Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 17:11:14 (5166)

1996-04-23 17:11:14# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[17:11]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var bæði fróðleg og skemmtileg ræða hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur. Það vakti sérstaka ánægju hjá mér að hún vakti eftirtekt á því að hæstv. utanrrh. er miklu frjálslyndari en hæstv. forsrh. þegar kemur að málefnum Evrópusambandsins. Er það rangt skilið hjá mér að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hafi í rauninni verið að snupra hæstv. forsrh. sökum þeirra afturhaldssjónarmiða sem öll þjóðin veit að hann hefur gagnvart Evrópusambandinu?

Í annan stað, herra forseti, fýsir mig að vita afstöðu hv. þm. til Evrópusambandsins. Hún flutti hér langt mál og nokkuð gott um það hversu jákvætt það væri fyrir öryggi í Evrópu og fyrir umhverfismál í Evrópu að Evrópusambandið stækkaði. Hún vill sem flestar Evrópuþjóðir í ESB. Þýðir það, hv. þm., að hún telur tímabært að Íslendingar láti á það reyna, eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði áðan, hvað er í boði? Í þriðja lagi, herra forseti, hjó ég eftir því og fannst merkilegt að heyra að hv. þm. er afskaplega vel heima um það hversu margir Norðmenn sækja ráðstefnuna í Torino. Þar er ekki bara Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs, heldur níu aðrir ráðherrar. Þar eru 100 embættismenn en hún gat þess ekki að þar væri nokkur Íslendingur og þess vegna langar mig til þess að vita, herra forseti, hvort hv. þm. Siv Friðleifsdóttir telur að Íslendingar og þá hæstv. utanrrh. sinni því ekki nægilega vel að fylgjast með framvindu umræðunnar á ríkjaráðstefnunni.