Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 17:18:01 (5169)

1996-04-23 17:18:01# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[17:18]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var svolítið þversögn í lok fyrra andsvars sem ekki er mitt að leiðrétta. Það er tvennt úr máli hv. frummælanda eða ræðumanns sem ég vildi gera að umtalsefni. Það er í fyrsta lagi það sem sagt var um herstöðvasamninginn við Bandaríkin, sem framlengdur var af hæstv. utanrrh. og ríkisstjórn til fimm ára, og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir taldi þetta góðan samning sem tryggði varnir landsins og hefði auk þess jákvæð áhrif á atvinnulíf á Suðurnesjum.

Í fyrsta lagi spyr ég hv. þm.: Tryggja varnir landsins gegn hverjum? Hver er óvinurinn? Í öðru lagi: Er hv. þm. sannfærður um að hersetan á Suðurnesjum hafi orðið atvinnulífi á því svæði til góðs og áframhaldandi hernaðarumsvif séu það sem fólk á Suðurnesjum þurfi helst á að halda?

Annar þáttur sem ég spyr um varðar Schengen-samstarfið. Hv. þm. virðist treysta nokkuð mikið á þá útreikninga sem voru síðast bornir fram um þetta efni þrátt fyrir fyrirvara um óvissu. Ég vek athygli á því að húsameistari ríkisins ritaði nýlega grein í DV, þann 26. mars, þar sem hann mótmælir áburði um það að embætti hans hafi verið ónákvæmt í útreikningum en það hafði reiknað út þennan milljarð sem hv. þm. nefndi að það kynni að kosta að greina á milli umferðarstraums farþega og aðskilja þá frá vegna Schengen-aðildar og bendir á að það hljóti að hafa verið breytt forsendum ef menn ætla að ná lægri útkomu. Ég tel því að hv. þm. geti ekki verið þess fullviss að þessi heildarkostnaður vegna Schengen-aðildar sé eitthvað nálægt því sem hæstv. utanrrh. hefur síðast reitt fram. Það vantar mikið á að það mál hafi verið skoðað. Það kann að vera að hv. þm. þurfi að taka upp betlistafinn á nýjan leik ef betur er reiknað og áætlanir eru betur grundaðar.