Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 19:08:35 (5195)

1996-04-23 19:08:35# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[19:08]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það dró nú heldur niður í hv. þm. þegar kom að því að rökstyðja þessa framtíðarsýn. Alþfl. hefur ekki sannfært nokkurn mann um það og það gerði hv. þm. ekki heldur hér, að það stæði til boða að sækja um aðild og láta reyna á aðild að Evrópusambandinu með því að leggja inn umsókn og hafa á henni fyrirvara. Kveðið var upp úr um það í sambandi við umsóknaraðild Norðurlandanna þriggja að Evrópusambandinu, í því ferli öllu, að slíkur leikaraskapur kæmi ekki til greina, slík tilraunaumsókn yrði ekki tekin alvarlega. Það er satt að segja heldur léttúðugt að hver talsmaður Alþfl. eftir annan kemur hér fram og segir: Við getum farið í slíkt tilraunaeldhús.