Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 18:43:13 (5188)

1996-04-23 18:43:13# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[18:43]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Tengsl Íslands við aðrar þjóðir aukast stöðugt. Það speglast í því að alþjóðamálin hafa meira vægi í starfi þingsins á þessum síðustu árum en áður. Við tökum þátt í fleiri erlendum nefndum og samtökum en áður og þetta er í annað skipti á þessum vetri sem fram fer afskaplega fjörleg umræða um utanríkismál. Ég minnist þess að við áttum mjög málefnalegar og skemmtilegar umræður þar sem hæstv. utanrrh. var viðstaddur hér fyrr á þessum vetri um skýrslur hinna ýmsu nefnda.

Hér hafa nokkrir hv. þm. fundið að því við hæstv. utanrrh. að sú skýrsla sem hann leggur hér fram sé ekki nógu mikil að vöxtum. Eina krafan sem ég legg fram gagnvart hæstv. utanrrh. er að hann geri skýra þá stefnu sem hann og hans ríkisstjórn fylgir. Ég þykist sjá af því sem liggur fyrir í formi þessarar ræðu að stefnan er skýr þó ég kunni í einstökum atriðum að vera henni ósammála og í sumum verulega.

Áður en lengra er haldið og áður en ég drep á þau mál sem ég ætla að gera að aðalumræðuefni langar mig að vekja eftirtekt á því að ég heyrði ekki betur en að hæstv. utanrrh. hefði í andsvari sínu við hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur upplýst merkilega hluti varðandi stöðu flóttamannamálsins. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir innti hæstv. ráðherra eftir því fyrr í dag hvað liði móttöku þeirra 25 flóttamanna sem ríkisstjórnin samþykkti að taka við hingað til lands. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir endurtók þá spurningu. Ég heyrði ekki betur en hæstv. utanrrh. væri í rauninni að lýsa því yfir að hann og ríkisstjórnin væru fallin frá því að taka við þessum flóttamönnum. Í staðinn hygðist ríkisstjórnin reyna með ýmsum öðrum hætti að aðstoða menn á þessu svæði. Ég vildi gjarnan að það kæmi fram á eftir, herra forseti, hvort þetta er rétt skilið hjá mér af máli hæstv. ráðherra.

[18:45]

Hér hafa komið fram mismunandi sjónarmið gagnvart Evrópusambandinu. Ég verð það segja, herra forseti, að mér finnst eins og ég hef reyndar drepið á fyrr í dag að það blási aðrir vindar og miklu ferskari um Framsfl. þegar utanríkismál og Evrópusambandið eru annars vegar heldur en áður. Það er þess virði að rifja það upp að það var hæstv. utanrrh. sem skipaði sér á bekk með fortíðinni þegar hann ásamt öðrum þingmönnum Framsfl. treysti sér ekki til að greiða atkvæði með framtíðinni þegar við vorum að hér og ráða til lykta aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Síðan gerðist það að vísu og er rétt að rifja upp að hæstv. utanrrh. var á fundi með nokkrum ungum framsóknarmönnum upp í Hvalfirði. Þar lét hans þess getið að auðvitað kynni staðan að hafa verið öðruvísi ef hann væri í ríkisstjórn. Það er nú kannski ekki afskaplega merkileg afstaða en afstaða samt. Nú er hann kominn í ríkisstjórn og nú blása aðrir vindar. Hann mærir ekki bara Evrópska efnahagssvæðið í bak og fyrir heldur fæ ég ekki betur séð en að hann líti Evrópusambandið allt öðrum og miklu jákvæðari augum en áður. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Stækkun Evrópusambandsins er í rökréttu samhengi við sögulega þróun þess og verður það ferli hvorki stöðvað né því snúið við.``

Litlu síðar ber við augu, herra forseti:

,,Stækkun ESB hlýtur að stuðla enn frekar að friði, velmegun, öryggi og stöðugleika í álfunni. Við hljótum að styðja þessa viðleitni, eftir því sem okkur er unnt, enda mun hún hafa áhrif á stöðu okkar í Evrópu framtíðarinnar.``

Mikið skelfing er ég sammála þessu, herra forseti. En hugsum þetta nú áfram. Er þetta rétt? Gefum okkur að hæstv. ráðherra verði að ósk sinni og áfram haldi þjóðirnar að streyma inn í Evrópusambandið og að lokum verði enginn eftir nema hin íslenska. Er það gott fyrir stöðu Íslands? Ég held ekki. Ég held að þá verði Ísland miklu verr statt en núna. Þess vegna held ég að þetta geti ekki gengið nema Ísland verði líka aðili að Evrópusambandinu. Ég tek eftir því að hæstv. utanrrh. í sinni ræðu og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir eru uppi með allt önnur viðhorf en hafa áður komið frá Framsfl. Það er merkilegt þegar þingmaður stjórnarliðsins á borð við hv. þm. Siv Friðleifsdóttur kemur og snuprar hæstv. forsrh. fyrir það hversu miklu aftar hann væri á evrópumerinni en hæstv. utanrrh.

Þetta eru tíðindi. Mér þóttu líka tíðindi að heyra hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur tala héðan eins og langt aftan úr forneskju. A.m.k. ef maður ber saman við þann gustmikla hv. þm. sem hér talaði fyrr í dag og hafði kjark til þess að segja afdráttarlaust að hún væri í andstöðu við hina opinberu stefnu Kvennalistans. Ég geri ráð fyrir að það þurfi talsverðan kjark til að gera það alveg eins og ég vænti þess að hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir hafi líka kjarkinn og þrekið til að varpa af sér því oki sem mér fannst vera að sliga hana hér áðan, oki sem stafaði af því að hún sá ekkert nema karlveldi og reglugerðarveldi. Ég velti því fyrir mér hver sé munurinn á reynsluheimi hennar og hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur sem hefur allt allt aðra sýn. Karlveldið í Evrópusambandinu er ekki nægilegt í augum hennar til þess að það sé frágangssök. Þannig að hér er eitthvað sem þarf að stilla saman og ég mæli nú með því að Kvennalistinn stilli ekki bara saman strengi sína heldur reynsluheima sína líka.

Ég vildi gjarnan gera að umræðuefni þann skort sem mér þykir í stefnu hæstv. ríkisstjórnar að því er lýtur að umhverfismálum. Mér finnst að þeim sé gert allt of lágt undir höfði. Það er bara ein setning á bls. 2 þar sem tekið er á þessu. Öðruvísi mér áður brá. Í tíð fyrrv. utanrrh., núv. hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar, var tekið vel á þessum málum og sérstaklega þeirri vá sem steðjar að framtíð Íslands sem eru hin lífrænu þrávirku efni. Það er ógnin sem steðjar að framtíð Íslands vegna þess að eftir 100 ár eða 200 ár erum við orðin pottur þessara efna. Eðlisfræðilegir eiginleikar þeirra eru þannig að þótt það sé engin uppspretta þeirra á norðurhveli jarðar þá safnast þau öll saman að pólunum. Það er hættulegt. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði þetta að umræðuefni fyrr í dag og ég tek undir hvert orð af því sem hann sagði.

Herra forseti. Ég er sammála því sem hæstv. utanrrh. hefur sagt hér um Schengen-samkomulagið. Ég og ég hygg Alþfl. allur tekur undir hvert orð af því sem hæstv. ráðherra hefur sagt um það. Við erum líka sammála um það sem hann hefur og ríkisstjórnin að segja um Vestur-Evrópusambandið. En ég sakna þess að umfjöllun hans um Vestur-Evrópusambandið skuli ekki vera ítarlegri. Það er svo, herra forseti, að það er viss vandi sem blasir við Íslandi í öryggis- og varnarmálum sem felst í því að margar þjóðir í Evrópu eru að reyna að lyfta undir Vestur-Evrópusambandið og gera það að hinu raunverulega varnarbandalagi Evrópuríkja. Það var stofnað sem slíkt 1948 en það var alltaf örreitiskot sem engu máli skipti fyrr en með Maastricht-ferlinu, þegar það hófst. Þá voru samþykktar ályktanir af Vestur-Evrópusambandsríkjunum sem voru andstæðar og ekki samrýmanlegar. Það var í fyrsta lagi samþykkt að veita þeim þjóðum sem eru fullgildir aðilar að NATO en eru ekki í Evrópusambandinu tilboð um aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu. Þetta eru Ísland, Tyrkland og Noregur. Það átti að verða til að treysta VES sem Evrópustoð varnarsamstarfs Atlantshafsbandalagsins. Það er gott og blessað. Á hinn bóginn gerðist það líka að þessar sömu þjóðir ákváðu að hefja ferli sem ætti helst að enda með því að Vestur-Evrópusambandið yrði hin formlega varnarstoð Evrópusambandsins. Þetta er hættulegt. Þetta er hættulegt fyrir framtíð Atlantshafsbandalagsins. Það má færa margar ástæður fyrir því en ég ætla að láta mér nægja að færa þrjár.

Í fyrsta lagi ef við eflum Vestur-Evrópusambandið sem varnarstoð Evrópu, þá mun það væntanlega leiða til þess að vægi Atlantshafsbandalagsins minnkar. En sagan kennir okkur að við getum ekki án þess verið til að tryggja öryggið. Þeir sem efast um það segja: Hver er óvinurinn? Hverjum á að verjast? Ja, þeir hafa dæmi fyrir sér núna sem eru hin gömlu ríki Júgóslavíu. Það blasir bókstaflega við að án Atlantshafsbandalagsins er ekki kleift að tryggja frið í Evrópu. Ef við förum að ýta undir Vestur-Evrópusambandið og gera að varnarbandalagi eins og t.d. Frakkar og ýmis Suður-Evrópuríki vilja, þá erum við að veikja Atlantshafsbandalagið.

Í öðru lagi. Ef þessi þróun verður svo að VES yrði að inngrónum hluta Evrópusambandsins, þá geri ég ráð fyrir að ríki eins og þessi þrjú sem eru ekki aðilar að Evrópusambandinu gætu ekki tekið með sama hætti þátt í ákvörðunum Vestur-Evrópusambandsins. Þar með er það alveg ljóst að það er verið að hverfa frá því að VES verði fullgild Evrópustoð undir Atlantshafsbandalaginu. Þess vegna tel ég að þetta sé ekki af hinu góða. Við fórum þarna inn til að vera í návígi við þær þjóðir sem skipta mestu máli og daglegri samræðu við þjóðirnar sem eru einnig í Atlantshafsbandalaginu til að hafa áhrif á þróunina. Það gerum við ekki ef Vestur-Evrópusambandið verður hluti af Evrópusambandinu.

Í þriðja lagi má nefna að fimm ríki sem eru fullgildir aðilar að Evrópusambandinu hafa ekki viljað verða aðilar, ekki einu sinni aukaaðilar, að Vestur-Evrópusambandinu. Það eru Finnland, Danmörk, Svíþjóð, Írland og Austurríki. Af hverju hafa þessi ríki ekki viljað verða fullgildir aðilar að Vestur-Evrópusambandinu? Væntanlega vegna þess að þau treysta sér ekki til að axla þær skuldbindingar sem aðildin leggur þeim á herðar. Það þýðir, herra forseti, að ef Vestur-Evrópusambandið ætti að verða formlegur hluti af Evrópusambandinu, þá þyrfti einhvern veginn að útvatna varnar- og öryggistilgang þess til að þessi fimm ríki gætu sætt sig við það. Og þá finnst mér sem niðurstaðan sé heldur óhagkvæm okkur Íslendingum.

Herra forseti. Ég hegg eftir því að í ræðu hæstv. utanrrh. segir að það sé ekki tímabært í dag fyrir Íslendinga að verða fullgildir aðilar að Vestur-Evrópusambandinu. Ég ætla ekki að leggja það til, herra forseti, að Ísland sæki um fulla aðild en ég leyfi mér að vera á móti þessari skoðun hæstv. utanrrh. vegna þess að ég tel að það sé fyllilega tímabært að við veltum því fyrir okkur hvort það kynni ekki að vera í þágu hagsmuna Íslendinga að við reyndum að breyta þeim reglum sem nú gilda um fulla aðild. Það gæti verið að niðurstaðan af slíku mati væri sú að með því að gerast fullgildir aðilar að Vestur-Evrópusambandinu þá hefðum við kannski miklu meiri föng í fyrsta lagi að hafa áhrif á þróun þess í framtíðinni og í öðru lagi gætum við kannski líka stutt aðrar þjóðir sem við höfum skyldum að gegna við, þjóðir sem sækja það mjög fast að gerast aðilar að Vestur-Evrópusambandinu og reyndar NATO líka. Þetta eru Eystrasaltsþjóðirnar þrjár sem við Íslendingar höfum reynt að styðja eins og við getum á síðustu árum. Þær koma t.d. á þingmannasamkundu Vestur-Evrópusambandsins og óska eftir stuðningi þeirra þjóða sem þar eiga aðild og fulltrúa til þess að gerast fullgildir aðilar að Vestur-Evrópusambandinu, að NATO. Og ég styð það, herra forseti. Ég tel þess vegna að það sé mögulegt að full aðild okkar að VES gæti bæði stuðlað að framtíð Íslands og öryggishagsmunum en líka gert okkur auðveldara að styðja þessar þjóðir.

Herra forseti. Það er ýmislegt fleira sem ég vildi ræða hér um Eystrasaltsþjóðirnar og stækkun NATO vegna þess að mér finnst vanta í ræðu hæstv. utanrrh. alla stefnu ríkisstjórnarinnar um það. Ég hef reyndar áður átt orðastað við hann hér um það mál. Ég er þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að taka af skarið og þeir eigi að beita sér fyrir því að Eystrasaltsþjóðirnar þrjár fái fulla aðild að NATO. Þær telja það vera það eina öryggisnet sem getur bjargað þeim í framtíðinni. Ég virði sjálfsákvörðunarrétt þjóða og mér er sérstaklega annt um hag þessara þriggja þjóða. Ég veit að það er hæstv. utanrrh. líka. Hann gerði þetta að umræðuefni þegar Solana, framkvæmdastjóri NATO, kom hingað. En gleymum því ekki hvað Solana sagði á meðan hann var á Íslandi. Hann sagði: Ákvörðunin um stækkun NATO verður tekin á þjóðþingunum. Nú erum við komin hingað í dag til að ræða það. Þá saknaði ég þess að hæstv. utanrrh. skyldi ekki, í ljósi þeirra sérstöku tengsla sem hafa myndast millum Íslands og Eystrasaltsþjóðanna, lýsa því yfir að Ísland mundi styðja umsókn þeirra um fulla aðild að NATO. Og ég spyr hæstv. utanrrh.: Er hann reiðubúinn til að lýsa því yfir hér í dag?