Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 18:41:16 (5187)

1996-04-23 18:41:16# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[18:41]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er greinilegt að hæstv. utanrrh. hefur ekki trú á að þarna séu nein vandræði á ferð og ég vona að hann hafi rétt fyrir sér í því. Varðandi þetta samkomulag í sjálfu sér, þ.e. Schengen-samkomulagið eða Schengen-svæðið, þá er með það eins og annað að það hefur kosti og galla. Ég efast ekki um að hæstv. utanrrh. hefur oft lent í því eins og ég að fara í röðina t.d. í Luxemborg þar sem þeir sem tilheyra Evrópusambandinu fara öðrum megin og aðrir fara í aðra röð. Aldrei hefur þetta nú truflað mig neitt sérstaklega. En það kann vel að vera að til lengri tíma litið séu á þessu margar hliðar og að þetta samstarf geti haft ýmis konar afleiðingar bæði til góðs og ills. Þetta verðum við auðvitað að vega og meta. Það sem við höfum m.a. verið að ræða í þessari umræðu er hvað þetta samkomulag muni kosta okkar þjóð, annars vegar í framkvæmdum og hins vegar hvaða áhrif þetta kynni að hafa á fyrirtæki hér innan lands. Ég hef sjálf ekki gert upp hug minn varðandi þetta mál og hef fyrst og fremst verið að fylgjast með þessum umræðum. Mér fannst mjög athyglisvert það sem fram kom með stöðu Flugleiða í þessu. Þó ég viti að hæstv. utanrrh. fari venjulega ekki með fleipur þá vil ég fá það staðfest af hálfu Flugleiða að þeir sjái ekki ástæðu til þess lengur að hafa áhyggjur af þessu máli.