Iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 14:19:42 (5155)

1996-04-23 14:19:42# 120. lþ. 125.91 fundur 265#B iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[14:19]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Málshefjandi, hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, og fleiri hv. þm. hafa nálgast umræðuna út frá því að nauðsynlegt sé að jafna aðstæður milli þessara tveggja atvinnugreina, iðnaðarins og sjávarútvegsins. Þegar menn horfa á árin 1995 og 1996 og bera saman afkomuna í sjávarútveginum og afkomuna í iðnaðinum sjá menn að afkoman í iðnaðinum er betri en í sjávarútvegi. Þá spyr ég á móti hvort eigi að skattleggja iðnaðinn til að jafna þessa samkeppnisaðstöðu. Því miður stenst þessi umræða hjá hv. þm. ekki. Það er ekki endilega þar með sagt að hægt sé að jafna þessa samkeppnisaðstöðu bara með sveiflujöfnun einni saman. Það hljóta að vera hin almennu skilyrði sem þar ráða mestu. Forgangsverkefni fyrir sjávarútveginn eru núna að byggja upp fiskstofnana og greiða niður skuldir sínar. Með þeim hætti mun okkur takast að tryggja sjávarútveginum sambærileg skilyrði og iðnaðurinn í landinu býr við í dag. Það er ekki hætta á því, hv. þm., að þarna sé að hallast á við þær aðstæður sem núna eru. Forgangsverkefnið er að við getum látið fyrirtækin blómstra, að þau skili hagnaði, að það sé góð afkoma í fyrirtækjunum, þau nái að fjárfesta og nái þannig að fjölga störfum. Það gerum við ekki með því að leita bara leiða til að skattleggja fyrirtækin. Við þurfum aukna fjárfestingu inn í fyrirtækin til að þau stækki og skapi fleirum störf. Skilaboð til iðnaðarins eru þessi: Þessi ríkisstjórn ætlar að verja stöðugleikann. Hún ætlar að halda lágu verðbólgustigi. Hún ætlar að lækka vexti. Hún ætlar að tryggja góða afkomu fyrirtækjanna. Skilaboðin til launafólksins eru líka þau að kaupmátturinn mun aukast við þessi skilyrði eins og hefur verið að eiga sér stað á undanförnum mánuðum og missirum. Með þessu náum við að lækka erlendar skuldir.