Iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 14:10:48 (5151)

1996-04-23 14:10:48# 120. lþ. 125.91 fundur 265#B iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[14:10]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur fyrir þessa umræðu sem er mjög þörf og ég held að hv. Alþingi geti ekki komist hjá að hlusta á aðvörðun Samtaka iðnaðarins. Það er greinilegt ef litið er aftur í söguna að reglulega á 5--7 ára ferli rústar sjávarútvegurinn iðnaði sem er byggður upp þess á milli. Þetta er þjóðinni óheyrilega dýrt og við verðum að hugsa til nokkurra áratuga fram í tímann við lausn á þessum vanda. Þetta er ekki spurning um það hvað við gerum í haust eða fyrir áramót. Þetta er spurning um það hvað við gerum næsta áratug.

Spurningin er: Hvernig er best að geyma þessa sveiflujöfnun í sjávarútveginum sem kemur reglulega? Ég er ekki sammála því að það sé best að gera það með auðlindaskatti eða veiðileyfagjaldi, að minnsta kosti ekki ef hugmyndin er sú að það fari í gegnum ríkið. Reynsla okkar af ríkinu og því sjóðakerfi og sjóðasukki sem þar hefur viðgengist er sú að það er engin sveiflujöfnun þar, heldur öfugt. Það er eyðsla. Það er fljótasta leiðin til að eyða peningunum. Það sem þarf að gera er að úthugsa önnur kerfi, t.d. á eignarhaldi kvótans, t.d. að þjóðin öll eigi þetta eins og stendur reyndar í lögunum um fiskveiðar og líka það að ríkissjóður minnki hallann í alvöru þegar góðæri kemur, þ.e. að taka lán innan lands í staðinn fyrir erlendis til að eyða upp þeim fjármunum sem koma inn í landið og valda þenslu og drepa iðnaðinn. Þetta er mikilvægt og menn þurfa endilega að horfa mörg ár fram í tímann, áratugi.