heldur ekki jöfnun milli einstakra atvinnugreina.

Ég er ekki hlynntur því að tekið verði upp auðlindagjald á eina atvinnugrein umfram aðra. Auðlindagjald ætti þá að leggjast á allar atvinnugreinar sem nýta sér sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Auðlindagjald, ef til þess kemur, mun skapa ríkissjóði tekjur og þá er eðlilegt að lækka skatta á atvinnulífið á móti. Ýmsar leiðir eru færar við sveiflujöfnun. Að mörgu þar þarf að hyggja við þá skoðun. Ég bendi hins vegar á að þessar leiðir eru til skoðunar í nefnd sem nú er að störfum, svokallaðri hagvaxtarnefnd undir forustu forsrn. Nefndinni er ætlað að finna leiðir til að skapa sem best og stöðugust vaxtarskilyrði fyrir þjóðarbúið til lengri tíma litið.