Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 16:56:19 (5165)

1996-04-23 16:56:19# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SF
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[16:56]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Ég mun aðallega gera norrænt samstarf og tengsl norrænnar og evrópskrar samvinnu og Vestur-Evrópusambandið að umtalsefni enda hef ég starfað talsvert á þeim vettvangi. Hafa margir komið inn á þau mál hér og er það vel.

Nýlega voru gerðar talsverðar breytingar á norrænu samstarfi og hef ég heyrt að margir hafi áhyggjur af að það samstarf sé á fallandi fæti. Þær breytingar sem farið var í voru umdeilanlegar. Þær fólust aðallega í því að uppbygging nefnda Norðurlandaráðs var breytt úr því að vera fagnefndir í svokallaðar svæðanefndir. Menningarmálanefnd, fjárhagsnefnd, efnahagsnefnd o.s.frv., voru lagðar niður og í stað voru einungis þrjár nefndir skipaðar en þær eru: norræn nefnd, Evrópunefnd og nærsvæðanefnd. Önnur hápólitísk breyting var einnig gerð en hún var sú að samstarfið grundvallast ekki lengur á landsdeildum hvers lands fyrir sig heldur á grundvelli pólitískra flokkahópa. Þannig vinn ég t.d. í dag ekki að norrænum málum beint sem Íslendingur heldur sem miðjuflokkamanneskja. Það er mikil breyting. Það er ekki komin nein sérstök reynsla á þessa breytingu þannig að það er ekki tímabært að tjá sig strax um það hvort þetta var til bóta eða ekki. Annað stórt verkefni sem hefur einnig verið unnið nú á norrænum vettvangi er að það er búið að endurskoða starfsemi 47 samnorrænna stofnana og það var gert til þess að reyna að nýta fjármagn með öðrum hætti, þ.e. að endurnýja það og koma því í meira lifandi samstarf. Þetta samstarf er því alls ekki dautt, eins og sumir hafa viljað halda fram, heldur er þetta lifandi samstarf að mínu mati.

Sumir sem gagnrýna norrænt samstarf telja það vera mikið pappírsflóð og vera okkur mjög dýrt. Ég get ekki tekið undir það. Að vísu er auðvitað talsvert um pappír þar eins og hér í þessum sölum en það er okkur ekki dýrt þetta samstarf, við borgum einungis 1% af rekstri Norðurlandaráðs, mun minna en við fáum til baka. Það er því alrangt að við séum peningalega að tapa á norrænu samstarfi. Auðvitað erum við ekki að þessu peninganna vegna. En svo sannarlega töpum við ekki heldur á því peningalega. Við stórgræðum á því menningarlega, menntunarlega og að öllu leyti.

Eins og kom fram hjá hæstv. utanrrh. og allir vita, er okkur öllum það mjög mikilvægt að hafa áhrif á Evrópusambandið. Þótt þau áhrif verði að sjálfsögu ekki mikil við núverandi aðstæður getum við haft ýmis áhrif svo sem með áhrifum í gegnum norræna samvinnu. Mig langar einmitt að gera það að umtalsefni hér að nýlega var haldin ráðstefna á norrænum vettvangi eða á vegum Norðurlandaráðs um Evrópumálin. Þar gafst norrænum stjórnmálamönnum tækifæri til samráðs um Evrópumál og að skerpa þær samnorrænu pólitísku áherslur sem þeir telja að komi framtíð Evrópu til góða. Á ráðstefnunni komu fram hvaða áherslur og væntingar Norðurlöndin hafa til ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins sem er nýhafin í Torino á Ítalíu. Það má segja það hér til gamans að Norðmenn fjölmenntu á þessa ráðstefnu sem haldin var í Kaupmannahöfn, það voru u.þ.b. 100 embættismenn á ráðstefnunni og þar af voru 45 norskir. Þannig að Norðmenn eru greinilega úti með allar klær til þess að hafa áhrif á Evrópumálin óbeint. (Gripið fram í: Hvað voru margir íslenskir?) Þarna voru tíu ráðherrar frá Noregi ásamt Gro Harlem Brundtland. Það var því mjög áberandi hvað Norðmenn mættu með mikinn flota þarna.

[17:00]

Meginverkefni ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins er að finna út hvernig sambandið getur orðið skilvirkara, lýðræðislegra og með hvaða hætti standa skuli að stækkun sambandsins. Nú þegar hafa um 13 lönd sótt formlega um aðild og bíða óþreyjufull eftir því að komast inn í sambandið. Flest þeirra eru austantjaldsríki en núverandi stjórnskipulag Evrópusambandsins þjónar um 15 ríkjum. Það að aðildarríkjum gæti fjölgað um helming á næstu árum krefst þess að sjálfsögðu að endurskipuleggja þarf allt ákvarðanaferli og stofnanaskipulag sambandsins.

Ljóst er að allar meiri háttar breytingar á starfsemi og uppbyggingu sambandsins munu hafa áhrif á ytri samskipti þess, svo ekki sé minnst á EES-samninginn og alla þá þætti ESB sem hafa bein áhrif á framkvæmd þess samnings. Öll ný aðildarríki að Evrópusambandinu munu verða sjálfkrafa aðilar að EES. Stækkunin skiptir því verulegu máli fyrir okkur Íslendinga, bæði pólitískt og viðskiptalega. Ríki Evrópu hafa pólitíska, efnahagslega og öryggislega hagsmuni af því að austantjaldsríkin gerist aðilar að Evrópusambandinu. Útvíkkun Evrópusambandsins gæti styrkt lýðræðisþróun þessara landa. Þátttaka þeirra gæti einnig skapað efnahagslegan vöxt og aukin viðskipti í Evrópu. Öll þessi framangreind atriði auka að sjálfsögðu stöðugleika í öryggismálum álfunnar. Stækkun Evrópusambandsins mun einnig leiða til aukinnar samvinnu um umhverfismál og Norðurlöndin munu ýta mjög á um að slík samvinna verði mjög ofarlega á forgangslista Evrópusambandsins. Við inngöngu austantjaldsríkjanna í sambandið verður mun auðveldara að taka fastar á umhverfismálunum en eins og við öll vitum þá eiga þessi ríki við veruleg umhverfisvandamál að stríða, m.a. vegna úrelts iðnaðar sem spillir umhverfi Evrópu.

Þar sem það er ljóst að ríkjaráðstefnan getur og mun væntanlega leiða til þess að Evrópusambandið breytist langar mig við þetta tækifæri að beina spurningu til hæstv. utanrrh. Segjum sem svo að ríkjaráðstefnan verði til þess að Evrópusambandið breytist þannig að okkur finnist það vera álitlegri kostur en í dag að sækja um aðild. Hvað telur hæstv. ráðherra að það taki langan tíma að undirbúa aðildarumsókn? Ég vona að hæstv. ráðherra geti svarað sæmilega nákvæmlega, svarið verði ekki að það taki svona talsverðan tíma heldur að tímasetning verði nákvæmari. Mér finnst mjög mikilvægt að álit hæstv. ráðherra á þessu komi fram. Ég gluggaði í nýlegt Morgunblaðsviðtal við hæstv. forsrh. Eftir að hafa lesið það viðtal tel ég að núverandi hæstv. utanrrh. sé mun jákvæðari gagnvart Evrópumálunum en hæstv. forsrh.

Í tengslum við ríkjaráðstefnuna þurfum við að sjálfsögðu að hafa nokkrar áhyggjur af Vestur-Evrópusambandinu og stöðu þess. Nýlega bað Norðurlandaráð prófessor Nikolaj Petersen, sem er prófessor við Árósarháskóla, að fara yfir gögn Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands sem þau hafa lagt fram fyrir ríkjaráðstefnuna og bera saman hvað væri sameiginlegt og hvað ekki í óskum þessara Norðurlanda sem eru aðilar að ESB. Hann segir í úttekt sinni að þegar öryggismál eru skoðuð sé ljóst að ekkert norrænna landa vilji á þessum tímapunkti gerast gildur aðili að Vestur-Evrópusambandinu og þetta kom einmitt mjög vel fram í máli hæstv. ráðherra. Það er því ekki við því að búast að nokkurt norrænt land muni styðja tillögu um að Vestur-Evrópusambandið yrði innlimað í ESB eins og sum önnur lönd vilja, t.d. Þýskaland. Bretar hafa stutt okkar sjónarmið um að Vestur-Evrópusambandið eigi að halda sjálfstæði sínu og Norðmenn hafa einnig gert það. Ef Vestur-Evrópusambandið yrði innlimað í Evrópusambandið yrði okkar staða að sjálfsögðu mjög óljós þar sem við erum ekki fullgildir aðilar að Vestur-Evrópusambandinu. Það er okkur því mjög mikilvægt að tryggja sjálfstæði Vestur-Evrópusambandsins.

Að mínu mati er mjög nauðsynlegt að við Íslendingar stöndum okkur vel í því að fylgjast með og reyna að hafa áhrif á þróun mála í Evrópu. Við Íslendingar erum að sjálfsögðu mjög fáir og við höfum fáa stjórnmálamenn og embættismenn sem sinna Evrópusamstarfi. Því er okkur mjög nauðsynlegt að þeir fáu sem vinna að þessum málum vinni þétt saman og af því tilefni höfum við hv. þm. Tómas Ingi Olrich beitt okkur fyrir því að þessir aðilar komi saman og ræði þau málefni sem eru okkur mikilvæg gagnvart t.d. ríkjaráðstefnunni. Einnig hafa komið upp hugmyndir um að t.d. utanrmn., Íslandsdeild Norðurlandaráðs, EFTA-nefndin, Evrópuráðsnefndin og NATO-nefndin ættu að hittast og fara sérstaklega yfir þessi mál, líka til að skiptast á upplýsingum um þau atriði sem við höfum aflað á erlendum vettvangi. Þau atriði sem sérstaklega þyrfti að ræða í slíku sambandi eru hagsmunir sem snúa beint að Íslandi á ríkjaráðstefnunni. Þar vil ég nefna að það er brýnt að það takist að stækka Evrópusambandið til þess að auka öryggi í Evrópu og að umhverfismálum verði betur skipað í framtíðinni eins og ég hef áður minnst á.

Nýlega skrifaði utanrrh. undir fimm ára samning eða samkomulag fyrir okkar hönd við bandarísk stjórnvöld um framkvæmd varnarsamningsins. Tel ég að hér sé um mjög ásættanlegan samning að ræða fyrir okkur Íslendinga og tel að hæstv. utanrrh. sé fullsæmdur af því að hafa staðið að þessu samkomulagi. Kostir þessa samnings eru að hann er til langs tíma, eða til fimm ára. Hann er lengri en síðasta samkomulag. Hann tryggir varnir landsins en varnarviðbúnaður er óbreyttur. Þar sem í samkomulaginu felst að einkaréttur Íslenskra aðalverktaka og Keflavíkurverktaka á framkvæmdum fyrir varnarliðið verður afnuminn árið 2004, vil ég að það komið fram að ég tel mjög brýnt að hugað verði vel að atvinnumálum á Suðurnesjum. Þar hefur ýmislegt mjög jákvætt verið að gerast og vil ég nefna hér að markaðs- og atvinnumálaskrifstofan á Suðurnesjum hefur ýmislegt mjög áhugavert á prjónunum og það er gaman að sjá hvað það er mikill vöxtur í þeirri skrifstofu.

Varðandi Schengen vil ég segja að ég er jákvæð gagnvart því að skoða aðild að Schengen-samkomulaginu þar sem um löggæslu og landamæraeftirlit er að ræða. Með aðild að Schengen munum við viðhalda eðli norrænu vegabréfasamvinnunnar og útvíkka hana til aðildarlanda Schengen. Fram hafa komið margir kostir þess að taka þátt í Schengen-samstarfinu. Ég mun ekki tíunda þá kosti frekar hérna en það er alveg ljóst að Schengen-samstarfið mun kosta okkur talsverða fjármuni, þ.e. vegna uppbyggingar á Keflavíkurflugvelli. Það er búið að reikna það út að uppbyggingin þar muni kosta um 400 millj. kr. og af þeirri upphæð eru 250 millj. kr. vegna Schengen en 150 millj. kr. vegna aukins álags í flugi almennt séð, án Schengen. Hér hefur það komið fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að ég hafi tjáð mig öðruvísi í þessu máli og það er alveg rétt. Fyrst í stað var reiknað með að þetta mundi kosta um milljarð. Það fannst mér mjög há upphæð. Það er alveg ljóst að ef við förum í Schengen munum við auðvitað taka ákveðinn þunga af öðrum löndum í Schengen gagnvart eftirliti. Ef þetta hefði kostað milljarð væri alveg réttlætanlegt að athuga hvort önnur ríki vildu koma eitthvað að þessu máli með fjármögnun, t.d. Norðurlöndin. Það hef ég sagt opinberlega. Hins vegar þarf ekki að koma til þess í dag þar sem um mun lægri upphæð er að ræða, eða 150 millj. kr. Ég tel ekki ástæðu til þess að við skoðum það neitt frekar hvort aðrir mundu vilja koma að þessu máli vegna þess hve upphæðin er má segja lág miðað við fyrstu tölur.