Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 17:26:35 (5173)

1996-04-23 17:26:35# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[17:26]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla að gera fyrst að umtalsefni form umræðunnar. Ég sakna þess að hér skuli ekki vera til umfjöllunar a.m.k. einu sinni á hverjum vetri ítarleg skýrsla utanrrh. þar sem farið er sæmilega efnislega yfir helstu þætti utanríkismála og unnt er að gera grein fyrir hlutum með ítarlegri og vandaðri hætti en hægt er í ræðutexta sem taka má ekki lengri tíma en 30 mínútur að flytja. Það liggur í hlutarins eðli að það verður lítið meira en efnisyfirlitið ef á að gera öllum helstu þáttum utanríkismála, átakasvæðum í heiminum, viðskiptamálum, utanríkisviðskiptum, samningum og öðru slíku einhver viðhlítandi skil. Þetta var leyst bærilega að mínu mati á árum áður í allmyndarlegum skýrslum sem utanrrh. lögðu fyrir þingið og voru oft brúkleg gögn. Hvort sem menn voru sammála einstökum áherslum sem þar komu fram eða ekki var yfirleitt miklar upplýsingar að finna um stöðu mála, gerð grein fyrir afstöðu okkar, þátttöku í helstu alþjóðastofnunum o.s.frv. Ég tel tvímælalausa afturför að umræðan skuli nú byggja á þessu þó að ræður sem slíkar geti verið góðra gjalda verðar og ágætar, eru það ekki endilega eins og þetta dæmi sannar, stundum býsna innihaldslausar jafnvel þó að það taki 30 mínútur að flytja þær. En ég mælist eindregið til þess að hæstv. forseti og forustan í þinginu ræði þau mál við hæstv. ráðherra á komandi þingum að horfið verði til fyrra horfs í þessum efnum.

Í öðru lagi um aðstæður almennt í alþjóðamálum, þá skiptast þar eins og oft áður á skin og skúrir. Það er vissulega svo að ýmislegt hefur þróast í jákvæða átt og margt mjög svo á sl. 5--10 árum. Flestir fagna breytingum í Evrópu, falli járntjaldsins og einhverri von um lýðræðislegri stjórnunarhætti í austanverðri álfunni. Menn fagna þeim viðamiklu afvopnunarsamningum, sem tekist hafa milli stórveldanna, og menn fagna alþjóðlegum samningum um framlagningu samnings um bann við frekari útbreiðslu kjarnavopna og öðru slíku sem telst til hinna jákvæðu tíðinda í heimsmálunum. Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því horft að það er afar vafasamt að unnt sé að kalla heiminn að öllu leyti öruggari í dag en hann var fyrir 10 árum þrátt fyrir þetta, því miður. Því valda mikil svæðisbundin átök, því veldur uppgangur ýmiss konar öfgahreyfinga og því valda ýmsar fleiri aðstæður sem gera það að verkum að ástandið er víða viðsjárvert og á það erum við m.a. minnt harkalega þessa dagana.

Ég ætla að fara nokkrum orðum um stöðu mála í austanverðri Evrópu eins og fleiri ræðumenn hafa gert og hæstv. ráðherra lítillega í ræðu sinni. Ég held að mál séu þar að mörgu leyti miklu viðsjárverðari en menn hafa almennt viljað vera láta.

[17:30]

Hlutir eins og stækkun Evrópusambandsins til austurs og stækkun Atlantshafsbandalagsins eru settir með jákvæðum formerkjum og sumir setja nánast engin spurningarmerki við að framgangur í þá veru hljóti að vera einhliða í rétta átt. Ég held að hér þurfi menn að vanda sig mjög og rasa ekki um ráð fram bæði hvað það snertir að vekja ekki með ríkjunum um austanverða Evrópu óraunhæfar væntingar og vonir um að þeirra vandamál verði leyst á einu bretti með þessum hætti. Það mun ekki gerast þannig. Að hinu leytinu til verða menn að passa það enn þá frekar að búa ekki til forsendur sem fela í sér nýja skiptingu Evrópu. Það getur hver maður sem fer og reynir að setja sig inn í aðstæður á þessum svæðum --- ræðumaður var m.a. í Litáen fyrir nokkrum dögum síðan og reyndi aðeins að átta sig á hvernig landið lá þar --- skynjað hættuna á því að til komi ný skipting Evrópu og jafnvel hatrammari hinni fyrri ef illa tekst til. Þá er ég í grófum dráttum að tala um evrópskt/slavneskt járntjald sem mundi vera nokkur hundruð kílómetrum austar í grófum dráttum en það gamla var. Slík hætta er þarna og hún vakir í þessu máli ef mistök verða og mönnum tekst ekki að halda skynsamlega á þessu.

Ég held líka að það sé afar vandmeðfarið, um leið og reynt er að styðja sjálfsagða og eðlilega viðleitni Austur-Evrópuríkja til að komast nær Vestur-Evrópuríkjum og í þeirra hóp bæði hvað varðar stjórnmálaleg tengsl, efnahagsþróun og annað því um líkt, að gefa þar óraunhæfar væntingar. Ég óttast að aðild að Evrópusambandinu og aðild að NATO sé að verða einhvers konar hálmstrá sem menn grípa nú til í örvæntingu sinni um austanverða Evrópu vegna þess að batinn hefur látið á sér standa þrátt fyrir þær breytingar sem þar hefur verið reynt að gera á undanförnum árum með vestrænni forskrift. Það hefur ekki reynst fara þannig að með kapítalismanum fengju allar Austur-Evrópuþjóðirnar sjálfkrafa amerísk lífskjör. Það gerist ekki þannig. En þann misskilning held ég að margir hafi lagt í það að verða vestræn þjóð eða evrópsk, að þar með fylgdu sjálfkrafa á einu bretti öll þau hlunnindi sem því eru samfara að teljast til vestrænna þjóða. Það er mikill misskilningur ef menn halda að svo sé. Það mun taka ár og áratugi að þróa mál þannig áfram í þessum ríkjum sem búa við skort á lýðræðishefð, búa við afar veika stjórnsýslu, í mörgum tilvikum ónýtt réttarkerfi, þar sem glæpastarfsemi veður uppi og þar sem efnahagsbati hefur mjög látið á sér standa nema þá til handa mjög fámennri yfirstétt. Ég sé ekki að 90--95% alþýðunnar í austanverðri Evrópu sé í sjálfu sér hótinu betur sett en áður var en hitt er ljóst að fámenn yfirstétt er orðin þar vellrík. Það er væntanlega ekki það sem við sum hver hér inni getum glaðst sérstaklega yfir. Þarna eru hlutir því miður alls ekki allir þannig að um einhlítt jákvæða þróun sé að ræða.

Í öðru lagi herra forseti, þá get ég ekki tekið hér til máls um utanríkismál heldur en að harma þau dapurlegu tíðindi sem hæstv. utanrrh. boðaði til blaðamannafundar út af, að honum hefði tekist að framlengja samning um dvöl ameríks hers eða erlends hérs hér í landinu. Satt best að segja finnst mér það alltaf sérkennilegt þegar menn koma hér í ræðustólinn og slá því upp sem sérstaklega jákvæðum og merkum tíðindum að tekist hafi að semja um áframhaldandi vígbúnaðarsóun í landinu í algjöru tilgangsleysi. Það dapurlegasta af öllu er auðvitað sú staðreynd að það blasir við að þessi vígbúnaður er hér ekki lengur sérstaklega vegna áhuga hins erlenda herveldis heldur af efnahagslegri nauðhyggju þeirra manna sem sjá engin önnur úrræði en að vera á mála, a.m.k. að þessu leyti. Ég hefði talið meiri manndóm að því hjá hæstv. utanrrh. að leggja fyrir þjóð og þing áætlanir um það hvernig brottför hersins yrði háttað og endurreisn atvinnulífs á Suðurnesjum í kjölfarið.

Af sama toga eru viðbrögð hæstv. utanrrh. við frv. sem ég er 1. flm. að og rætt var sl. föstudag sem felur í sér það efni að friðlýsa Ísland og íslenskt yfirráðasvæði fyrir kjarnorku og eiturefnavopnum. Þá bregður svo við að hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. kemur hér í ræðustól og finnur þessu allt til foráttu. Hann lýsir sig andvígan frv. þar sem í því fælist jafngildi þess að við yrðum að segja okkur úr NATO. Hæstv. utanrrh. skuldar okkur að mínu mati enn skýringar á því hvað er svona ósamrýmanlegt í þessum efnum ef á annað borð á að taka mark á því að Ísland sé kjarnorkuvopnalaust land og það standi ekki til og sé ekki í áætlunum Atlantshafsbandalagsins að misvirða þá íslensku stefnu.

Um sjávarútvegsmál væri margt hægt að segja. Um þau er lítilega fjallað, hafréttarmál og annað því um líkt í þessari ræðu. Ég vil þó staldra við nokkra þætti, fyrst og fremst tilkomu úthafsveiðisamnings Sameinuðu þjóðanna. Ég harma að dráttur hefur orðið á því að við Íslendingar leggjum fram fullgildingarskjöl gagnvart þeim samningi. Ég er þeirrar skoðunar að við hefðum tvímælalaust átt að keppast við að vera í hópi fyrstu þjóða sem fullgiltu samninginn. Ekki vegna þess að það mundi í sjálfu sér breyta neinu á meðan hann hefur ekki tekið gildi og ekki vegna þess að í samningnum sem slíkum felist ákvæði sem færi okkur sjálfkrafa eða einhliða einhver réttindi heldur vegna hins að ég held að við eigum jafnan að keppa að því að vera í fararbroddi þeirra þjóða sem þróa hafréttinn og reyna að túlka hann og beita honum í sína þágu. Þessi samningur er staðreynd, hann verður að veruleika, það mun tilskilinn fjöldi ríkja fullgilda hann þannig að við förum fyrr eða síðar að starfa á grundvelli hans sem þjóðaréttar. Þess vegna segi ég: Við skulum þá bara gera það strax. Og ég hvet til þess að þeirri vinnu verði hraðað.

Sömuleiðis er starfandi nefnd um úthafsveiðimál sem einnig þyrfti að fara að ljúka störfum og hér þarf að setja ný lög um veiðar utan efnahagslögsögu. Það hefur orðið svo gífurleg þróun í þeim efnum að það er meira en tímabært að gömul og fátækleg lagaákvæði frá 1976 verði endurskoðuð og við fáum sæmilega nútímalega löggjöf um þessi mál sem a.m.k. að einhverju leyti endurspegla þá gríðarlegu breytingu og þróun sem orðið hefur í þessum efnum, ekki hvað síst hvað Ísland áhrærir á sl. 5--6 árum.

Það er ekki tími til að fara yfir einstök deilumál á þessu sviði svo sem deilur okkar við Norðmenn vegna fiskveiða í Smugunni í Barentshafi eða samningaviðræðna um síld, enda er það viðfangsefni nokkuð kunnugt. Ég minni líka á réttaróvissuna á Svalbarðasvæðinu og nauðsyn þess að við Íslendingar látum ekki okkar hlut í þeim efnum. Ég tel til að mynda brýnt að íslensk skip reyni við rækjuveiðar á Svalbarðasvæðinu og skaði að ekki hefur orðið af því nú þegar. Nú eru þar erlend skip við veiðar og að sögn afla sum þeirra sæmilega. Ég minni á Hatton-Rockall svæðið og þær kröfur sem við Íslendingar eigum tvímælalaust að reisa til ítaka á því svæði. Það er ljóst að Bretar gera sér grein fyrir því að réttarstaðan á Hatton-Rockall svæðinu mun breytast þegar alþjóðhafréttarsamningurinn gengur í gildi af þeirra hálfu. Um að vitnar m.a. frægur dómur í máli togara sem tekinn var að veiðum á því svæði.

Að síðustu vil ég nefna í þessu samhengi samstarf okkar Íslendinga við næstu nágrannaþjóðir okkar. Ég held að þróunin í hafréttarmálum og hvað varðar sjávarútvegsmál og fiskveiðimál á síðustu árum hafi stóraukið mikilvægi þess og nauðsyn þess að við tökum upp miklu nánari samvinnu við næstu nágranna okkar í austri og vestri. Að mínu mati á að athuga þann kost mjög gaumgæfilega að Íslendingar, Færeyingar og Grænlendingar komi á fót svæðisstofnun um málefni fiskveiða hér í sínum heimshluta. Það er á fjöldamörgum sviðum sem þessar þjóðir þurfa að ná saman og standa saman út á við gagnvart kröfugerð annarra ríkja. Nærtækt dæmi þar um er auðvitað Reykjaneshryggurinn. Það eru fjölmargir sameiginlegir fiskstofnar sem við eigum með þessum þjóðum, einkum og sér í lagi Grænlendingum. En ég tel að svæðisstofnun, m.a. reist á grundvelli ákvæða úthafsveiðisamningsins sem gerir ráð fyrir því að tvær eða fleiri þjóðir geti stofnað til slíkrar svæðasamvinnu, milli Íslands, Grænlands og Færeyja, sé kostur sem beri að athuga mjög vandlega á næstu missirum í þessu sambandi. Það er að mínu mati enginn vafi á því að það getur reynst íslenskum hagsmunum geysilega dýrmætt að hafa gott og milliliðalaust samstarf, skipulagsbundið samstarf við þessar þjóðir. Við búum að mjög jákvæðum samskiptum við Færeyinga frá fornu fari og njótum þess að við sýndum skilning á þeirra stöðu þegar íslenska landhelgin var færð út og þeir misstu hér mikla veiðimöguleika. Og ætli það sé ekki einmitt að koma á daginn nú að sá skilningur hafi borgað sig margfalt í þeirri jákvæðu samstöðu sem tekist hefur með okkur og Færeyingum í síldardeilu við Norðmenn og Rússa. Þær verða hjáróma raddir hagsmunagæslumannanna sem kröfðust þess á undanförnum árum að svipta Færeyinga veiðiheimildum í íslenskri efnahagslögsögu þegar hvað verst stóð á í efnahagslífi þeirrar þjóðar í ljósi þess sem síðan hefur gerst. Ætli það sé ekki þannig að við sem stóðum í því á þeim tíma að verja þessar veiðiheimildir Færeyinga getum með nokkru stolti sagt að það hafi reynst vera rétt afstaða. Það held ég.

Að síðustu, herra forseti, væri gaman að hafa tíma til að ræða aðeins málefni Evrópusambandsins og þá spurningu sem hér hefur af einhverjum verið tekin upp í umræðunni, þ.e. hvort að við Íslendingar eigum að leggja inn umsókn um aðild að þeim klúbbi. Mitt svar er jafnafdráttarlaust nei við því eins og það hefur verið hingað til. Það er fróðlegt fyrir þá sem fýsir þarna inn, eða að minnsta kosti í að gera einhverja tilraun með fyrirtækið Ísland hf. í þessu sambandi, að lesa t.d. Morgunblaðið í dag og útkomu Breta í sambandi við sameiginlegu fiskveiðistefnuna og hvernig þeir standa varnarlausir og berskjaldaðir gagnvart kvótahoppinu út úr Bretlandi. Þannig að það er ekki nóg með að fiskveiðiþjóðir Evrópusambandsins semji sig inn á bresk fiskimið á fullri ferð alveg upp að 12 mílum heldur eru 20% kvótanna sem Bretar höfðu þó sjálfir komin til útlanda í gegnum kvótahoppið og dómar hafa gengið þannig að Bretar eru varnarlausir í þessu sambandi. Ætli mönnum sé ekki hollt að fara pínulítið yfir slíka hluti áður en þeir gerast of stórkarlalegir eða stórkvenlegir í yfirlýsingum hér um að við eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu?