Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 18:39:07 (5186)

1996-04-23 18:39:07# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[18:39]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sé alveg tryggt að það þurfi ekki að verða röskun á starfsemi Flugleiða. Ég tel í reynd miklu meiri hættu á því að ef við stöndum utan við Schengen, verði mikil röskun á starfsemi þessa félags. Vegna þess að aðalmarkaður þess í framtíðinni er Evrópa. Ef við stöndum utan við þetta samstarf þá erum við utanveltu í ferðamannasamstarfi í Evrópu. Halda menn að það hafi engin áhrif á hugsun ferðamanna í Evrópu hvort við erum innan Shengen-samstarfsins eða ekki? Halda menn að það muni engin áhrif hafa á Íslendinga sem ferðast erlendis hvar þeir þurfa að vera í biðröðunum, hvort þeir þurfa að vera utan við allt eins og eru líkur til ef við stöndum utan við þetta? Þeir sem koma frá Grikklandi til Færeyja þurfa jafnvel ekki að sýna vegabréf en Íslendingar þurfa að sýna vegabréf þar svo dæmi sé tekið. Ég er alveg viss um að það mun hafa mjög alvarleg áhrif til frambúðar á starfsemi Flugleiða ef við stöndum utan við þetta samstarf. Ég er miklu hræddari við það. Hitt er allt saman leysanlegt sem verið er að tala um á Keflavíkurflugvelli. Það þarf að hafa svolítið fyrir því en það er ekki mjög mikið og það er hægt að leysa allt á þessari tölvu- og upplýsingaöld. Það vill svo vel til að við vitum mjög mikið um það fólk sem er að koma inn til Keflavíkurflugvallar. Við vitum nákvæmlega hvaða flugvélar eru á leið þangað. Það er ekki þannig á flugvöllum eins og Schiphol í Hollandi þannig að við höfum miklu meiri möguleika til að afgreiða þetta fljótt og vel og það mun að sjálfsögðu verða gert.