Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 19:09:45 (5196)

1996-04-23 19:09:45# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[19:09]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst það eiginlega vitsmunaleg frekja af hv. þm. að ætlast til þess að ég rökstyðji afstöðu mína til Evrópusambandsins á einni mínútu en ég skal samt gera það.

Herra forseti. Ég á mér þann draum að fá að eldast hér á Íslandi með dóttur minni. Ég óttast það hins vegar að þegar fram líða stundir þá kunni hún ekki að finna starf sem er henni við hæfi og kunni þess vegna að hrekjast til útlanda. Ég tel hins vegar að eitt af því sem er eftirsóknarvert með aðild að Evrópusambandinu í framtíðinni kunni að vera það að hér skapist hátækniiðnaður, hér skapist nægur og öflugur vinnumarkaður fyrir menntað fólk. Ég vísa því algerlega á bug sem hv. þm. segir, að atvinnuleysið út í Evrópu stafi af Evrópusambandinu. Ég er honum algjörlega ósammála. Ég hygg að hæstv. utanrrh. sé það líka. Ég hef skilið hann svo að það sem kom í veg fyrir að Framsfl. íhugi aðild að Evrópusambandinu sé sjávarútvegsstefnan en ekki atvinnuleysið út í Evrópu.