Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 18:11:50 (5180)

1996-04-23 18:11:50# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[18:11]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna orða ráðherrans um að Ísland hafi ekki verið með kvóta flóttamanna þá er það hárrétt. Ísland hefur líka í mjög skamman tíma verið með sérstakt flóttamannaráð. Ég held að það séu rúm tvö ár síðan hafist var handa við undirbúning að stefnumörkun Íslands um málefni flóttamanna. Meðal annars þess vegna var undirbúið að setja á stofn þetta flóttamannaráð sem skyldi fara yfir þessi mál og skoða á hvern hátt Ísland stæði að móttöku flóttamanna. Í því fólst ákveðin stefnumörkun sem og því hvernig flóttamannaráð var samsett. Það fékk mjög háan sess, getur maður sagt, sem nefnd eða ráð. Þessi nefnd setti það fram sem tillögu sína að hingað kæmi árlegur kvóti flóttamanna. Hún var að vísu ekki búin að því í tíð fyrri ríkisstjórnar en sú tillaga kom fram á sl. hausti. Það hefði þá verið eðlilegt að ríkisstjórn afgreiddi slíka tillögu eða tæki afstöðu til hennar því það var að sjálfsögðu meiningin með því að skipa flóttamannaráð að það fengi fulltingi til þess að vera með öfluga flóttamannastefnu eða koma henni á framfæri og fá við hana stuðning.

Varðandi orð ráðherrans um Tyrkland er ég alveg sammála því að Ísland eitt og sér gerir e.t.v. ekki mikið. En Ísland sem rödd mannréttinda sem beitir sér alls staðar þar sem möguleikar eru til að sýna fram á að þessi þjóð, vopnlaus, friðsemdar þjóð, beitir sér í þessum efnum þá á hún að nýta öll þau svið sem hægt er að koma á slíku samstarfi. Ég nefndi það að samkvæmt mínum upplýsingum hefur Ísland ekki verið mjög virkt á fundum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Um þessar mundir stendur t.d. yfir fundur mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í Genf og samkvæmt mínum upplýsingum hafa fulltrúar Íslands ekki nýtt sér rétt sinn til að koma þar athugasemdum á framfæri. Það er alveg ljóst að þau lönd sem t.d. Amnesty International leggur mikla áherslu á að nefndin fjalli um eru Kína, Nígería, Kólumbía, Tyrkland og Indónesía. Þarna getum við orðið að liði og í þessari nefnd getur Ísland beitt sér og verið öflug rödd.