Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 16:11:30 (5161)

1996-04-23 16:11:30# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[16:11]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Utanríkismál hafa sífellt orðið mikilvægari á umliðnum árum í ljósi þess að þróunin í alþjóðaviðskiptum hefur æ meiri þýðingu fyrir efnahag og atvinnuuppbyggingu íslensku þjóðarinnar. Það er líka rétt sem fram kom í ræðu hæstv. utanrrh. að utanríkismálin verða ekki aðskilin frá innanríkismálum en þróunin í alþjóðlegum viðskiptum hefur æ meiri þýðingu fyrir afkomu íslensku þjóðarinnar og áhrifa á aukin samskipti gætir í vaxandi mæli á flestum sviðum umhverfis- og ferðamála svo og mennta-, menningar-, félags- og heilbrigðismála. Þess vegna skiptir máli að ráðamenn horfi á málin í því ljósi að við erum hluti af samfélagi þjóðanna og það leiðir ekki til farsældar fyrir þjóðina að líta ekki með víðsýni og raunsæi á þróunina í hinu alþjóðlega umhverfi þannig að íslenska þjóðin verði eðlilegur þátttakandi í hinni öru þróun á alþjóðavettvangi. Hins vegar hljótum við alltaf í því sambandi að varðveita sjálfstæði, sérkenni og sérstöðu íslensku þjóðarinnar og missa aldrei sjónar á þeim hagsmunum sem felast í varðveislu og vernd okkar auðlinda.

Herra forseti. Flestir viðurkenna að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur verið mjög mikilvægur fyrir íslensku þjóðina, ekki síst atvinnulífið. Hafa m.a. forsvarsmenn iðnaðarins nýlega fjallað um það mál og hve mikla þýðingu samningurinn hefur haft fyrir uppbyggingu iðnaðarins í landinu. Ég sakna þess í skýrslu hæstv. ráðherra að ekki er fjallað meira en raun ber vitni um áhrif samningsins á íslenskt atvinnulíf og ekki síður hvernig hann metur þær breytingar sem hafa orðið á gildi samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og umgjörð hans eftir inngöngu nokkurra aðildarþjóða EES í Evrópubandalagið. Væri æskilegt í þessari umræðu að fá fram mat hæstv. ráðherra á þessu máli. Fyrir okkur eins og aðrar þjóðir skiptir miklu hver verður niðurstaða þeirrar ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins sem nýlega er hafin. Áhrifin af hugsanlegri stækkun bandalagsins til austurs hefur þar mikla þýðingu en Evrópubandalagið stendur frammi fyrir mörgum umsóknum um aðild frá ríkjum með mjög bágborinn efnahag og lífskjör. Þátttaka þessara þjóða að óbreyttu styrkjakerfi skiptir verulegu máli fyrir fjárhag sambandsins en styrkjakerfið, sérstaklega til landbúnaðarins, hefur verið Evrópusambandinu mjög þungt fjárhagslega. Miklu stærri hluti vinnuaflsins í Mið- og Austur-Evrópu vinnur við landbúnað eða um 25% vinnuaflsins á móti 6% innan núverandi aðildarríkja Evrópusambandsins þannig að niðurstaðan gæti orðið sú, breyti bandalagið ekki styrkjakerfinu, að aðild Mið- og Austur-Evrópuþjóða gerist í áföngum og með ákveðinni aðlögun. Það hlýtur líka að vera okkur Íslendingum mikið áhyggjuefni hvaða áhrif það hefur fyrir samkeppnishæfni í okkar sjávarútvegi hve þungt styrkir í okkar samkeppnislöndum vega, bæði innan ESB og eins í Noregi og hvað þeir skekkja samkeppnisstöðuna í okkar atvinnulífi. Væri fróðlegt að fá fram hjá hæstv. utanrrh. hvert hans mat er á því hvað hægt er að gera sérstaklega í íslenskum sjávarútvegi til að styrkja samkeppnishæfni hans gagnvart öflugu styrkjakerfi þeirra þjóða sem við erum í mikilli samkeppni við.

Varðandi ríkjaráðstefnuna verður líka athyglisvert fyrir okkur að fylgjast með hvort breytingar verða varðandi neitunarvald og atkvæðavægi en það skiptir miklu máli fyrir okkur hvort dregið verði úr rétti aðildarríkja til að beita neitunarvaldi og hvort ákvarðanir verða teknar sem frekari áhrif hafa á hlutverk og sjálfstæði þjóðþinga.

Ég fagna því sem kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. að hann hafi lagt ríka áherslu á það að efla pólitískt samráð milli EES og ESB og að EFTA-ríkjunum verði gert kleift að fylgjast vel með þróun ríkjaráðstefnunnar og gefinn kostur á að koma sjónarmiðum þar að og að haldnir verði mánaðarlegir sérstakir upplýsingafundir með fulltrúum EFTA-ríkjanna á meðan ríkjaráðstefnan stendur yfir.

Virðulegi forseti. Ég hefði talið æskilegra að hæstv. ráðherra, sem ber þessa skýrslu fram, væri viðstaddur þessa umræðu og hlýddi á mál mitt því ég hef nokkrar spurningar að leggja fyrir ráðherrann og geri mér ekki grein fyrir því hvort hann heyrir mál mitt í þessum hliðarsal.

Ég var að víkja að því, virðulegi ráðherra, að fram kom í skýrslunni að utanrrh. hefur lagt ríka áherslu á að efla pólitíska samráðið milli EES og ESB. Það er komið fram að okkur er gefinn kostur á að koma sjónarmiðum þar að og haldnir verða mánaðarlegir sérstakir upplýsingafundir með fulltrúum EFTA-ríkjanna á meðan ríkjaráðstefnan stendur yfir.

[16:15]

Það kom jafnframt fram hjá hæstv. ráðherra að hann mundi hvenær sem færi gæfist ræða sjónarmið Íslands beint við starfsbræður sína í aðildarríkjunum. Það væri fróðlegt og raunar nauðsynlegt að heyra nánar hjá hæstv. utanrrh. hverjar þær áherslur eru sem hann mun leggja í þessum viðræðum og á þessum sérstöku upplýsingafundum sem halda á mánaðarlega meðan ríkjaráðstefnan stendur yfir. Ég hefði talið eðlilegt að Alþingi fjallaði sérstaklega um hvaða áherslur á að leggja á þessum fundum eða a.m.k. að utanrmn. fjallaði um málið þannig að hæstv. utanrrh. hefði veganesti frá þinginu eða utanrmn. um hvaða áherslur Ísland á að leggja á þessum upplýsingafundum. Vil ég spyrja hæstv. utanrrh. um það mál í fyrsta lagi hvort að þær áherslur sem á að leggja hafi verið ræddar í ríkisstjórn og þá hverjar þær eru og í annan stað hvort að hann teldi ekki eðlilegt að um málið yrði fjallað sérstaklega á Alþingi, a.m.k. í hv. utanrmn. þannig að ráðherrann hefði veganesti um hvaða áherslu þingið og utanrmn. vill leggja í þessu máli.

Það er athyglisvert í skýrslu hæstv. ráðherra að svo virðist vera að nokkuð örli á nýjum tóni varðandi aðild Íslands að ESB en þar kemur orðrétt fram, með leyfi forseta:

,,Aðild að ESB hefur ekki verið útilokuð af Íslands hálfu. En af henni getur aldrei orðið án þess að mikilvægustu hagsmunir okkar séu tryggðir, ekki síst á sviði sjávarútvegsmála.``

Mér finnst að hér komi fram ný nálgun í málinu, önnur heldur en hjá hæstv. forsrh. Það hlýtur að þjóna hagsmunum íslensku þjóðarinnar hverju sinni að fylgjast vel með þróuninni sem verður t.d. nú eftir ríkjaráðstefnuna og við eigum að vera reiðubúin að endurmeta stöðuna í ljósi breyttra aðstæðna hverju sinni. Þannig skil ég a.m.k. orð hæstv. utanrrh.

Annað var einnig athyglisvert í ræðu hæstv. ráðherra. Orðrétt segir í skýrslu hans: ,,Ísland hefur jafnframt gerst að aðili að yfirlýsingum og málflutningi ESB um utanríkispólitísk málefni á alþjóðavettvangi.`` Það er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra skýri þetta nokkuð nánar og hvort lesa megi ú þessu að Ísland sé orðinn aðili að utanríkispólitískri stefnu ESB á alþjóðavettvangi, en um sameiginlega utanríkis- og öryggismálastefnu ESB kemur fram í skýrslu hæstv. ráðherra að á ríkjaráðstefnunni muni aðildarríkin reyna að móta ítarlegra fyrirkomulag sameiginlegrar ákvarðanatöku um utanríkis- og öryggismálastefnu.

Herra forseti. Ég er sammála því sem fram kom í máli hæstv. utanrrh. að ekki sé tímabært að hugleiða fulla aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu á meðan framtíðarstaða þess liggur ekki skýrt fyrir. Ég tel einnig rétt að hagsmunir okkar liggi í því að tryggja eigi áframhaldandi sjálfstæði Vestur-Evrópusambandsins þannig að það ásamt veru okkar í Atlantshafsbandalaginu verði áfram meginstoð okkar í varnar- og öryggismálum. Stækkun NATO hefur líka mikla þýðingu fyrir varnarmátt bandalagsins og öryggishagsmuni aðildarþjóðanna. Þess vegna er mikilvægt að vel takist til og að stækkunin verði til þess að efla öryggi í Evrópu.

Árás Ísraelsmanna á varðstöð Sameinuðu þjóðanna sem kostaði 100 flóttamenn lífið og fjöldi manna særðist er skelfileg enda hefur hún verið fordæmd víða um heim, m.a. af ríkisstjórn Íslands. Þessi voðaatburður segir okkur að friðurinn sem hefur verið í Austurlöndum nær hefur ekki verið byggður á nægjanlega traustum grunni. Það er mikilvægt eins og fram kom í umræðunum í gær, að það verði rætt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og að Ísland leggi þar sem annars staðar sitt af mörkum til að friði verði komið á á nýjan leik. Þó að þessi harmleikur segi okkur að friðarumleitan í heiminum eigi í vök að verjast þá er það vissulega ánægjulegt hvernig endurreisnarstarfið hefur gengið í Bosníu. Framlag íslensku þjóðarinnar til friðarstarfsins er einnig mjög jákvætt, bæði þátttaka okkar í friðaraðgerðum á vegum Atlantshafsbandalagsins sem og nokkuð myndarlegt fjárframlag til uppbyggingarinnar sem ástæða er til að fá fram hvernig á að ráðstafa. Þetta framlag breytir því þó ekki að íslenska þjóðin ver skammarlega litlu til þróunarmála. Flestar vestrænar þjóðir leggja mun meira en við til þróunarmála. Um það á að geta náðst samkomulag hér á landi að verja meira fjármagni til þróunaraðstoðar því ætla má að þvert á flokkspólitík ætti að vera hægt að ná samstöðu um það að auka verulega aðstoð okkar og framlög til þróunarmála. Þessi mál komu nokkuð til umræðu í utanrmn. í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár, en þar er einmitt minnt á það af nefndarmönnum utanrmn., að vorið 1985 samþykkti Alþingi þingsályktun þess efnis að Íslendingar skyldu á næstu sjö árum þar á eftir ná því marki að verja 0,7% af vergri landsframleiðslu til þróunaraðstoðar á hverju ári. Það kemur fram í áliti utanrmn. að langt er í land að þetta markmið náist. Ég hygg því að það sé pólitísk samstaða um það og vænti að það verði a.m.k. reynt við næstu fjárlagagerð að auka framlag okkar til þróunaraðstoðar. En það er vissulega ástæða til að meta það sem vel hefur verið gert, m.a. það sem hæstv. utanrrh. nefnir um Þróunarsamvinnustofnun Íslands sem stendur fyrir rannsóknum á fiskstofnum þróunarlandanna og lífríki hafsins og hins vegar að fræðslu- og menntamálum í sjávarútvegi.

Alls staðar og hvar sem því verður við komið eigum við Íslendingar líka að gera okkur gildandi þar sem mannréttindi eru fótum troðin eins og víða er um heim, þrátt fyrir ýmsar alþjóðasamþykktir og samninga gegn mannréttindabrotum. Þó Ísland sé smáþjóð þá erum við hluti af samfélagi þjóðanna og erum þar jafnrétthá öðrum þjóðum. Mannréttindabrot hvar sem er í heiminum koma okkur við og við eigum að láta í okkur heyra hvar sem mannréttindi fólks eru fótum troðin. Samtakamáttur þjóða er oft eina von þeirra sem líða vegna þeirra og getur komið ýmsu til leiðar til að vinna gegn mannréttindabrotum og þar megum við hvergi láta neins ófreistað til að leggja okkar lóð á vogarskálar mannréttinda í heiminum.

Herra forseti. Ég vil næst víkja nokkrum orðum að því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra um Alþjóðaviðskiptastofnunina. Þar fjallar ráðherrann um það að nokkur þrýstingur sé um aukið frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarvörur og segir síðan orðrétt, með leyfi forseta:

,,Með Alþjóðaviðskiptastofnuninni styrkist staða þróunarríkja í alþjóðaviðskiptum en opnun markaða er haldbesta þróunarhjálpin.``

Opnun markaða er haldbesta þróunarhjálpin, segir hæstv. utanrrh. Það finnst mér ganga í raun þvert á ýmis ákvæði GATT-samkomulagsins sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir að hafa markaðinn hér sem mest lokaðan gagnvart viðskiptum með landbúnaðarvörur. Það gefur tilefni til að hæstv. ráðherra geri Alþingi betri grein fyrir þessari þversögn í málflutningi, annars vegar þegar Ísland á í hlut og hins vegar þeirri skoðun hans að besta ráðið til að styrkja stöðu þróunarríkja í alþjóðaviðskiptum sé opnun markaða. Um það spyr ég hæstv. ráðherra.

Herra forseti. Í fiskveiði- og hafréttarmálum eru Íslendingar vissulega í hópi þeirra þjóða sem mestra hagsmuna hafa að gæta í að auðlindir sjávar séu nýttar af skynsemi og eðlilegri verndun og ábyrgri stjórn fiskstofnanna. Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna er okkur mjög mikilvægur og niðurstaða sem varð á úthafsráðstefnunni á síðasta ári. En aldrei verða nógsamlega undirstrikaðir mikilvægir alþjóðasamningar bæði um verndun og skynsamlega stjórn fiskstofnanna og ekki síður samningar sem treysta betur verndun gegn mengun sjávar sem lífsbjörg þjóðarinnar byggist á. Þar megum við hvergi og aldrei gefa eftir í baráttu okkar gegn mengun í hafinu. Það er kannski stærsta umhverfismálið til að tryggja hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Umhverfismálin spanna vissulega mjög breitt svið og það hlýtur að vera okkur mikið áhyggjuefni að víða eru alþjóðlegir samningar um umhverfisvernd ekki haldnir og því mikilvægt að vinna að því bæði innan lands og á alþjóðavettvangi að tryggja að þessi sameiginlegu hagsmunamál þjóða heims verði ávallt í fyrirrúmi.

Hæstv. utanrrh. fór stuttlega inn á umhverfis- og orkumál í skýrslu sinni og vísaði til þess að með samningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar skuldbinda aðildarríki sig til þess að draga úr útblæstri ýmissa lofttegunda en það er mjög mikilvægur þáttur í umhverfisvernd. Hæstv. ráðherra nefnir að meðal þeirra aðgerða sem aðrar þjóðir hyggjast grípa til sé sértakur skattur á eldsneyti og vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað sé fyrirhugað eða ætla megi að ríkisstjórnin leggi til að við tökum upp slíkan skatt hér á landi.

Það ber vissulega að harma að ekki hefur náðst niðurstaða um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum en nú stefnir í að veiðarnar fari verulega fram úr því sem talið er æskilegt til verndar stofninum vegna óbilgirni norskra stjórnvalda. Um er rætt að til að koma í veg fyrir það þurfi allir að gefa eftir, en fram hefur komið hjá hæstv. sjútvrh. og í þessari skýrslu hæstv. utanrrh. að íslensk stjórnvöld hafi lýst sig reiðubúin til þess ef aðrir geri það, að gera slíkt hið sama. Ég hafði vænst þess að hæstv. ráðherra gerði þinginu ítarlegri grein fyrir hvernig hann metur stöðu mála og hvenær vænta megi að ákvörðun liggi fyrir í þessu brýna hagsmunamáli íslensku þjóðarinnar.

Herra forseti. Fréttir hafa borist af því á síðustu dögum að þó nokkuð sé um það að ólöglegar veiðar séu stundaðar á Reykjaneshrygg og að Landhelgisgæslan láti sér einungis nægja að stugga við skipum sem staðin eru að ólöglegum veiðum. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. hvort aðgerðum Gæslunnar gegn þessum ólöglegu veiðum sé fylgt eftir með mótmælum til viðkomandi stjórnvalda. Það er vissulega ástæða til að hafa áhyggjur af þessari þróun og velta líka fyrir sér þeirri spurningu hvort Landhelgisgæsla okkar sé nægjanlega öflug til að taka með festu á ólöglegum veiðum erlendra fiskiskipa í fiskveiðilögsögu okkar eða hvort þarna komi til einhver fyrirmæli til Gæslunnar frá íslenskum stjórnvöldum. Um það spyr ég líka hæstv. ráðherra.

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. fjallaði nokkuð um afvopnunarmál í skýrslu sinni. Þar er þess getið að Ísland hafi stutt Alþjóða Rauða krossinn og Sameinuðu þjóðirnar í baráttunni við því að jarðsprengjur sem eru einn mesti ógnvaldur í daglegu lífi fólks í mörgum þróunarríkjum verði bannaðar en hv. síðasti ræðumaður kom reyndar inn á þetta efni. Rauði krossinn hefur unnið ötullega í þeirri baráttu og vakið athygli á þeim óhugnanlegu hroðaverkum sem unnin eru með jarðsprengjum víða um heim, en meira en 2.000 manns látast eða limlestast af völdum jarðsprengna í hverjum mánuði. Í flestum tilvikum er um að ræða óbreytta borgara á svæðum þar sem átökum er lokið. Talið er að meira en 110 millj. virkra jarðsprengna séu dreifðar um 64 lönd. Á það hefur einnig verið bent að fyrir hverja jarðsprengju sem gerð er óvirk eru 20 nýjar lagðar. Sérfræðingar telja að það mundi taka 1100 ár að hreinsa veröldina af jarðsprengjum að því gefnu að engar nýjar verði lagðar, sem sýnir hve gífurlega stórt þetta vandamál er. Rauði kross Íslands hefur vakið athygli utanrmn. Alþingis á baráttunni gegn framleiðslu og notkun jarðsprengna og óskað eftir því að ríkisstjórn og Alþingi taki frumkvæði í þessu efni og hvetji þær þjóðir sem ekki hafa fallist á bann við jarðsprengjum til þess að gera það. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. hvort að hann hafi hugleitt hvernig Ísland getur lagt sitt af mörkum í baráttunni gegn framleiðslu og notkun jarðsprengna og hvort hann styddi að Alþingi ályktaði í þessu máli um að taka frumkvæði á alþjóðavettvangi til að hvetja þjóðir sem ekki hafa fallist á bann við jarðsprengjum til þess að snúa við blaðinu, eins og Rauði kross Íslands hefur farið fram á og vænti ég að hæstv. ráðherra svari þeirri spurningu.

Herra forseti. Ég fagna því sem fram kemur í skýrslunni að hæstv. ráðherra ætlar að leggja stjtill. fram á Alþingi til staðfestingar að Ísland fullgildi samning um bann við efnavopnum en það tel ég mjög brýnt. Enn hafa aðeins 49 ríki fullgilt samninginn en 65 ríki þarf til þess að hann taki gildi. Ég hefði gjarnan viljað sjá að hæstv. ráðherra hefði lagt fram þessa tillögu á þessu þingi og spyr hæstv. ráðherra að því hvort svo verði.

[16:30]

Í annan stað af því að ég gat ekki verið viðstödd umræðuna í síðustu viku um þáltill. um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja vil ég nota þetta tækifæri og lýsa furðu minni á ummælum hæstv. ráðherra um þá tillögu. Yfirlýst stefna Alþingis er að hér á landi skuli ekki geyma kjarnavopn og því hefur margoft verið haldið fram að svo hafi aldrei verið. Því sætir það furðu að hæstv. utanrrh. skuli lýsa því yfir að samþykki Alþingi að Ísland verði kjarnorkuvopnalaust svæði væri eðlilegt að úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu fylgdi í kjölfarið. Ég verð að segja að ég hef sjaldan heyrt sérkennilegri röksemdir af hálfu utanrrh. íslensku íslensku þjóðarinnar.

Herra forseti. Í lokin vil ég fara nokkrum orðum um mjög mikilvægan þátt í skýrslu hæstv. ráðherra sem snertir útflutningsviðskiptamál og útflutningshvetjandi aðgerðir og fjárfestingar Íslendinga erlendis. Ég fagna því sem fram kemur hjá hæstv. ráðherra að í utanrrn. sé unnið að utflutningshvetjandi aðgerðum í samvinnu við íslenskt atvinnulíf. Það hefur sýnt sig að við eigum mikla möguleika á erlendum vettvangi til að auka markaðssetningu okkar, t.d. í sjávarútvegi og styrkja þar með verulega atvinnuuppbyggingu okkar. Ég hygg að hagvöxtur og atvinnuuppbygging eigi mikið undir því komið að vel takist til í því efni. Því vil ég lýsa ánægju minni með það ef hæstv. utanrrh. beitir sér fyrir markvissu átaki á þeim vettvangi.

Varðandi fjárfestingar Íslendinga erlendis sem nokkuð er vikið að þá liggur þegar fyrir að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa ráðist í mörg stórverkefni erlendis sem skilað hafa inn í landið verulegu fjármagni og ég vil fagna því að nú er verið að kanna hvernig stjórnvöld geta stutt við bakið á íslenskum fyrirtækjum erlendis. Við eigum að vera óhrædd við það og að sama skapi eigum við líka að taka því af raunsæi að fá erlenda fjárfestingu inn í landið. Hræðsluáróðurinn, sem rekinn var í tengslum við aðild okkar að EES-samningnum, hefur sýnt sig að vera óþarfur.

Ég nota þessar síðustu mínútur sem ég hef til að víkja nokkrum orðum að hvalveiðum. Fyrr á þessu þingi kom fram hjá hæstv. sjútvrh. í tilefni fyrirspurnar á Alþingi að hann stefndi að því að flytja tillögu til þingsályktunar um hvalamálið á grundvelli niðurstöðu nefndar sem falið var að gera tillögu um stefnu Íslendinga í hvalamálum. Niðurstaða nefndarinnar var einróma um stefnu Íslands í hvalamálum en þar var lögð áhersla á að halda beri fast við það sjónarmið að allar lifandi auðlindir sjávar séu nýtanlegar enda séu veiðar stundaðar á sjálfbæran hátt þannig að ekki sé farið fram úr veiðiþoli hvers stofns til langs tíma litið og eðlilegt sé að farið sé að öllu með gát og gætt heildarhagsmuna Íslands með tilliti til söðu landsins á alþjóðavettvangi, markaða fyrir hvalafurðir og áhrifa hvalveiða á aðra útflutningsmarkaði landsmanna. Jafnframt því kom fram í máli hæstv. sjútvrh. að hann stefndi að því að leggja fram tillögu til þál. í hvalamálinu innan ekki langs tíma en þetta var í nóvember sl., og sagði hæstv. ráðherra að það væri nauðsynleg að Alþingi tæki sjálft endanlega ákvörðun í málinu. En nú virðist hæstv. sjútvrh. hafa dregið í land í þessu efni og breytt um afstöðu og ber fyrir sig að ekki sé ráðlegt að hefja hvalveiðar fyrr en við sjáum fyrir endann á þeim alþjóðlegu fiskveiðideilum sem við eigum í. Af þessu tilefni vil ég spyrja hæstv. utanrrh. um afstöðu hans til þess að leyfa hvalveiðar ekki síst í ljósi þess sem fram kom hjá síðasta hv. ræðumanni, þ.e. jákvæðrar afstöðu Alþjóðaþingmannasambandsins í sl. viku til þessa máls og spyrja ráðherrann hæstv. um það hvort málið hafi verið rætt í ríkisstjórn og hvort sú afstaða sem sjútvrh. kemur nú fram með sé samhljóða afstöðu ríkisstjórnarinnar.

Ég vil í lokin þakka hæstv. ráðherra fyrir þá skýrslu sem hér er til umræðu og taka undir orð hæstv. utanrrh. að alþjóðlegt samstarf er nauðsynlegt til að tryggja tilveru okkar sem sjálfstæðrar þjóðar því að ákvarðanir á alþjóðavettvangi, hvort sem okkur líkar betur eða verr hafa áhrif á hagsmuni íslensku þjóðarinnar, atvinnuuppbyggingu og lífskjör.