Iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 14:06:09 (5149)

1996-04-23 14:06:09# 120. lþ. 125.91 fundur 265#B iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[14:06]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Það er vissulega ánægjulegt að uppsveifla í atvinnulífinu er orðið vandamál sem þarf að ræða utan dagskrár á Alþingi en því miður er málið ekki svona einfalt. Það er eiginlega alveg dæmalaust að það skuli vera predikað úr ræðustól á Alþingi að það fyrsta sem þurfi að gera fyrir sjávarútveginn núna þegar svolítið rofar til eftir niðurskurð á aflaheimildum síðustu ára sé að leggja á hann aukin gjöld. Ég tek undir það sem síðasti ræðumaður sagði að það er hlálegt þegar forsvarsmenn fiskvinnslunnar eru að huga að því hvort þeir eigi að hafa opið í sumar vegna taprekstrar þó að afkoma sjávarútvegsins í heild sé jákvæð um ein 3%, það er hlálegt að þá skuli fara fram umræða á Alþingi um það hvort það eigi að leggja skatta og gjöld á þessa grein. Ég vil undirstrika þetta.

Eins vil ég leiðrétta það sem kom fram hjá hv. 4. þm. Vestf. þar sem hann var að fara með afrekalista síðustu ríkisstjórnar, að hún hefði drepið niður verðbólguna. Það var í þjóðarsáttinni svokölluðu sem verðbólgan var drepin niður og síðasta ríkisstjórn naut ávaxtanna af þeim samningum. Ég vildi koma þessu að svo að rétt sé með farið.

Hins vegar vil ég endurtaka það og reyndar taka undir það sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði að þessi umræða um góðærið í sjávarútvegi er allsendis ótímabær því að auk þess að það er ekki vissa um hvað veiðiheimildir verða auknar á næsta hausti, þá er sýnt t.d. að það verður að skera niður veiðiheimildir í grálúðu á móti þannig að menn vita ekkert hvernig þessi mynd mun líta út á hausti komanda.